„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem fram fór 23. nóvember 2023.

Nú er þetta fjórði peningamálafundurinn þar sem ég held tölu. Fyrsti fundurinn var sendur út í streymi vegna heimsfaraldurs. Á þann næsta máttu einungis 50 manns mæta vegna fjöldatakmarkana. Í fyrra hittumst við takmarkalaust saman hérna á Hilton, en þá vorum við enn að ræða afleiðingar heimsfaraldurs sem og stríðið í Úkraínu og afleiðingar þess á heimsviðskipti og efnahagsmál. Ég taldi satt að segja að þetta væri komið gott en nei, nú eru það jarðhræringar á Reykjanesinu sem eiga hug okkar allan, skaðinn sem nú þegar er orðinn og svo hvort, hvenær og hvar eldgos komi upp og afleiðingar þess. 

Ég ætla rétt að vona að næsti formaður Viðskiptaráðs sem tekur við af mér á komandi ári fái viðráðanlegri umræðuefni en heimsfaraldur, stríð og náttúruhamfarir. 

Umfjöllun um stýrivexti síðasta árið og ákvörðun gærdagsins 

En hvað hefur gerst síðan við vorum hér fyrir ári síðan? Þá hafði peningastefnunefnd Seðlabankans tekið ákvörðun um tíundu vaxtahækkunina í röð, eftir að vonir höfðu verið gefnar við ákvörðun í október um að við værum að ná hápunkti vaxtaferilsins. Fyrir ári stóðu vextir í 6% en nú eru meginvextir í 9,25%. Til að allrar sanngirni sé gætt sagði seðlabankastjóri vissulega, orðrétt, að allur andskotinn gæti gerst – en Seðlabankinn hefði þau tæki og tól sem væru nauðsynleg til að bregðast við ástandinu. Þau viðbrögð hafa að meginstefnu verið að hækka meginvexti.  

Nú eru vísbendingar um að stýrivaxtahækkanirnar séu víðsvegar farnar að bíta. Það hægir á einkaneyslu og fjárfestingu, húsnæðismarkaðurinn hefur kólnað, en óljóst er hver áhrif jarðhræringa verða á núverandi stöðu. Eftir fjórtán stýrivaxtahækkanir ákvað Seðlabankinn að láta staðar numið í október, að minnsta kosti í bili, og sjá hvað framtíðin bæri í skauti sér. Í ljósi núverandi aðstæðna og þeirrar óvissu sem uppi er ákvað Seðlabankinn í gær að halda vöxtum óbreyttum. Í tilkynningunni er þó jafnframt tekið fram að verðbólguvæntingar séu enn háar og þess vegna „gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar“. 

Í því sambandi finnst mér rétt að hvetja Seðlabankann til að hafa meiri trú á eigin aðgerðum. Áhrifin af vaxtahækkunum síðustu tveggja ára eru enn að koma fram og fátt sem mér finnst kalla á harðari aðgerðir, þrátt fyrir verðbólguhorfur. Við þurfum líka að horfa til lengri tíma og átta okkur á því hversu harkalega lendingu húsnæðismarkaðarins á að knýja fram, en þar er augljóst að stýrivaxtahækkanirnar eru farnar að hafa veruleg áhrif, eins og verður frekar rætt síðar á þessum fundi.  

Allir þurfa að taka ábyrgð á ástandinu 

Á tímum hárra vaxta og verðbólgu er eðlilegt að leggja áherslu á að allir taki ábyrgð á ástandinu og geri sitt til að vinda ofan af því.  

Það er oft vitnað til þjóðarsáttarinnar sem gerð var í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Þá höfðum við horft upp á áralanga óðaverðbólgu, þar sem meðalársverðbólga allan áratuginn á undan var um 30%. Laun hækkuðu á þessum áratug um 1300% en verðlag um tæp 1500%. Þetta var ástand sem allir töpuðu á og þeir mest sem höfðu minnst á milli handanna.  

Aðstæður nú eru aðrar, þótt bæði verðbólga og vextir séu há. Okkur hefur að vísu gengið verr en nágrannaríkjunum að ná tökum á verðbólgunni og það verður að segja eins og er að hluti þess vanda er heimatilbúinn. Það hefði ekki átt að koma neinum á óvart að kjarasamningar með yfir 7% launahækkunum hefðu áhrif, ekki síst á jafnþöndum vinnumarkaði og hér.  

Árshækkun launavísitölunnar í september síðastliðnum var næstum 11%. Hvort sem við lítum til síðustu tíu eða tuttugu ára, hafa launahækkanir verið langt umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði Seðlabankans og því sem er eðlilegt að vænta af framleiðnivexti. Á Íslandi hafa laun hækkað um það bil þrefalt meira en þekkist á Norðurlöndunum og Evrusvæðinu. Að mínu mati þykir mér þetta gleymast þegar bent er á hversu vel öðrum þjóðum, í samanburði við okkur, hefur tekist upp í baráttunni við verðbólguna. 

Ríkið sendi skilaboð – hvernig var þjóðarsáttin í raun og veru? 

Stjórnmálamenn kalla eftir því að atvinnulífið axli ábyrgð, en að sama skapi þurfa þau sem stjórna að sýna að þau skilji vandann og vilji gera sitt til að ná tökum á ástandinu. Þriðja hver króna sem verður til hér á landi fer í ríkisútgjöld og það aðhald sem hefur verið boðað dugir skammt til að stoppa í fjárlagagatið. Auðvitað horfumst við í augu við að stundum kemur eitthvað upp á sem setur öll góð áform á hliðina, eins og það mikla áfall sem Grindvíkingar eru að takast á við þessa dagana. Ég vil samt brýna þau sem stjórna ríkisfjármálunum að missa ekki sjónar á langtímamarkmiðinu, að ná tökum á verðbólgunni, skapa hér viðunandi vaxtaumhverfi og meiri efnahagslegan stöðugleika. 

