Samkeppnishæf lífskjör

Samkeppnishæfni er eitt af þessum mikilvægu hugtökum en engu að síður er merking þess oft á reiki. Skilgreiningarnar á samkeppnishæfni eru enda misjafnar en eiga þó það sameiginlegt að vera mælikvarði framleiðni eða getu landa til að skapa verðmæti: Getu fólks og fyrirtækja til að skapa gæðavörur og -þjónustu. Mikil samkeppnishæfni er nauðsynlegt hráefni í þjóðarkökuna enda hafa nær engin ríki háa landsframleiðslu en laka samkeppnishæfni. Það sem meira er, þá helst mikil samkeppnishæfni einnig í hendur við það sem ekki verður metið til fjár.

Samkeppnishæfni er forsenda félagslegra framfara

Gott dæmi um það er vísitala félagslegra framfara (SPI). Sú vísitala var sköpuð vegna þess að efnahagslegir mælikvarðar segja ekki alla söguna um raunveruleg lífskjör og lífsgæði. SPI tekur því ekki til neinna fjárhagslegra mælikvarða. Þess í stað notar vísitalan mælikvarða á borð við aðgengi að hreinu vatni, barnadauða, aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði, glæpatíðni, lífslíkur, sjálfsmorðstíðni, jafnrétti, fordóma í garð hinsegin fólks og innflytjenda og svo mætti lengi telja.

Staðreyndin er sú að það er samband á milli samkeppnishæfni og mikilla félagslegra framfara. Nær ekkert ríki í heiminum hefur litla samkeppnishæfni og miklar félagslegar framfarir. Af efstu 20 ríkjunum í samkeppnishæfni IMD eru 17 einnig á topp 20 lista yfir félagslegar framfarir. Sömu sögu má rekja þegar kemur að hamingjuvísitölunni samkvæmt „World Happiness Report“. Þó að orsakasamhengið geti verið í báðar áttir sýnir reynslan að án samkeppnishæfs atvinnulífs er ómögulegt að byggja upp viðunandi lífskjör.

Lakari samkeppnishæfni Íslands er ógn við lífskjör

Meðal annars af þessum ástæðum er það áhyggjuefni þegar niðurstöður úttektar IMD háskólans á samkeppnishæfni 63 ríkja árið 2018 eru þær að Ísland fellur um fjögur sæti á milli ára. Ísland er metið 24. samkeppnishæfasta landið í úttektinni og lækkar í fyrsta sinn síðan árið 2013. Til samanburðar eru allar frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum talsvert ofar á listanum.

Lækkun um fjögur sæti þýðir hvorki að félagsleg réttindi séu að grotna niður né að glundroði sé í samfélaginu. Það þýðir hins vegar að í samanburði við önnur ríki erum við að standa okkur verr en fyrir ári. Aukin samkeppnishæfni er langhlaup og við verðum því að marka okkur langtímastefnu. Án þess eru líkur á því að til lengri tíma litið munum við ekki standa okkur eins vel þegar kemur að félagslegum framförum og lífskjörum og önnur ríki. Það skiptir máli í samkeppni um hæfileikaríkt fólks og öflug fyrirtæki. Staðreyndin er sú að samkeppnishæfni er samofin þeim réttindum sem við viljum tryggja og því samfélagi sem við viljum byggja. Allt helst þetta í hendur.

Að varðveita samkeppnishæfni er ekki nóg – aukum hana

Í mínum huga er því ekki annað í boði en að setja samkeppnishæfni á oddinn og marka okkur langtímastefnu til þess að efla hana. Við þurfum að hafa kjark til þess að taka erfið en mikilvæg skref. Við þurfum til dæmis að horfast í augu við það að heimurinn fer sífellt minnkandi með bættum fjarskiptum og samgöngum. Það hefur ekki síst áhrif á fyrirtækin í landinu þar sem markaðir eru sífellt að verða alþjóðlegri. Samkeppnin er því í auknum mæli þvert á landamæri, sem er til góðs fyrir neytendur, en íslensk fyrirtæki verða þó að hafa svigrúm til þess að stækka og auka hagkvæmni sína svo þau geti keppt við erlend fyrirtæki. Hingað til hafa samkeppnisyfirvöld gert lítið úr þessum miklu en augljósu áhrifum.

Að sama skapi þurfum við að tryggja samkeppnishæft fjármögnunarumhverfi en það þýðir markvissa sókn í alþjóðlegt áhættufjármagn til þess að fjármagna nýsköpun og þróunarstarfsemi auk þess sem nauðsynlegt er að fylgja eftir endurskoðun peningastefnunnar, afnema bankaskatt sem eykur vaxtabyrði einstaklinga og fyrirtækja og klára afnám hafta.

Síðast en ekki síst geta umbætur á menntakerfinu ekki setið lengur á hakanum. Bæði þarf að sækja fram þegar kemur að grunnfærni á borð við læsi en einnig þarf að tryggja að menntakerfið geti mætt þörfum nýrra tíma. Sú kunnátta sem atvinnulífið þarfnast er að taka breytingum og mun halda áfram að þróast. Vel menntuð þjóð er grunnstoð verðmætasköpunar og við þurfum að tryggja að hún verði það einnig í framtíðinni. Menntakerfið þarf að vera í stakk búið til þess að geta kennt þá færni sem mun koma til með að vera hvað verðmætust eftir áratug. Við þurfum nýjar lausnir í menntamálum og höfum ekki efni á að vera hrædd við að hugsa út fyrir rammann hjálpi það til við að mæta áskorunum. Þar liggur beinast við að íhuga af alvöru hvort aukið frelsi og sjálfstæði skóla, kennara og nemenda geti verið lykilþáttur.

Samkeppnishæfni er hagsmunamál allra landsmanna

Oft er látið sem svo að fyrirtækin og fólkið í landinu eigi í baráttu, að velgengni annars sé á kostnað hins. Fyrir mér er ekkert eins fjarri sanni því eins og rannsóknir og mælingar gefa svo sterklega til kynna haldast lífsgæði og rekstrarumhverfi fyrirtækja hönd í hönd. Stöndum vörð um hag okkar allra og vinnum að aukinni samkeppnishæfni.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. júní, 2018

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Jón er hálfviti

Það er þetta með fólkið í opinberri umræðu sem elskar afgerandi lýsingarorð og ...
24. feb 2023