Molnar úr grunnstoðinni

Menntamálin eru í brennidepli þessa dagana. Ótrúlegt klúður í nýloknum – eða öllu heldur óloknum - samræmdum prófum í grunnskólum landsins virðist hafi verið dropinn sem fyllti mælinn hjá mörgum. Það er smám saman að renna upp fyrir Íslendingum að full ástæða er til þess að hafa áhyggjur af stöðu skólakerfisins og menntunar hér á landi.

Íslendingar eru neðstir allra Norðurlandabúa í hinu umtalaða PISA prófi og við eigum færri afburðarnemendur samanborið við hin Norðurlöndin. Brotthvarf úr námi er mun hærra hér en á Norðurlöndunum sem þýðir að stór hluti ungmenna finnur sér ekki farveg við hæfi innan íslenska skólakerfisins.

En það eru ekki bara nemendurnir sem hrökklast úr skóla, heldur er brotthvarf hæfra kennara úr stéttinni einnig mikið áhyggjuefni. Við þetta bætist að endurnýjun í stéttina er ófullnægjandi. Eftir að nám til kennararéttinda var lengt í fimm ár hefur umsóknum fækkað, innritunarhlutfall lækkað og brottfall aukist. Aðsókn í grunnnám fyrir kennsluréttindi í grunnskóla hefur hrunið um 70% á 10 árum eða úr 395 umsóknum árið 2007 í 134 árið 2017.

Menntamálaráðherra hefur brugðist við umræðunni og lofar að nú verði málin tekin föstum tökum.Hún hefur lagt til að Íslendingar líti sérstaklega til Finnlands. Þar voru menntamál sett í algjöran forgang á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina þegar staða þjóðarinnar var bág vegna hárra stríðsskaðabóta og mikils mannfalls. Finnar réðust í allsherjar endurskipulagningu á menntakerfinu og státa nú af einu besta menntakerfi heims.

Íslendingar stóðu á miklum krossgötum fyrir áratugi síðan í kjölfar efnahagshrunsins. Þá upphófst mikil naflaskoðun og margir sáu í erfiðleikunum tækifæri til þess að gera grundvallarbreytingar á ýmsum sviðum. Efnahagserfiðleikar Íslendingar stóðu hins vegar stutt og á örfáum árum urðu batahorfur þjóðarinnar bjartar. Auknar gjaldeyristekjur, skuldaniðurgreiðslur, aukinn kaupmáttur og sterkari króna gerðu Ísland að einu mesta hagvaxtarríki í heimi á aðeins 10 árum.

Stolt yfir skjótum viðsnúningi horfir þjóðin nú með samviskubiti á þann hornstein sem byrjað er að molna úr. Höfum við vanrækt þá grundvallarstoð sem mestu skiptir um framtíðarhorfur þjóðarinnar?

Báðir foreldrar mínir eru kennarar og ég hef ekki orðið vör við annað en að um þau gildi sömu lögmál og aðra í þjóðfélaginu. Þegar kennarar ákveða starfsvettvang skipta kaup og kjör miklu máli, en einnig ýmsir aðrir þættir eins og sjálfstæði, virðing fyrir starfinu, álag og vinnutilhögun. Kennarastarfið í núverandi umhverfi er því miður ekki nægilega aðlaðandi og spennandi til þess að við getum snúið þessari þróun við.

Kennarastarfið á að vera frumkvöðla- og leiðtogastarf þar sem kennarar fá að leggja metnað sinn í að kveikja neista í hugum nemenda og hjálpa þeim að feta þann menntaveg sem verður þeim farsæll til framtíðar. Til þess þurfa kennarar aukið svigrúm og frelsi í sínum störfum. Það þarf ekki að stafa ofan í góðan kennara hvernig kennslustundum er háttað frá degi til dags, heldur eiga þeir að hafa frelsi til þess að beita dómgreind sinni og reynslu til þess að aðlaga skipulag og forgangsröðun eftir þörfum nemendanna.

Til þess að koma í veg fyrir að áfram molni úr þessari mikilvægu grunnstoð þarf að skoða allt kerfið með opnum og frjóum hug. Má auka fjarkennslu? Ætti að bjóða fleiri leiðir til þess að komast inn í kennarastéttina? Væri rétt að draga úr vægi miðlægra kjarasamninga og veita skólastjórnendum meira svigrúm í launamálum? Er óhætt að draga úr miðstýringu ráðuneyta og stofnana og gefa kennurum og skólastjórnendum aukið frelsi og sjálfstæði?

Eitt er víst—afturhaldssemi og stofnanakreddur eru ekki þær vörður sem við eigum að fylgja.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 15. mars 2018

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing

Viðskiptaþing fór fram fimmtudaginn 8. febrúar síðastliðinn. Yfirskrift þingsins ...
14. feb 2024

Jón er hálfviti

Það er þetta með fólkið í opinberri umræðu sem elskar afgerandi lýsingarorð og ...
24. feb 2023

Fullkomlega áhugaverðar upplýsingar

Fjár­mál og efna­hags­mál eru stund­um tyrf­in og fæst­um blaðamönn­um eða ...
19. apr 2023