Það eru ýmsar leiðir til þess að sýna að vilji sé til þess að leggja lóð á vogarskálarnar, bæði í baráttunni við verðbólgu og til þess að liðka fyrir kjarasamningum. Ein aðgerð væri að frysta krónutölugjöld, rétt eins og gert var bæði árið 2014 og 2015. Það væru skýr skilaboð um að ríkið vildi leggja sitt af mörkum til að sporna gegn verðbólgu og styðja við kaupmátt. Við höfum svo margoft rætt um tryggingagjaldið, sem er einfaldlega skattur á að hafa fólk í vinnu. Það væri mikilvægt innlegg í komandi kjaraviðræður að lækka það.  

Svona fyrst ég er byrjaður. Þá vil ég einnig nota tækifærið og segja að ég sakna þess að stjórnmálamenn tali upp atvinnulífið í stað þess að tala okkur niður. Við erum öll saman í þessum bát og hagsmunir fyrirtækja og launafólks fara saman. Öflug fyrirtæki þýða betri lífskjör og meiri tekjur fyrir hið opinbera, - sem það mætti samt sem áður fara betur með. 

Og talandi um kjaraviðræður. Ég vil auðvitað vona það besta, en sporin hræða. Rétt eins og ég vék að hér áðan hefur launaþróun hér á landi ekki verið í neinu samræmi við nágrannalöndin. Það er ekki hægt að líta fram hjá því þegar við ræðum um bæði verðlag og vaxtastig. Kjarasamningarnir síðasta vetur voru dýrir skammtímasamningar. Þar áður gerðum við dýra langtímasamninga.  

Ég veit ekki hvort ég á að trúa því að útkoman verði eitthvað öðruvísi á næsta ári, en ég vona að allir sem sitja við borðið átti sig á því hvað er undir. Vilhjálmur Birgisson hefur stigið fram og sagt að hann telji nauðsynlegt að gera þjóðarsátt. Hann hefur sett fram hugmynd um 2,5% hámarkshækkanir á laun og verðlag, en slíkur samningur myndi ganga miklu lengra en þjóðarsáttin frá 1990. Á þeim tíma ábyrgðist ríkisvaldið að verð landbúnaðarvara héldist óbreytt og stéttarsamband bænda ábyrgðist með sérstökum samningi að búvörur myndu ekki hækka – að vissum skilyrðum uppfylltum. Í þessum samningi var ekki minnst á bann við hækkun almenns verðlags, en það var allra hagur að halda aftur af hækkunum. Aðilar samningsins gerðu ráð fyrir að verðlagshækkanir yrðu um 6-7% á fyrra ári samningsins – en laun hækkuðu um 5%. Það var sem sagt bókstaflega gert ráð fyrir að laun héldu ekki í við verðlag. 

Það er reyndar einmitt það sem hefur gerst í ríkjunum í kringum okkur undanfarið. Ríkjunum sem fólk vill oft bera okkur saman við, þegar horft er til vaxtakjara og verðlags. Þar hefur kaupmáttur rýrnað lítillega en á móti kemur að þau ríki hafa líka náð verulegum árangri í baráttunni við verðbólgu. 

Við þurfum að vera raunsæ í nálgun okkar. Það er okkar allra hagur að ná tökum á efnahagsástandinu. Lægri verðbólga og lægra vaxtastig eru raunverulegar kjarabætur. Það er það sem við eigum að stefna að með raunhæfum aðferðum. 

Ég vona líka að okkur takist að komast í gegnum þessa kjarasamninga án kostnaðarsamra átaka á vinnumarkaði. Þar hefði ég viljað sjá ríkissáttasemjara fá nauðsynlegar heimildir til að grípa inn í atburðarásina. Uppákoma síðasta vetrar, þar sem hann var sendur til baka með miðlunartillögu, sýndi glöggt hversu máttlaust þetta embætti er. Og þrátt fyrir yfirlýsingar í stjórnarsáttmála og loforð um að bætt yrði úr, hefur ekkert gerst. Verkalýðshreyfingin tók ekki vel í málið, enda varla við öðru að búast svo vinnumarkaðsráðherra ákvað að leggja ekki fram breytingar á vorþingi, ekki á haustþingi en setti málið í nefnd og boðar að frumvarpið komi fram eftir áramót. Það er örugglega fín tímasetning, svona rétt þegar samningar losna. 

Lausnir 

Ég veit að það getur verið áskorun fyrir stjórnmálamenn, sem þurfa að reglulega að leggja verk sín í dóm kjósenda, að taka erfiðar ákvarðanir sem eru þó skynsamlegar. Í því samhengi er oft vitnað í fræg orð Jean-Claude Junckers, fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar og forseta framkvæmdastjórnar ESB sem eitt sinn sagði: „Við vitum öll hvað þarf að gera, við vitum bara ekki hvernig við náum endurkjöri eftir að við höfum gert það.“ 

Þetta hefur stundum verið kallað bölvun Junckers, en ég bind vonir við að stjórnmálamenn hér í salnum og víðar finni leiðir til að taka réttar ákvarðanir. Við hin reynum svo að gera okkar besta, þótt á öðrum vettvangi sé.  Ég vona líka að þótt við notum öll reglulega tækifærið til að benda hinum á hvað megi betur fara, náum við saman um lausnir sem virka fyrir okkur öll og skila raunverulegum árangri til langs tíma. 

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024