Óvissa um peningastefnu rýrir lífskjör

Það er óljóst hvert framtíðarfyrirkomulag peningastefnunnar verður en þó má ljóst vera að það mun taka einhverjum breytingum. Grundvallar markmið hagstjórnar eru þó ávallt hin sömu, að dempa sveiflur efnahagslífsins svo að þær verði ekki óbærilegar á sama tíma og búið er í haginn fyrir öflugt atvinnulíf sem skapar verðmæti og atvinnu og eflir hagvöxt. Langvarandi óvissa um hvert fyrirkomulag peningastefnunnar verður dregur hins vegar, líkt og önnur óvissa, úr vilja til fjárfestingar í hagkerfinu og er til þess fallin að hægja á bata lífskjara.

Vel rekin peningastefna á þátt í því að stuðla að stöðugleika efnahagslífsins og móta umhverfi fyrir vöxt atvinnulífsins og batnandi lífskjör. Fyrirsjáanleg þróun gengismála, vissa um samspil vaxta og verðlags og heilbrigði fjármálamarkaða eru æskilegir kostir. En hvert verður fyrirkomulag peningastefnunnar á Íslandi þegar höftum á viðskipti með fjármagn hefur verið aflétt?

Tveir kostir að mati Seðlabankans
Seðlabankinn birti skýrslu fyrir tæpu ári þar sem tæpt var á hugsanlegri umgjörð peningastefnunnar eftir gjaldeyrishöft. Sú skýrsla hefur fengið merkilega litla umfjöllun. Þar er fullyrt að peningastefna þurfi að huga að fleiru en verðstöðugleika einum. Það er á vissan hátt stefnubreyting frá því sem var árin fyrir hrun, að minnsta kosti í orði. Einnig er á það bent að beita þurfi fleiri stýritækjum en vöxtum. Hvort tveggja er á vissan hátt afturhvarf til þess sem var áður en verðbólgumarkmið var tekið upp fyrir rúmum áratug. Og hvort tveggja er ákveðin svörun við gagnrýni á framkvæmd verðbólgumarkmiðs á Íslandi.

Tveir raunhæfir kostir virðast því vera í stöðunni. Annars vegar framsal peningastefnunnar en bankinn telur heppilegasta fyrirkomulag fastgengisstefnu fást með aðild að Myntabandalagi Evrópu í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu. Sú ákvöðrun ræðst því af niðurstöðu kosningar um aðildarsamning og byggist því á ákvörðun utan valdsviðs Seðlabankans. Hinn kosturinn er að bæta fyrirkomulag verðbólgumarkmiðsins. Hver sem endanleg niðurstaða um Evrópusambandsaðild verður er ljóst að sjálfstæð peningastefna verður rekin áfram næstu árin. Niðurstaða Seðlabankans er því að efla þurfi verðbólgumarkmiðið og að vinna þurfi samhliða að stöðugleika fjármálakerfisins. Í grunninn felur sú tillaga í sér að eftirlit með fjármálastarfsemi verði stóraukið, lausafjárreglum og eiginfjárreglum verði fjölgað, reglur verði settar um lántökur heimila og fyrirtækja og þær verði jafnvel breytilegar eftir mati bankans á ástandi efnahagsmála hverju sinni.

Frekari tafir ekki kostur
Nákvæm útfærsla á nýju fyrirkomulagi verðbólgumarkmiðs, verðbólgumarkmiði plús eins og Seðlabankinn kýs að kalla það, hefur dregist á langinn. Því lengur sem óvissa er um það hvað tekur við eftir höft þeim mun erfiðara verður að losa þau. Heppilegast er að skapa aðstæður til innflæðis fjármagns þegar losað er um gjaldeyrishöftin en því meiri sem óvissan um fyrirkomulag efnahagsstjórnar á næstu árum er því minni er áhuginn á því að fjárfesta á Íslandi. Því fyrr sem liggur fyrir hvert fyrirkomulag peningastefnunnar verður þegar tímabili gjaldeyrishafta lýkur því greiðar mun ganga að létta höftum og koma efnahagslífinu á eðlilegt skrið.  Verkefnið liggur því fyrir.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023

Hitam(ál) – Hvað er málið með álið?

Hugmyndir um takmörkun á stóriðju hér á landi annars vegar og samdrátt í losun á ...
3. apr 2023