Fyrstu metrar nýrrar ríkisstjórnar

Samkvæmisleikurinn um samsetningu næstu ríkisstjórnar hefur verið í algleymingi síðastliðinn mánuð. Aðstæður í efnahagslífinu eru góðar og minna hefur verið rætt um þau verkefni sem bíða nýrra stjórnvalda. Þó eru blikur á lofti um mögulega ofþenslu og skarpan samdrátt í kjölfarið. Þótt ný ríkisstjórn sé ekki upphaf og endir alls getur hún haft mikil áhrif á útkomuna. Þar bera þrjú mál hæst: mótun efnahagsstefnu, stöðugleiki á vinnumarkaði og forgangsröðun hjá hinu opinbera.

Mótun efnahagsstefnu er efst á listanum. Skortur á slíkri stefnu hefur lengi verið íslenskum fyrirtækjum og einstaklingum Þrándur í Götu. Samráðsvettvangur um aukna hagsæld var stofnaður til að bæta úr þessu. Þar ræðir breiður hópur fólks tillögur um leiðir til að bæta lífskjör Íslendinga með langtímahugsun og heildarhagsmuni að leiðarljósi. Arfleifð nýrrar ríkisstjórnar veltur að miklum hluta á því hve vel tekst að halda áfram með vinnu af þessum toga.

Næst ber að nefna vinnumarkaðinn. Laun hafa hækkað hratt síðustu misseri á meðan framleiðni hefur staðið í stað. Þetta skapar hættu á sársaukafullri aðlögun með gengislækkun. Þá hringrás þekkja Íslendingar orðið alltof vel. Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt í umsvifamikla vinnu við að koma okkur út úr þessum vítahring með nýju fyrirkomulagi kjarasamningagerðar. Sú vinna er nú í uppnámi af tveimur ástæðum: lífeyrisréttindi hafa ekki enn verið jöfnuð og nýlegar ákvarðanir kjararáðs eru á skjön við ramma samkomulagsins. Ný ríkisstjórn þarf að bregðast hratt við til að koma í veg fyrir að illa fari.

Þriðja verkefnið er forgangsröðun hjá hinu opinbera. Stóraukin útgjöld voru meginstefið í loforðum margra stjórnmálaflokka í nýafstöðnum kosningum. Verði staðið við þau mun ný ríkisstjórn ýta undir ofþenslu á versta mögulega tíma. Öflug heilbrigðisþjónusta, bætt fjármögnun háskólakerfisins og markviss uppbygging innviða eru verkefni sem eiga að njóta forgangs á næstu árum. Á móti þarf ný ríkisstjórn hins vegar að draga úr öðrum útgjöldum með þrennum hætti: lækka vaxtagreiðslur með sölu opinberra fyrirtækja, draga úr verkefnum sem snúa að samfélagsmótun og nýta fyrirliggjandi tækifæri til að auka hagkvæmni í opinberum rekstri.

Spennandi verður að sjá hvernig ný ríkisstjórn verður samsett. Mikilvægara er þó að hún sameinist um góð verkefni. Það er von mín að þessi mál verði þar ofarlega á blaði.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Markaðnum 30. nóvember 2016

Tengt efni

Icelandic Economy 4F 2022

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
13. okt 2022

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022

Viðspyrnustyrkir eitt þeirra tóla sem nýst hafa hvað best

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um framhald viðspyrnustyrkja.
21. feb 2022