Alvarlegar athugasemdir við frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins

Viðskiptaráð hefur skilað inn athugasemdum sínum við frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn. Skýrslan felur í sér athugun á eldsneytismarkaðinum og mat á því hvort grípa þurfi til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem raska samkeppni.

Athugasemdir Viðskiptaráðs snúa einkum að forsendum útreikninga og þeim ályktunum sem dregnar eru í rannsókninni auk þess sem ráðið telur tillögur eftirlitsins til íhlutunar á markaði vera illa ígrundaðar.

Umsögnina má í heild sinni nálgast hér

Greinargóðar leiðbeiningar eru nauðsynlegar
Heilbrigt samkeppnisumhverfi og skilvirk framkvæmd samkeppnislaga er öllum til hagsbóta og starfsemi Samkeppniseftirlitsins þjónar lykilhlutverki í því samhengi. Rannsóknir eða athuganir á tilteknum mörkuðum geta jafnframt verið gagnlegar til að efla samkeppni. Leiðbeiningar um framkvæmd samkeppnislaga og upplýsingar um túlkun Samkeppniseftirlitsins á skipulagi markaða getur dregið úr óvissu og fyrirbyggt þau samkeppnisbrot sem eiga sér stað vegna upplýsingaskorts.

Viðskiptaráð telur aftur á móti að markaðsrannsóknir sem framkvæmdar eru í þeim tilgangi að réttlæta íhlutanir eftirlitsaðila án þess að brot á samkeppnislögum hafi átt sér stað séu afar óæskilegar. Því miður falla rannsóknir Samkeppniseftirlitsins í þennan flokk, ólíkt því sem tíðkast t.a.m. á Norðurlöndunum. Þá telur Viðskiptaráð afmörkun og framsetning rannsóknarinnar um margt ábótavant.

Áreiðanleiki útreikninga og ályktana þarf að vera hafinn yfir allan vafa
Það á almennt við um þau gögn og útreikninga sem eftirlitsaðilar senda frá sér að gæði þeirra ættu að vera hafin yfir vafa. Þá er jafnframt mikilvægt að hlutlægni sé gætt við framsetningu þeirra. Þetta skiptir máli fyrir orðspor og trúverðugleika viðkomandi stofnunar enda í mörgum tilfellum um viðkvæm málefni að ræða þar sem miklir hagsmunir eru undir.

Þessi rök eiga enn frekar við um markaðsrannsóknir, líkt og þá sem hér um ræðir, enda leggur Samkeppniseftirlitið niðurstöður hennar til grundvallar ákvarðana um beina íhlutun á mörkuðum. Því er brýnt að vandað sé til verka þannig að áreiðanleiki útreikninga og ályktana séu til fyrirmyndar. Því miður verður ekki séð að slíkt sé raunin í markaðsrannsókn þessari. Eftirfarandi eru nokkur dæmi um slíkt:

  • Við útreikninga á umframálagningu notar Samkeppniseftirlitið breska smásala til viðmiðunar. Bretland er með um 200 sinnum fleiri íbúa, annars konar samgönguinnviði, ólíka íbúadreifingu, lægra vaxtastig og annað veðurfar. Eðlilegra hefði verið að velja land sem svipar meira til Íslands.
  • Samkeppniseftirlitið telur óeðlilegt að sama verð sé í gildi á eldsneytisstöðvum um allt land. Óhætt er að segja að mikil verðmismunun á milli landsvæða myndi sæta verulegri gagnrýni innan samfélagsins. Þá á slík verðstefna sér samsvörun á fjölda smásölumörkuðum með ýmsar aðrar vörur.
  • Samkvæmt útreikningum eftirlitsins hefur engin umframarðsemi verið til staðar á eldsneytismarkaði á umræddu tímabili. Þrátt fyrir það dregur eftirlitið ályktanir þess efnis að óeðlileg eignatengsl sé til staðar á milli tveggja fyrirtækja innan markaðarins sem skaði samkeppnisumhverfið. Forsendur, framsetning og ályktanir þess kafla eru ámælisverðar að mati Viðskiptaráðs.
  • Mat á áhrifum ýmissa þeirra tillagna sem Samkeppniseftirlitið leggur fram í rannsókn sinni er afar yfirborðskennt. Þá eiga margar tillagnanna sér ekki hliðstæðu í vestrænum hagkerfum. Til að skipulagsbreytingar skili neytendum ávinningi er nauðsynlegt að þær leiði til aukinnar hagkvæmni. Upplýsingar um slíkt verða ekki fengnar án ítarlegri greininga.

Full ástæða til að leita tækifæra til aukinnar hagkvæmni
Viðskiptaráð og fleiri aðilar hafa fjallað talsvert um þær áskoranir sem fylgja eiginleikum íslenska hagkerfisins í samkeppnislegu samhengi. Þjóðin er fámenn, landið er stórt og markaðurinn er að ýmsu leyti einangraður. Þetta skapar ákveðna togstreitu á milli þess ávinnings sem getur hlotist af stærðarhagkvæmni annars vegar og miklum fjölda markaðsaðila hins vegar. Sú staðreynd að framleiðni vinnuafls er lægri á Íslandi en í helstu nágrannaríkjum hefur m.a. verið rakin til þessa.

Til að efla framleiðni á Íslandi þarf að finna hagfellda lausn á þessari áskorun og framlag Samkeppniseftirlitsins til þeirrar umræðu getur verið verðmætt. Í þessari skýrslu er fjallað um ýmis atriði sem snerta umrædda áskorun og full ástæða til að huga nánar að, t.a.m. áhrif regluverks og skipulagsmála á samkeppnisaðstæður. Þær meginlausnir sem Samkeppniseftirlitið leggur til eru aftur á móti miðstýring markaða í gegnum ákvarðanir og íhlutanir eftirlitsins. Viðskiptaráð leyfir sér að fullyrða að það sé ekki rétta svarið við framleiðniáskorun Íslands.

Tengt efni

Lesskilningur Landverndar

Engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar ...
2. mar 2023

Er bensín raunverulega dýrara en nokkru sinni fyrr?

Jafnvel þótt verð hafi ekki verið hærra í krónum talið hafa engin raunveruleg ...
22. feb 2022

Sjálfbærniskýrslur Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna og Play valdar skýrslur ársins

Viðurkenningar fyrir sjálfbærniskýrslur ársins voru veittar fyrr í dag við ...
7. jún 2022