Úttekt á stöðu aðildarviðræðnanna mikilvægt framlag til málefnalegrar umræðu

Ríflega 100 gestir sóttu kynningarfund á úttekt Alþjóðamálastofnunar á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í dag. Á fundinum kynntu höfundar úttektarinnar helstu niðurstöður kafla hennar og sátu fyrir svörum að því loknu. Að úttektinni stóðu, ásamt Viðskiptaráði Íslands, Alþýðusamband Íslands, Félag atvinnurekenda og Samtök atvinnulífsins. Ákveðið var að ráðast í gerð hennar á haustmánuðum síðasta árs vegna þeirrar óvissu sem uppi var um framhald aðildarviðræðna, enda um mikilvæg álitaefni að ræða fyrir efnahagslega framvindu þjóðarinnar.

Helstu niðurstöður úttektarinnar má nálgast hér og úttektina í heild sinni má nálgast hér.

Kynningar fundarins voru eftirfarandi:

  • Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, hóf fundinn á að fara yfir stöðu aðildarviðræðna. Glærur hennar má nálgast hér.
  • Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og lektor við Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður peninga- og efnahagsmálakafla úttektarinnar. Glærur hans má nálgast hér.
  • Bjarni Már Magnússon, lögfræðingur og Ph.D. í þjóðarétti, kynnti niðurstöður sjávarútvegskafla úttektarinnar. Glærur hans má nálgast hér.
  • Daði Már Kristófersson, auðlindahagfræðingur og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands, kynnti niðurstöður landbúnaðar- og byggðamálakafla úttektarinnar. Glærur hans má nálgast hér.

Salur

Í kjölfar kynninganna sátu skýrsluhöfundar fyrir svörum í pallborði. Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, stýrði umræðum en hún var jafnframt fundarstjóri.

Meðal þess sem skýrsluhöfundar voru spurðir út í má nefna lögmæti framsals aflaheimilda innan ESB, áhrif aðildar á hvalveiðar, landbúnaðar- og byggðastyrki, mögulegar breytingar á sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, möguleika á varanlegri undanþágu frá ákvæðum Lissabon-sáttmálans og heildstætt mat á þjóðhagslegum ávinningi af aðild.

Óvissa um hugsanlega útkomu viðræðna í sjávarútvegsmálum
Þátttakendur í pallborði voru sammála um að til þess að fá botn í mörg af helstu álitaefnum varðandi aðildarsamning við Evrópusambandið þyrfti að klára aðildarviðræðurnar. Útilokað sé að spá fyrir um endanlega niðurstöðu hvað varðar undanþágur og sérlausnir. Það eigi t.d. við um vangaveltur í tengslum við beiðni um kröfu um að Ísland verði sjálfstætt fiskveiðistjórnunarsvæði. Þó komi fram í úttektinni að Ísland gæti sett hindranir í veg fyrir fjárfestingar erlendra aðila án þess grípa þurfi til undanþága eða sérlausna.

Bjarni Már Magnússon, höfundur sjávarútvegskafla úttektarinnar, benti á að og Danir hafi t.d. í sinni löggjöf komið í veg fyrir svokallað kvótahopp í sinni löggjöf með skilyrðum um að erlendir aðilar þurfi að búa í landinu í tvö ár til þess að fá leyfi til að stunda atvinnuveiðar í danskri lögsögu. Einnig gerði hann grein fyrir því að Evrópusambandið sé nú í fyrsta skiptið að semja við ríki sem hefur sjávarútveg að grundvallarhagsmunum í aðildarviðræðum.

Ísland sérstætt í landbúnaðar- og byggðamálum
Hvað harðbýlisstyrki og styrki vegna ystu svæða varðar greindi Daði Már Kristófersson, ritstjóri landbúnaðar- og byggðamálakafla úttektarinnar, frá því að þær undanþágur sem að finnskir bændur fengu voru tímabundnar. Því sé fræðilegur möguleiki á stefnubreytingu hjá sambandinu sem gætu leitt til þess að undanþágurnar myndu á einhverjum tímapunkti falla niður.

