Nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja

Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja eru nú gefnar út í fimmta skipti á Íslandi. Útgáfuaðilar eru líkt og áður Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Fyrsta útgáfa leiðbeininganna kom út árið 2004 og hafa þær verið endurskoðaðar með reglubundnum hætti frá þeim tíma.

Leiðbeiningum um góða stjórnarhætti er ætlað að nýtast sem verkfæri stjórna og stjórnenda til að mæta þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir. Það er jafnframt mat útgáfuaðila að með því að fylgja góðum stjórnarháttum megi styrkja innviði fyrirtækja og efla almennt traust gagnvart viðskiptalífinu. Hvort tveggja skiptir sköpum fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Talsverðar breytingar hafa verið gerðar á leiðbeiningunum frá fjórðu útgáfu þeirra. Í endurskoðunarferlinu var lögð áhersla á að gera leiðbeiningarnar skýrari og notendavænni með almennum breytingum á formi, uppsetningu og orðalagi. Þá hefur verið bætt úr ýmsum ágöllum í takt við ábendingar frá notendum leiðbeininganna. Að lokum hafa tilmæli leiðbeininganna verið endurskoðuð með það að markmiði að þær henti íslensku atvinnulífi sem best en séu á sama tíma í samræmi við alþjóðlega staðla og þróun.

Panta má prentuð eintök af leiðbeiningunum með tölvupósti.

Pdf-útgáfu leiðbeininganna má nálgast á þessari slóð

Kynningu um endurskoðunarferlið og helstu breytingar frá fyrri útgáfu má nálgast á þessari slóð.

Nýr vefur opnaður

Samhliða fimmtu útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja opnar nýr vefur sem er tileinkaður leiðbeiningunum. Þar má nálgast rafræna útgáfu af leiðbeiningunum, tæmandi lista yfir breytingar frá fyrri útgáfu og ítarefni tengt stjórnarháttum. Rafræn útgáfa leiðbeininganna er gagnvirk og aðlagar sig að tölvum og snjalltækjum af ólíkum stærðum og gerðum. Það er von útgáfuaðila að með þessari breytingu verði leiðbeiningarnar enn aðgengilegri og notendavænni en áður.

Slóð vefsíðunnar er leidbeiningar.is.

Ensk útgáfa leiðbeininganna verður gefin út þriðjudaginn 9. júní næstkomandi. Ensk útgáfa vefsíðunnar verður opnuð samtímis.

Útgáfuaðilar leiðbeininganna vilja koma á framfæri sérstökum þökkum til þeirra fjölmörgu aðila sem veittu aðstoð og ábendingar við endurskoðun leiðbeininganna.

Tengt efni

Í minningu Davíðs Scheving Thorsteinssonar

Davíð fæddist 4. janúar 1930 og lést 8. apríl 2022.
25. apr 2022

Blessað grasið

Kemur Stóra eftirsjáin á eftir Stóru uppsögninni?
13. maí 2022

Viðskiptaráð kynnti áherslur sínar á kosningafundi í morgun

Viðskiptaráð Íslands bauð fulltrúum stjórnmálaflokka til fundar og þáðu ...
15. sep 2021