Eiga barneignir varanlegan þátt í launamun kynjanna?

Ásta S. Fjeldsted Ný dönsk rannsókn[1], sem vakið hefur mikla athygli, sýnir að nánast allan áður óútskýrðan launamun kynjanna þar í landi megi rekja til þess að konur eignast börn. Rannsóknin sýnir að konur sem eignast börn lendi varanlega á eftir körlum í tekjuþróun og einnig á eftir þeim konum sem eignast ekki börn.

Vísbendingar eru um að þetta eigi einnig við hér á landi. Á menntaskólaaldri þéna konur nánast það sama og karlar eða um 96% af tekjum karla. Strax upp úr tvítugsaldrinum fer að halla undan fæti hjá konum og á aldursbilinu 25-29 ára, þegar flestar konur eignast sitt fyrsta barn, eru tekjur þeirra rétt um 74% af tekjum karla. Þegar konur standa á fertugu afla þær einungis 70% af tekjum karla að meðaltali og er hlutfallið það sama í öllum aldurshópum þar fyrir ofan.

Eftir að mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði voru skertar árið 2009 fór nýting feðra á fæðingarorlofi að minnka. Um þetta var fjallað í tillögum starfshóps velferðarráðuneytisins um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum árið 2016[2] og ársskýrslu Vinnumálastofnunar[3]. Umsóknir feðra sem hlutfall af umsóknum kvenna í Fæðingarorlofssjóð voru 90% árið 2009 en skv. bráðabirgðatölum fyrir árið 2016, var hlutfallið komið niður í 74%. Þá hefur hlutfall feðra sem ekki nýta grunnrétt sinn til orlofs (90 daga) hækkað úr 22% upp í 50% árið 2016 (sjá seinni mynd) og hlutfall þeirra sem taka lengra orlof hefur lækkað úr 23% í 11% á sama tíma. Á hinn bóginn er hlutfall kvenna sem ekki fullnýtir grunnréttinn hverfandi. Jafnframt nýta 96% kvenna meira en grunnréttinn og hefur það hlutfall lítið breyst síðustu ár – sem gæti orsakast að hluta til af skorti á dagvistarúrræðum sem mikið er til umræðu um þessar mundir.

Hærri fórnarkostnaður karla vegna fæðingarorlofs.

Það sem líklega skýrir þessa þróun er að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru lægri nú í krónum talið en fyrir 10 árum, þó svo að laun hafi hækkað um 79% á sama tíma. Ennfremur hefur verðlag hækkað um 45% frá 2008 þannig að „fórnarkostnaðurinn“ við það að fara í fæðingarorlof er hærri en áður. En fyrir hvern? Karla, því launatekjur þeirra voru 28% hærri en hjá konum árið 2018. Ungt fólk sem eignast börn og stofnar heimili þarf að standa straum af ýmiskonar kostnaði svo líklegt er að sá sem er tekjuhærri, sem er oftast faðirinn, taki minna orlof. Þessi launamunur er eins og áður kom fram, minni hjá þeim aldurshópum sem eru á barneignaaldri. Hann er þó til staðar og mun vera sterkur hvati fyrir karla að sleppa fæðingarorlofi. Þannig verða möguleikar karla á því að fá stöðuhækkanir og þar með launahækkanir að öðru óbreyttu meiri.

Hækkun hámarksgreiðslna forsenda launajafnréttis kynjanna?

Nú er til meðferðar hjá velferðarnefnd Alþingis frumvarp þess efnis að lengja fæðingarorlofið úr 9 í 12 mánuði. Hugmyndin með frumvarpinu er góð en vandséð er hvernig lenging fæðingarorlofs breyti fyrrgreindri þróun nema gripið sé til hækkunar hámarksgreiðslna samhliða. Í raun gæti lenging fæðingarorlofs með óbreyttri hámarksgreiðslu, mögulega aukið muninn milli orlofstöku karla og kvenna, sem aftur gæti aukið enn launamun kynjanna. Hækkun hámarksgreiðslna myndi hins vegar líklega hvetja fleiri feður til að taka lengra fæðingarorlof sem jafnar stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Hér er um að ræða mikilvægt hagsmunamál fyrir foreldra, börn, atvinnulífið og samfélagið allt svo nauðsynlegt er að taka vel ígrundaðar ákvarðanir.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum þann 29. mars 2018.


[1] Kleven o.fl. (2018) Children and Gender Inequality: Evidence from Denmark. Hlekkur: http://www.nber.org/papers/w24219.pdf

[2] Sjá tillögur starfshóps: https://www.stjornarradid.is/media/velferdarradune...

[3] Sjá ársskýrslu: https://www.vinnumalastofnun.is/media/1821/arsskyrsla2016-final-web.pdf

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Árangurslitlar aðgerðir á húsnæðismarkaði

„Stuðningsúrræði stjórnvalda hafa verið of almenn í gegnum tíðina og kostað háar ...
4. des 2023

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023