Hvers virði er atvinnulíf?

Almennt er litið svo á að heilbrigt, kröftugt atvinnulíf sé undirstaða hagvaxtar og lífskjara í hverju landi. Það er því athyglisvert að í umræðu á vettvangi íslenskra stjórnmála undanfarin misseri hefur á stundum mátt lesa efasemdir um framlag atvinnulífs til verðmætasköpunar sem aftur undirbyggir atvinnu og kaupmátt.

Þrátt fyrir það er ekki sanngjarnt að gera forystumönnum í íslenskum stjórnmálum almennt upp þá skoðun að þeir telji atvinnulífið ekki mikilvægt fyrir lífskjör. Engu að síður er ljóst að margir forsvarsmenn fyrirtækja telja skilningi stjórnmálamanna á vægi atvinnulífsins all nokkuð ábótavant. Þar skiptir yfirleitt meiru hvað gert er en sagt.

Þessi afstaða kemur skýrt fram í könnun meðal 680 stjórnenda sem unnin var fyrir Viðskiptaráð í janúar. Þar var spurt um ýmis mál sem snerta rekstrarumhverfi atvinnulífs. Sex af hverjum tíu sem svöruðu telja erfitt að stunda atvinnurekstur á Íslandi (1 af 10 telur það auðvelt) og jafn margir gera ráð fyrir að skattabreytingar síðustu þriggja ára muni leiða til fækkunar starfsfólks (1 af 100 telur að því muni fjölga). Þegar spurt var um hvaða hindranir, að mati stjórnenda, stæðu helst í vegi vaxtar og viðgangs efnahagslífs nefndu sjö af hverjum tíu stjórnvöld, skattaumhverfi eða óvissu um rekstrarumhverfi.

Sem betur fer eru almenn viðhorf til atvinnulífsins önnur og jákvæðari en þau sem forsvarsmenn þess lesa úr forgangsröðun og aðgerðum stjórnvalda. Í könnun Capacent frá í janúar kemur fram að 94% Íslendinga telja fyrirtækin skipta miklu máli þegar kemur að því að skapa hér góð lífskjör (en 2% telja þau litlu skipta). Segja má að þessi almennu viðhorf endurspegli þá uppbyggilegu sýn að um 120 þúsund íslensk heimili og nálægt 20 þúsund fyrirtæki myndi órofa heild, þar sem heimilin þurfa á atvinnu að halda en fyrirtækin eru háð heimilunum um handafl og hugvit, eftirspurn og eignarhald.

Þótt að undanförnu hafi ekki gengið vel að ná samstöðu um ýmsa hluti, þá virðast Íslendingar sammála um það meginmarkmið að hér eigi að standa vörð um almenn lífskjör og efla þau til framtíðar. Fyrrgreind svör í könnun Capacent bera það einnig með sé að almenn samstaða er um hvernig við náum slíkum markmiðum – það verði eingöngu gert með því að tryggja hér blómlegan atvinnurekstur, þar sem kraftar fólks og fyrirtækja fá að njóta sín.

Atvinnulíf er í raun aflvélin sem stendur undir lífskjörum og knýr velferðakerfið. En þar sem enn eru verulegir annmarkar á rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja og stefna um framtíð verðmætasköpunar á Íslandi er í besta falli óljós, má segja að vélin gangi ekki á fullum snúningi. Á meðan svo er verða lífskjör til samræmis og því lengur sem það ástand varir, því meiri verða neikvæð áhrif á lífskjör og samkeppnishæfni landsins.

Forgangsmálið framundan er að tryggja viðgang atvinnulífs og skapa stöðugan varanlegan hagvöxt. Það ætti að vera sameiginlegt áhyggjuefni stjórnvalda og atvinnulífs hversu hægt hefur miðað á þeirri vegferð. Um leið er ljóst að án góðs samstarfs þessara aðila er ekki von á að mikið breytist.

Helsta verkefni stjórnvalda hlýtur að vera að skapa hér aðlaðandi framtíðarsýn, stefnu um verðmætasköpun og skýra en hagfellda umgjörð til atvinnurekstrar. Verðmætin sem standa undir lífskjörum og velferð verða svo til fyrir tilstuðlan atvinnulífs - framtakssamra einstaklinga og kraftmikilla fyrirtækja -  sem starfar á grunni góðra gilda.

Í þessu liggur augljóst svar við spurningunni hér að ofan. Virði atvinnulífsins er og verður ávallt til jafns við þau lífskjör sem við njótum hverju sinni. Þeim hefur hrakað að undanförnu, sem er þróun sem snúa þarf við. Það er efni Viðskiptaþings sem haldið verður á morgun undir yfirskriftinni „Hvers virði er atvinnulíf?“.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Að kippa vísitölu úr (húsnæðis)lið

Þegar allt kemur til alls er varhugavert að breyta undirliggjandi þáttum ...
10. mar 2022

Verslun og verðbólga

Svigrúm verslunarinnar til að halda aftur af verðhækkunum er almennt lítið sem ...
29. apr 2021

Stýrivextir óbreyttir

Peningastefnunefnd ákvað á síðasta vaxtaákvörðunarfundi að halda stýrivöxtum ...
14. ágú 2009