Framkvæmd íslenskra eftirlitsstofnana ekki í samræmi við það sem gerist í Evrópu

Sameiginlegur fundur Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um réttarstöðu fyrirtækja við rannsókn mála fór fram í morgun. Á fundinum var farið yfir þau álitaefni sem helst brenna á íslenskum fyrirtækjum í tengslum við rannsóknir mála hjá opinberum eftirlitsstofnunum.

Reimar Pétursson, hæstaréttarlögmaður, fjallaði í erindi sínu um það sem hann kallaði „veiðiferðir“ stjórnvalda þar sem eftirlitsaðilar fara í húsleit í fyrirtæki á grundvelli vísbendinga um brot á lögum en haldleggi gögn langt umfram það sem þörf er á og rannsaki þau í þaula burt séð frá því hver var skilgreind ástæða húsleitar. Sagði hann nánast óhjákvæmilegt að einhver afrakstur yrði úr slíkri ferð. Ástæðu þess sagði hann vera að fyrirtæki störfuðu í umhverfi þar sem mikið væri um matskenndar reglur og þá tækju lög og reglur einnig sífelldum breytinum. Af þessum sökum væri ógjörningur fyrir fyrirtæki að fylgja öllum settum boðum og bönnum.

Una Særún Jóhannsdóttir, sérfræðingur já sænska samkeppniseftirlitinu, fjallaði um heimildir sænska samkeppniseftirlitsins við rannsókn mála og fyrirkomulag við ákvörðun sekta. Una sagði meðal annars mikilvægt að eftirlitsstofnanir upplýstu fyrirtæki um gildandi leikreglur. Af umfjöllun Unu var ljóst að framkvæmd og heimildir íslenska Samkeppniseftirlitsins er um margt ólík því sem gerist á Norðurlöndunum og í Evrópu.

Helga Melkorka Óttarsdóttir, hæstaréttarlögmaður, fjallaði um réttarstöðu fyrirtækja á Íslandi við rannsókn samkeppnismála og ákvörðun sekta í slíkum málum. Þá sagði Helga að áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði í nýlegum málum lækkað sektir um allt að 90%. Velti hún upp þeirri spurningu hvort það fyrirkomulag sem við búum við sé heppilegt eða hvort horfa ætti í meiri mæli til Evrópu, þar sem algengt er að dómstólar ákveði sektarfjárhæðir.

Betri leiðbeiningar eftirlita öllum til góða
Í kjölfar erinda veittu Brynjar Níelsson, alþingismaður og varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, álit löggjafar- og framkvæmdavaldsins. Þau tóku að miklu leyti undir það sem fram kom í erindum ræðumanna. Ræddu þau að mikilvægt væri að eftirlitsstofnanir sinntu leiðbeiningarskyldu sinni með fullnægjandi hætti. Það myndi leiða af sér skýrari framkvæmd, fækkun mála og styttri málsmeðferðartíma. Ragnheiður Elín sagði lagaumgjörðina þar að auki þurfa að vera sambærilega við það sem gerist og gengur í nágrannaríkjunum. Brynjar benti einnig á að koma þyrfti í veg fyrir varasaman hugsunarhátt eftirlitsaðila sem byggir á þeirri hugmyndafræði að allir séu sekir. Slíkt samræmist ekki hagsmunum samfélagsins í heild.

Myndir frá fundinum eru aðgengilegar á Facebook-síðu VIðskiptaráðs

Glærukynningar:

Tengt efni

Fleiri víti 

„Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og ...
31. jan 2024

Hvalir eru ekki blóm

„Ég skil að það sé freistandi að skrifa fréttir um innkaupakörfu áhrifavalds í ...
1. nóv 2023