Umfjöllun um stuðningsstuðul atvinnulífsins

Fjallað var um stuðningsstuðul atvinnulífsins í nýjustu útgáfu Viðskiptablaðsins, en Viðskiptaráð hefur gefið hann út frá árinu 2011. Stuðullinn segir til um hversu margir einstaklingar eru studdir með opinberu fjármagni eða millifærslum fyrir hvern vinnandi einstakling í einkageiranum.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, að Ísland væri að þokast í rétta átt og þar spili minnkað atvinnuleysi stórt hlutverk. Það sé þó tvennt sem stingi í augun. Annars vegar hlutfall opinberra starfsmanna, sem hefur staðið í stað frá árinu 2009 þrátt fyrir aðhaldsaðgerðir. Frosti sagði þetta því benda til að hagræðingaraðgerðir hafi fremur beinst að samdrætti í fjárfestingum og öðrum skammtímalausnum í stað nauðsynlegra kerfislægra breytinga: „Til að nýta fjármagn sem best og gera hinu opinbera kleift að greiða samkeppnishæf laun ættu stjórnvöld að setja sér það markmið að lækka þetta hlutfall“

Fjöldi einstaklinga utan vinnumarkaðar veldur einnig áhyggjum, en þrátt fyrir mannaflsfrekar framkvæmdir og uppgang í greinum líkt og ferðaþjónustu hefur ekki tekist að færa atvinnuþátttöku í fyrra horf. Stuðningsstuðullinn gefur vísbendingu um hvort jafnvægi sé á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild, þó hann sé ekki fullkominn mælikvarði frekar en aðrir hagvísar. Viðskiptaráð telur mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að ná stuðlinum neðar þar sem sterkur einkageiri er drifkraftur verðmætasköpunar og bættra lífskjara.

Nánari umfjöllun má lesa í Viðskiptablaðinu 14. ágúst.

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Nauðsynlegt að tryggja félagafrelsi á vinnumarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs um félagafrelsi á vinnumarkaði (mál nr. 24)
8. des 2022

Klæðlausar Kjarafréttir

Enn og aftur eru nýju fötin sem Keisarinn fékk frá Kjarafréttum í efnisminni ...
20. okt 2022