Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi hætti skapa þau þeim óþarfa kostnað, sem iðulega fellur á íslenska neytendur og gerir róðurinn þyngri í alþjóðlegri samkeppni.“

Hver man ekki eftir fréttum af furðulegum ESB-reglugerðum eins og um að gúrkur og bananar yrðu að vera beinir? Breskir fjölmiðlar hafa í gegnum tíðina verið duglegir að flytja slíkar furðufréttir sem síðan hafa oft ratað hingað heim, ekki bara af banönum og gúrkum, heldur líka af eggjum sem ekki mætti selja í tylftum og jógúrt sem ekki mætti kalla jógúrt heldur yrði að merkja sem gerjaðan mjólkurbúðing, að ógleymdri fréttinni um smokkana sem átti að staðla – í einni stærð. Ekkert af þessu er reyndar á rökum reist, en sagan er góð og lífseig og vissulega er evrópskt regluverk oft tyrfið og smásmugulegt, en yfirleitt ekki alveg svona galið. Mýtur sem þessar hafa þó stundum fallið í frjóan jarðveg og mögulega gert það að verkum að fólk er tilbúið að trúa öllu mögulega upp á ESB og – í tilfelli okkar Íslendinga – upp á EES.  

Þann 1. janúar á næsta ári verða 30 ár liðin frá því EES-samningurinn gekk í gildi. Með honum var komið á fót sameiginlegu efnahagssvæði, þar sem hið svokallaða fjórfrelsi gegnir lykilhlutverki. Í því felst frelsi til vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og frjálsrar farar launafólks milli ESB og EFTA-ríkjanna sem mynda evrópska efnahagssvæðið. Til þess að þetta gangi allt snurðulaust fyrir sig er lögð áhersla á einsleitni reglna sem gilda á þessum sviðum og hafa verið samþykktar á vettvangi EES-samstarfsins.  

Því skal ekki neitað að stundum finnst manni að við séum svo sérstök og öðruvísi, búandi á þessari fámennu eyju fjarri öðrum þjóðum, að ýmsar þær reglur sem settar eru í Evrópu eigi varla við okkur. Á móti kemur að áðurnefnd einsleitni hefur rutt úr vegi ýmsum hindrunum í viðskiptum og veitt okkur greiðari aðgang að um 450 milljóna markaði. Það er mikils virði fyrir tæplega 400 þúsund manna þjóð. Það þýðir þó ekki að við eigum ekki að halda sérstökum aðstæðum okkar á lofti þegar ástæða er til, til dæmis vegna legu landsins og fárra valkosta í flutningum, hvort sem um er að ræða fólk eða vörur. 

Gallinn er sá að við höfum sjálf verið gjörn á að reisa okkur hurðarás um öxl við innleiðingu evrópureglugerða. Það er ekki einungis ámælisvert þegar litið er til framkvæmdar samningsins, þar sem þýskt fyrirtæki sem ákveður að hefja starfsemi hér á að geta treyst því að hér gildi sambærilegar reglur og annars staðar á EES-svæðinu, rétt eins og íslenskt fyrirtæki á að ganga að samræmdu regluverki í Þýskalandi, heldur ekki síður þegar litið er til samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi hætti skapa þau þeim óþarfa kostnað, sem iðulega fellur á íslenska neytendur og gerir róðurinn þyngri í alþjóðlegri samkeppni. 

Viðskiptaráð hefur undanfarið fjallað talsvert um séríslenska innleiðingu evrópsks sjálfbærniregluverks, sem felur í sér um tveggja milljarða árlegan aukakostnað, vegna geðþóttaákvörðunar löggjafans. Annað dæmi, glænýtt, má finna í frumvarpi heilbrigðisráðherra sem kveður á um að koma skuli á fót hér sérstökum gagnagrunni sem geti í rauntíma gefið upplýsingar um yfir 5000 lyf og á að kosta 500 milljónir, sem er þó engan veginn tæmandi kostnaðaráætlun. Frumvarpið er sagt innleiðing á evrópureglugerð, sem þó kveður einungis á um að stjórnvöldum skuli veittar upplýsingar – þegar þörf krefur – um innan við 20 lyf á skilgreindum lista. Þetta er verulega íþyngjandi innleiðing á reglugerð sem hefur reyndar ekki enn verið tekin upp í EES-samninginn. Svona vinnubrögð koma óorði á EES-samninginn og eru gróðrarstía fyrir tortryggni og upplýsingaóreiðu um þetta mikilvæga samstarf.  

Í lokin er svo rétt að geta þess að til eru evrópskar staðlaðar smokkastærðir. Þær hafa bara ekkert með ESB að gera heldur var það allt annað apparat, Evrópska staðlaráðið, sem kynnti þær til sögunnar. Í ýmsum stærðum. 

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. október 2023

Tengt efni

Þarf þetta að vera svona?

„Hérlendis má aftur á móti ætla að læknar þurfi að meðaltali að biðja ...
14. des 2023

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023