Viðskiptaþing 2014: Aukin alþjóðaviðskipti undirstaða lífskjarabóta

HJ vefurHreggviður Jónsson formaður Viðskiptaráðs sagði á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, spurninguna „„hversu opið á Ísland að vera fyrir alþjóðlegum viðskiptum“ vera eina þá mikilvægustu fyrir efnahagslega framvindu þjóðarinnar. Hreggviður sagði undirstöðu þeirra lífskjarabóta, sem hafa átt sér stað á Íslandi undanfarna öld, einkum að finna í auknu frelsi í viðskiptum með vörur, fjármagn og þjónustu. Vaxandi tengsl hafi gert Íslendingum kleift að skapa sérhæfingu og auka verðmæti framleiðslu svo um munar.

Að mati Hreggviðs eru áhrif alþjóðavæðingar skýr: „Sífellt stærri hluti íslensks atvinnulífs keppir með beinum og óbeinum hætti á alþjóðlegum mörkuðum og lífskjör í landinu ráðast að miklu leyti af hlutfallslegri getu okkar til að skapa samkeppnishæfar vörur og þjónustu. Þannig er útflutningur drifkraftur verðmætasköpunar – einkum fyrir lítið hagkerfi eins og það íslenska – og æskilegt að hann vaxi hraðar en innlend neysla. Öðruvísi er hagvöxtur ekki sjálfbær til lengri tíma, líkt og við fengum að kynnast í efnahagslegum hrakförum ársins 2008.“

Að vera eða ekki vera... á Íslandi
Þá minnti Hreggviður á að spurningar um hvernig mætti best styðja við markmið um að hér vaxi og dafni samkeppnishæf alþjóðafyrirtæki snúa ekki eingöngu að efnahagslegum ávinningi. Þar undir væri einnig sú samfélagsmynd sem við viljum byggja til framtíðar. „Fjölbreytt atvinnutækifæri, breitt vöru- og þjónustuúrval og menningarleg tengsl við umheiminn eru allt þættir sem gera Ísland að ákjósanlegri stað til að búa á. Það er hið raunverulega viðfangsefni fundarins í dag.“

Til að svo megi verða og fyrirtæki hérlendis geti keppt á erlendum mörkuðum þá sagði Hreggviður að rekstrarumhverfið þurfi að vera alþjóðlega samkeppnishæft og að umbætur sem miða að eflingu alþjóðageirans styðja við alla hluta hagkerfisins. „Það er þó mikilvægt að hafa í huga að fyrirtæki alþjóðageirans eru ekki bundin af því að reka starfsemi sína hér á landi og því enn mikilvægara en ella að vel sé búið um hnútana ef ætlunin er að styrkja þennan hluta hagkerfisins. Að vera, eða ekki vera... á Íslandi. Þar er efinn. Þetta er spurning sem stjórnendur fyrirtækja í alþjóðlegum rekstri velta fyrir sér á hverjum degi.“

Staða peningamála stærsta hindrunin
Hreggviður minnti jafnframt á að gríðarlegum tíma, orku og fjármunum er varið í úrlausnarefni sem engum verðmætum skila. Vísaði hann þar til áhrifa gjaldeyrishafta á uppbyggingu alþjóðlegrar starfsemi hér á landi. Hvatti hann því stjórnvöld til að leggja allt í sölurnar til að greiða fyrir afnámi hafta sem fyrst.

Þá hvatti hann stjórnvöld jafnframt til að móta framtíðarstefnu í peningamálum enda staðreyndin sú að þótt höft verði afnumin mun alþjóðleg starfsemi á Íslandi eiga erfitt uppdráttar meðan ekki ríkir traust gagnvart íslensku krónunni. „Sem fyrsta skref teldi ég það lágmark að stjórnvöld settu fram opinbert markmið um að Ísland ætli sér að uppfylla Maastricht-skilyrðin fyrir lok kjörtímabilsins. Þá ákvörðun má taka alveg óháð framvindu í ESB-málum.“

Ótvíræður árangur af opnara hagkerfi
Undir lok erindisins velti Hreggviður því upp hvort Íslendingar vilji í raun byggja upp alþjóðlegt atvinnulíf með þeim breytingum sem því fylgir. Hreggviður sagði afstöðu Íslendinga til alþjóðaviðskipta um of hafa markast af eiginhagsmunum.  Því þurfi að breyta og stjórnmálamenn þurfi að sýna pólitískt þor til að opna hagkerfið og atvinnulífið á að hvetja til erlendrar samkeppni.

„Krafan um framsækni og og alþjóðlega samkeppnishæfni verður ríkari, en við getum fyllilega staðið undir því. Íslendingar eiga ekki að óttast breytingar, heldur fagna þeim. Ávinningurinn af opnara hagkerfi er ótvíræður og skapar grundvöll fyrir bætt lífskjör í landinu. Það er því von Viðskiptaráðs að Íslendingar sýni hugrekki og framsýni og marki sér þá stefnu að landið verði eins opið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og frekast er unnt.“

Ræða Hreggviðs Jónssonar er aðgengileg hér.

Upplýsingarit Viðskiptaráðs um alþjóðageirann má sækja hér.

Tengdar fréttir:

Tengt efni

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Kröfur sem hindra samkeppni á leigubifreiðamarkaði

Umsögn Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um drög að reglugerð um ...
22. mar 2023