Daði taldi vísbendingar sem lesa megi út úr endurskoðunarhugmyndum fyrir sameiginlegu landbúnaðarstefnuna ekki benda til þess að verið sé að falla frá því að styrkja harð- og strjálbýl svæði í álfunni. Sagan hafi sýnt að þegar gerðar eru breytingar á landbúnaðarkerfi sambandsins þá hafi það verið þumalputtaregla að bændur komi jafn vel út úr nýju kerfi og fyrir breytingar.

Aðild að ESB myndi flýta afnámi hafta
PanelumraedurRætt var um kostnað vegna hafta, m.a. í tengslum við uppbyggingu alþjóðageirans á Íslandi. Ásgeir Jónsson, höfundur peninga- og efnahagsmálakafla úttektarinnar, taldi herkostnað haftanna verulegan enda einangri þau fjölmargar atvinnugreinar frá alþjóðamörkuðum. Það var mat Ásgeirs að alþjóðleg samvinna hafi í gegnum tíðina skipt Íslendinga miklu máli og í nær öllum tilfellum skilað miklum velferðarábata.

Ásgeir sagði stærsta vandann við höftin vera þá staðreynd að Íslendingar séu lokaðir inni á innlendum mörkuðum, fremur en að vandinn liggi í því að erlendir aðilar komist ekki inn á íslenskan markað. Rekstur fyrirtækja í dag byggi á alþjóðlegu atvinnulífi. Sem dæmi um þetta hafi Norðurlöndin byggt stóran hluta sinnar velferðar á öflugum alþjóðlegum fyrirtækjum sem veiti vel menntuðu fólki hálaunastörf. Á meðan Ísland búi við gjaldeyrishöft verði ómögulegt að byggja upp ný alþjóðleg fyrirtæki á borð við Össur og Marel og að velferðartap vegna hafta sé þar af leiðandi gríðarlegt.

Pólitískt mat ræður framhaldi viðræðna
Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, sagði fátt benda til þess að óskynsamlegt væri að halda aðildarviðræðum áfram. Hún sagði að erfitt væri að spá fyrir um hvernig endanlegur samningur myndi líta út og slíkt yrði aðeins leitt í ljós með því að ljúka viðræðum. Ásgeir sagði pólitískt mat og forgangsröðun stjórnvalda skipta miklu máli varðandi útkomu aðildarviðræðna.

Hvalveiðar mæta litlum skilningi innan ESB
Þegar spurt var hvers vegna áhrif hvalveiða á viðræðurnar hefðu ekki verið rædd sagði Bjarni Már hvalveiðar ekki falla undir sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins heldur umhverfisstefnuna. Hann sagðist engu að síður telja að það væri lítill sem enginn pólitískur vilji hjá Evrópusambandinu til þess að heimila hvaðveiðar Íslendinga. Hins vegar mætti leiða að því líkum að hægt væri að nota hvalveiðarnar sem „skiptimynt“ í blálok viðræðnanna til að ná fram hagfelldari niðurstöðum í öðrum málaflokkum.

Almannahagsmunir ráði för
Í samantekt sinni ræddi Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, um mikilvægi þess að fá fram málefnalega greiningu á þessu stóra álitamáli. Hann sagði nauðsynlegt að draga fram það sem erfiðast er viðureignar í aðildarviðræðunum og þeim álitaefnum sem uppi eru í ferlinu. Gylfi sagði úttektina mjög álitlega og nú væri nauðsynlegt að greina hana með heildarhagsmuni í huga.

Myndir af fundinum af Flickr síðu Viðskiptaráðs

Tengt efni:

Mbl.is

Rúv.is

Pressan.is/Eyjan.is

Vb.is

Vísir.is

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Að dæma Akureyri í Staðarskála

Hvalveiðar, mannanafnanefnd og listamannalaun. Það bregst ekki frekar en að ...
26. júl 2019

Annual Business Forum 2011

On February 16th the Iceland Chamber of Commerce will host its annual Business ...
16. feb 2011