Útsvarsspurningin

Á hápunkti sveitastjórnakosninga er fróðlegt að sjá hvaða málefni ná flugi og hver ekki. Ljóst er að samgöngu- og húsnæðismál hafa verið ofarlega í huga kjósenda á meðan önnur hafa flogið undir ratsjánni. Þannig hefur farið minna fyrir umræðu um fjármál sveitarfélaganna sem má teljast sérstakt þar sem umfang skatta og gjalda hefur stigvaxið undanfarin ár. Í dag lætur þar hver íbúi af hendi að meðaltali hundrað þúsund krónur á mánuði til sveitarfélaganna.

Tekjur sveitarfélagana jukust um 28% á milli áranna 2013-2017 og námu í fyrra um 13% af vergri landsframleiðslu. Það er hærra hlutfall en samanlagt framlag sjávarútvegs, stóriðju og orkufyrirtækja til landsframleiðslunnar og samsvarar 28 milljörðum króna á mánuði eða um einni milljón á ári að meðaltali á hvern íbúa eldri en 16 ára.

Stærsti tekjustofn sveitarfélaganna er útsvarið sem innheimtist af launatekjum einstaklinga. Ætla mætti að launþegar væru meðvitaðir um umfang þess en þegar við skoðum launaseðla okkar er útsvarið hvergi sjáanlegt og týnist í þeim tekjuskatti sem rennur til ríkisins. Þetta ógagnsæi kann að skýra takmarkaða umræðu um málefnið.

Litlar sem engar breytingar hafa orðið á útsvarsprósentu sveitarfélaga frá því gengið var síðast til kosninga, þrátt fyrir að tekjustofn þeirra hafi vaxið mikið í takt við uppgang þjóðarbúsins, launahækkanir og hækkun fasteignaverðs. Flest sveitarfélög innheimta hámarksútsvar eða 14,52% og frá síðustu kosningum hafa einungis sex sveitarfélög lækkað útsvarshlutfall sitt á meðan tvö sveitarfélög hafa hækkað það. Þetta sýnir takmarkað skattalegt aðhald og þann skort á samkeppni sem ríkir milli sveitarfélaga.

Útgjöld sveitarfélaga jukust í takt við auknar tekjur á tímabilinu 2013-2017 og því væri eðlilegt að spyrja hvort umfang og gæði þjónustu við íbúa hafi batnað með auknum útgjöldum en það er alls kostar óvíst. Allt of lítið fer fyrir umræðu um lækkun skatta og gjalda en þar vegur spurningin um útsvarið hvað þyngst.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Endahnúti Viðskiptablaðsins þann 24. maí, 2018.

Tengt efni

Fleiri víti 

„Það þarf að fara varlega með vald, um það þurfa að vera skýrar reglur og ...
31. jan 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
21. ágú 2023