Eignarhald íslenska ríkisins á skjön við önnur vestræn ríki 

„Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir geta sinnt. Það er hagkvæmast fyrir þá sem fá þjónustu og fjármagna hana að hún sé veitt á samkeppnismarkaði, en það skilar sér í sem bestri þjónustu með lægstum tilkostnaði.“

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka og fagnar áformum um að gengið verði frá sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka sem eru í samræmi við gildandi fjárlög, fjármálaáætlun og stjórnarsáttmála. Að mati Viðskiptaráðs hníga sterk rök að því að ríkið eigi að ljúka við sölu á Íslandsbanka, sem og losa enn frekar um víðtækt eignarhald í öðrum atvinnugreinum. 

Fá ríki eru jafn umsvifamikil og Ísland þegar kemur að eignarhaldi hins opinbera í fyrirtækjum á sviði bankaþjónustu (mynd 2). Árið 2023 var hlutdeild banka sem íslenska ríkið fer með meira en 50% miðað við heildareignir bankanna en í hátekjuríkjum var hlutfallið aðeins 5% árið 2020. Sé miðað við banka sem íslenska ríkið fer með yfir fimmtungshlut í er hlutdeildin hærri, eða yfir 70%. 

Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir geti sinnt. Það er hagkvæmast fyrir þá sem fá þjónustu og fjármagna hana að hún sé veitt á samkeppnismarkaði, en það skilar sér í sem bestri þjónustu með lægstum tilkostnaði. Hvatar opinberra aðila til verðmætasköpunar eru ekki þeir sömu og einkaaðila sem getur leitt til óhagfelldrar útkomu. 

Bankarekstur er áhætturekstur 

Viðskiptabankar eiga það sameiginlegt með öðrum atvinnurekstri að standa frammi fyrir fjölmörgum áhættuþáttum. Með því að binda fjármuni skattgreiðenda í bankarekstri er þessi áhætta sett á herðar almennings og hann látinn bera skaðann af skakkaföllum sem gætu orðið í rekstrinum. 

Umfangsmikið eignarhald íslenska ríkisins á kerfislega mikilvægum bönkum er til þess fallið að raska samkeppni með alvarlegum hætti, líkt og Samkeppniseftirlitið benti á í ákvörðun sinni í tengslum við framsal á eignarhaldi á Íslandsbanka til ríkissjóðs 2016.1 Áframhaldandi sala eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka er þess vegna mikilvægt skref í færa Ísland nær þjóðunum sem við berum okkur gjarnan saman við.   

Umtalsverðir fjármunir bundnir í fyrirtækjum  

Þrátt fyrir skjótan viðsnúning hagkerfisins er ríkissjóður enn rekinn með miklum halla. Það er því ljóst að ríkið þarf að skoða gaumgæfilega hvar og hvernig megi hagræða í ríkisrekstrinum. Áframhaldandi sala eignarhluta í Íslandsbanka er vissulega hluti af þeirri vegferð og mikilvægt skref í þá átt að draga úr skuldsetningu ríkissjóðs. Þrátt fyrir söluna er ríkið eftir sem áður umfangsmikið á bankamarkaði, sem er í eðli sínu samkeppnismarkaður, og hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld til að huga að því að losa enn frekar um eignarhald í fjármálafyrirtækjum. 

Til viðbótar við fjármálafyrirtæki eru umtalsverðir fjármunir hins opinbera bundnir í öðrum fyrirtækjum (mynd 3). Að mati Viðskiptaráðs ber að skoða hvernig megi draga úr skuldsetningu ríkissjóðs með því að losa um eignarhald á þessum fyrirtækjum. Það er sérstaklega aðkallandi í ljósi þess að vaxtagjöld ríkissjóðs eru komin yfir 100 milljarða og orðin einn af stærstu útgjaldaliðunum. Með því að losa um eignarhald á fyrirtækjum í eigu hins opinbera mætti auka samkeppni samhliða því að laða að fjárfestingu, bæði frá innlendum aðilum og erlendum. 

Viðskiptaráð hvetur því stjórnvöld til að ljúka við sölu á eignarhlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka, sem og halda áfram að losa um eignarhald hins opinbera í öðrum fyrirtækjum í hefðbundnum atvinnurekstri. Stjórnvöld hafa að nægu öðru að hyggja en að reka fyrirtæki í samkeppni við einkaaðila.  

Lesa má umsögnina í heild sinni hér

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Vilt þú efla samkeppnishæfni Íslands?

Nú er opið fyrir umsóknir um styrki úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands. ...
5. des 2023

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024