Viðurkenning fyrir samfélagsskýrslu veitt í fyrsta sinn


Viðurkenning fyrir samfélagsskýrslu ársins var veitt í fyrsta skipti í gærmorgun. Með viðurkenningunni vilja Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð, Stjórnvísi og Viðskiptaráð Íslands hvetja fyrirtæki til að setja sér mælanleg markmið og birta reglulega opinberlega, með vönduðum hætti, upplýsingar um hvernig samfélagsábyrgð og sjálfbærni í rekstri fyrirtækja skilar þeim og samfélaginu auknum ávinningi.

Niðurstaða dómnefndar er að samfélagsskýrsla Landsbankans sé til fyrirmyndar og hljóti viðurkenningu sem besta samfélagsskýrslan árið 2018. Af lestri hennar að ráða er ljóst að samfélagsstefna bankans er mótuð með víðtækri aðkomu starfsmanna og að samfélagsábyrgð er hluti af kjarnastarfsemi bankans. Í skýrslunni er fjallað ítarlega um valda mælikvarða og samanburð á milli ára sem sett er fram á myndrænan hátt. Lesandinn fær góða mynd af umfangi og þróun samfélagsábyrgðar, þeim markmiðum og meginverkefnum sem tekin eru til umfjöllunar.Í kaflanum Álitamál eru tekin til umfjöllunar efni sem fela í sér áskoranir og breytingar sem bankinn stendur frammi fyrir og áhrif þeirra á samfélagið. Leitast er við að útskýra með einföldum hætti fyrirsjáanlega þróun í bankaviðskiptum á aðgengilegan hátt. Þá er sérstaklega fjallað um metoo-byltinguna, áhrif hennar hjá starfsfólki bankans og hver fyrirhuguð næstu skref eru í vegferðinni að auknu jafnrétti.

Sextán fyrirtæki hlutu tilnefningu en þær voru alls 41 talsins. Ánægjulegt var að sjá hversu fjölbreyttar og vel unnar skýrslurnar voru og ekki síður að sjá það öfluga starf sem að baki þeirra liggur í fyrirtækjunum. Valið var því vandasamt og komu margar skýrslur til greina.

Dómnefndin var skipuð Fanneyju Karlsdóttur, fulltrúa Stjórnvísi, Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, formanni Viðskiptaráðs, Þorsteini Kára Jónssyni varaformanni Festu og Jóhönnu Hörpu Árnadóttur, stórnarmanni í Festu, sem jafnframt var formaður.

Í rökstuðningi dómnefndar var vísað í þá valþætti sem viðurkenningin byggir á:

Innihald skýrslunnar sýnir yfirgripsmikið starf félagsins á sviði samfélagslegrar ábyrgðar og tekur á samfélags- og umhverfisþáttum sem og góðum stjórnarháttum. Samfélagsábyrgð er samþætt kjarnastarfseminni, með skýra ábyrgð yfirstjórnar, og að gerð skýrslunnar kemur breiður hópur starfsfólks. Viðmið Global Reporting Initiative (GRI) eru höfð til hliðsjónar við gerð skýrslunnar og tilgreint hvernig gæði upplýsinga eru tryggð. Engu að síður er tekið fram að félagið þekki ekki til fulls áhrif sín á samfélagið né heldur að samfélagsábyrgð hafi verið að fullu innleidd. Lesendur eru hvattir til að senda ábendingar um það sem betur má fara í starfseminni á sviði samfélagsábyrgðar og í framsetningu skýrslunnar.

Mikilvægi samfélagsábyrgðar kemur skýrt fram og upplýst er um hvar mestu áhrif félagsins á sviði samfélagslegrar ábyrgðar liggja. Fjallað er um áhrifin og þau verkefni sem félagið tekur þátt í til þess að auka upplýsingar og gagnsæi út á við. Þá er ítarleg umfjöllun um þau verkfæri sem nýtt eru til að flétta samfélagsábyrgð saman við daglega starfsemi. Í skýrslunni eru hagsmunaaðilar flokkaðir og útlistað hvernig samskiptum og samráði við þá er háttað.

Mælikvarðar eru ein af fjórum stoðum skýrslunnar. Þeir eru flokkaðir eftir efnahag, samfélagi og umhverfi. Í köflunum er fjallað ítarlegra um valda GRI mælikvarða og samanburð á milli ára, eða frekara niðurbrot, sett fram á myndrænan hátt. Lesandinn fær góða mynd af umfangi og þróun í málaflokknum, þeim markmiðum og meginverkefnum sem tekin eru til umfjöllunar.

Jafnvægi í skýrslunni er gott og skýrslan sett fram með þeim hætti að til umfjöllunar eru einnig atriði sem hægt væri að líta á sem neikvæð en eru óhjákvæmilega hluti af rekstri félagsins. Dæmi er að nefnt er að ekki hafi verið metin sérstaklega áhætta vegna loftslagsbreytinga, en fylgst sé vel með áhrifunum og þeim tækifærum sem geta skapast í þeim málaflokki. Sérstaklega er fjallað um ábendingar og kvartanir, og meðhöndlun þeirra, sem og ábendingar í mannauðsmálum og viðbrögð við þeim.

Framsetning skýrslunnar er einstaklega skýr svo auðvelt er fyrir almennan lesanda að fá heildaryfirsýn og einnig yfirsýn yfir einstaka málaflokka. Jafnframt er auðvelt að kafa dýpra í málefnin fyrir þá sem það vilja. Fyrirtækið hefur lagt sig fram við að miðla upplýsingum úr skýrslunni til hagaðila. Framsetningin og myndefni eru til fyrirmyndar.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir framkvæmdastjóri Festu, Ketill Berg Magnússon í s. 8984989 og ketill@csriceland.is

Tengt efni

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023

Viltu tilnefna sjálfbærniskýrslu ársins?

Viðskiptaráð, Festa og Stjórnvísi veita viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins
12. apr 2023

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022