Formaður Viðskiptaráðs óttast hagsmunaárekstra

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs, ræddi um aukna fjárfestingu lífeyrissjóða í íslenskum fyrirtækjum, þátttöku þeirra á hlutabréfamarkaði og aðkomu þeirra að kjöri stjórnarmanna í fyrirtækjunum í viðtali í Morgunblaðinu í dag.

Töluverð umræða hefur verið um málið meðal félaga í Viðskiptaráði og sagði Hreggviður að Landssamband lífeyrissjóða hafi verið upplýst um þessar áhyggjur margra stjórnenda. Snýst málið einna helst um það að þegar lífeyrissjóðirnir fjárfesta í keppinautum á markaði og tilnefna stjórnarmenn þá hafa þeir í sumum tilfellum einnig verið stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum eða starfsmenn sjóðanna. Það má vera ljóst að þessir aðilar þurfa að gæta þess að trúnaðarupplýsingar um rekstur þessara félaga berist ekki á milli í gegnum sjóðina. Hreggviður taldi mikilvægt að nálgast málið með góða stjórnarhætti að leiðarljósi og vildi Viðskiptaráð vekja athygli á þessari þróun sem leitt gæti til hagsmunaárekstra.

Hreggviður sagði Viðskiptaráð hafa kannað hvernig málum er háttað á Norðurlöndunum, en þar er sá háttur hafður á að lífeyrissjóðir tilnefna ekki í stjórnir fyrirtækja og hafa því ekki bein afskipti af stjórnarkjörum. Lífeyrissjóðir á Norðurlöndum hafa beitt sér fyrir góðum stjórnarháttum og m.a. sett á laggirnar valnefndir sem eiga að sjá til þess að hæfir stjórnarmenn veljist í stjórnir fyrirtækja.

Spurður að því hvort lífeyrissjóðir eigi ekki að hafa skoðanir á gangi mála hjá sínum fyrirtækjum, þá sagði Hreggviður það eðlilegt og að óhætt væri að ræða þær opinskátt í opinberri umræðu og á hluthafafundum. Hreggviður hafði þær ráðleggirnar til íslenskra lífeyrissjóða að þeir beiti sér fyrir því að fyrirtæki í þeirra eigu setji upp valnefndir um stjórnarkjör. Aðkoma lífeyrissjóða að fyrirtækjunum afmarkist síðan við þátttöku í slíkum valnefndum í stað stjórnarsetu.

Önnur leið til að ná fram bættum stjórnarháttum væri að lífeyrissjóðir takmarki fjárfestingastefnu sína þannig að ekki verði fjárfest í keppinautum, kjósi þeir að halda áfram að tilnefna stjórnarmenn. Hreggviður taldi eðlilegast að lífeyrissjóðirnir væru hlutlausir ávöxtunarfjárfestar og líki þeim ekki reksturinn þá geti þeir selt hlut sinn. Vandamálið sé hins vegar að mikill skortur er á fjárfestingarkostum á Íslandi í dag.

Ef litið er til þess fyrir komulags sem nú er uppi hvað varðar tilnefningar stjórnarmanna í fyrirtækjum sem skráð eru á markað þá segir Hreggviður ljóst að samkvæmt góðum stjórnarháttum skuli stjórnarmenn hugsa um hag félagsins og starfa sem fulltrúar fyrir alla hluthafa. Hann bendir að lokum á að lífeyrissjóðir eigi ekki að þurfa „eigin“ stjórnarmenn til þess að geta beitt sér í rekstri félaga sinna og þar að auki myndu lífeyrissjóðirnir eiga auðveldara með að tjá sig um stefnu og ákvarðanir félaganna þar sem minni hætta myndi vera á hagsmunaárekstri.

Viðtalið við Hreggvið Jónsson, formann Viðskiptaráðs Íslands, má lesa á síðu 16 í Morgunblaðinu í dag, 4. júlí 2014.

Hér má sjá stutta samantekt á Mbl.is.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Stígum skrefið til fulls - öllum til hagsbóta

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur (mál nr. 470)
2. jún 2022

Óljós atriði um hagsmunaverði

Viðskiptaráð styður markmið frumvarpsins að auka gagnsæi og efla varnir gegn ...
4. mar 2020