Sísvangir græðgiskapítalistar svara Steingrími J.

Steingrímur J. Sigfússon birti aðsenda grein á Kjarnanum í kjölfar úttektar okkar í Viðskiptaráði á umsvifum ríkisins á íslenskum fasteignamarkaði. Þar leggjum við til að ríkið selji almennt skrifstofu- og íbúðarhúsnæði í sinni eigu til að grynnka á skuldum og nýta slíkt húsnæði betur en raunin er í dag.

Það er ekki orðum ofaukið að segja að Steingrímur sé lítt hrifinn. Hann talar um„græðgiskapítalisma“ og telur framgöngu Viðskiptaráðs vera„andfélagslega, siðlausa“. Steingrímur spyr jafnframt hvort ráðið trúi sjálft„þessu kjaftæði“og svarar í kjölfarið þeirri spurningu neitandi: tilgangur okkar með úttektinni sé að„finna sífellt nýja bithaga og helst á kostnað skattgreiðenda fyrir hið sísvanga auðmagn.“

Það þjónar litlum tilgangi að bregðast við þessum stóryrðum Steingríms. Í bland við þau koma hins vegar fram efnislegar röksemdir sem vert er að fjalla um. Að mati Viðskiptaráðs standast umræddar röksemdir ekki nánari skoðun og eftir stendur lítið annað en innistæðulaus reiðilestur.

Niðurgreidd leiga í ríkishúsnæði sparar ekki krónu

Í úttekt Viðskiptaráðs kemur fram að stofnanir greiða helmingi lægra leiguverð fyrir skrifstofur í eigu ríkissjóðs en tíðkast fyrir sambærilegar eignir á almennum markaði. Um þetta segir Steingrímur:„Viðskipta­ráði dettur ekki í hug að sú útkoma sýni einmitt að það sé hag­kvæmara að ríkið eigi sitt húsnæði sjálft? Nei, þar á bæ fara menn létt með að snúa þeirri rök­semd á haus.“

Skilgreining Steingríms á hagkvæmni er áhugaverð. Samkvæmt henni væri hagkvæmast fyrir ríkissjóð að leigja stofnunum fasteignir sínar án endurgjalds, eða jafnvel greiða þeim fyrir að starfa í húsnæði sínu. Raunin er hins vegar sú að fyrir hverja krónu sem stofnanir „spara“ í leigu verður ríkissjóður af sömu krónu í leigutekjur. Tilfærsla úr einum vasa ríkissjóðs í annan sparar nákvæmlega enga fjármuni og bein áhrif af lægri leigu því engin.

Óbeinu áhrifin af undirverðlagningunni eru hins vegar skaðleg. Ef stofnanir greiða lægri leigu en tíðkast á almennum markaði minnkar hvati þeirra til að nýta húsnæði sitt sem best eða velja ódýrara húsnæði til að starfa í. Þá felst einnig dulinn fjárhagsstuðningur í þessu fyrirkomulagi. Stofnanir sem greiða leigu undir markaðsvirði njóta þannig framlaga frá ríkissjóði sem ekki koma fram í ríkisreikningum. Afleiðingin er minna gagnsæi og sóun á almannafé.

Sem dæmi má nefna skrifstofur Tollstjórans við Tryggvagötu. Húsnæðið er staðsett á besta stað í miðborg Reykjavíkur þar sem leiguverð á fermetra er með því hæsta á landinu. Á sama tíma eru ýmsar ríkisstofnanir starfræktar í úthverfum borgarinnar þar sem leiguverð eru mun lægri. Ef leiguverð stofnana er það sama óháð staðsetningu hefur stofnun í sömu stöðu og Tollstjóri engan hvata til að flytja starfsemi sína í hagkvæmara húsnæði. Leiguverð Tollstjóra til ríkisins liggur ekki fyrir, svo hér er um fræðilegt dæmi að ræða, en lágar meðalleigugreiðslur fyrir eignir á vegum ríkisins sýna að umrædd áhrif eru víða til staðar. Afleiðingin er hærri húsnæðiskostnaður opinberra stofnana en nauðsyn krefur.

„Einkavæðing“ kirkna

Í pistli sínum víkur Steingrímur sérstaklega að tillögu Viðskiptaráðs um sölu á kirkjum í eigu ríkissjóðs til þjóðkirkjunnar. Hann hrósar þar ráðinu fyrir„hversu hreint og ómengað það setur fram sitt markaðsvæðingar-, græðgis- trúboð“. Þrátt fyrir að við tökum hrósi almennt fagnandi virðist Steingrímur hafa misskilið tillöguna hrapallega. Það er því rétt að afþakka gullhamrana.

Viðskiptaráð lagði til að um 20 kirkjur sem nú eru í eigu ríkissjóðs skyldu færðar til þjóðkirkjunnar. Ekki er gert ráð fyrir tekjum vegna tilfærslunnar, en hún gæti átt sér stað fyrir litla eða enga fjármuni gegn því að þjóðkirkjan sjái um rekstur og viðhald þeirra í framtíðinni. Hugsunin er sú að trúfélög starfræki sínar byggingar sjálf, líkt og tíðkast nú þegar á höfuðborgarsvæðinu. Aldrei var því talað um„einkavæðingu sjálfrar Hóladómakirkju“, líkt og Steingrímur fullyrðir.

Sögu- og menningarleg verðmæti þeirra kirkjuhúsa sem um ræðir eru óumdeild. Við teljum hins vegar ekki sjálfgefið að byggingarnar skuli vera í eigu ríkissjóðs. Sem dæmi eru hvorki Dómkirkjan í Reykjavík né Hallgrímskirkja í eigu ríkissjóðs þrátt fyrir óumdeild verðmæti þeirra í menningar- og sögulegu samhengi.

Að okkar mati er trúfélögum fyllilega treystandi til að fara með eignarhald, rekstur og viðhald sinna safnaðarhúsa. Auk þess eru byggingar sem náð hafa 100 ára aldri á Íslandi friðaðar. Samkvæmt lögum um menningarminjar er óheimilt að raska, spilla eða breyta slíkum byggingum, rífa þær eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar. Tilfærsla á eignarhaldi kirknanna til þjóðkirkjunnar myndi engu breyta um þá friðun.

Eignarhaldsfélagið Fasteign og Borgir á Akureyri

Í úttekt Viðskiptaráðs leggjum við til að almennt skrifstofu- og íbúðarhúsnæði í eigu ríkissjóðs verði selt einkaaðilum. Þannig megi losa um fjármuni til að greiða ríkisskuldir og eyða þeim neikvæðu áhrifum sem þegar hefur verið lýst. Steingrímur nefnir sögu eignarhaldsfélagsins Fasteignar og rannsóknarhússið Borgir á Akureyri sem dæmi um gagnstæða niðurstöðu, þ.e. að sölu ríkiseigna fylgi aukinn kostnaður ríkisins - ekki sparnaður. Bæði dæmi Steingríms eru hins vegar í grundvallaratriðum frábrugðin þeim hugmyndum sem Viðskiptaráð lagði fram.

Eignarhaldsfélagið Fasteign var nýtt til að taka yfir og byggja nýjar fasteignir fyrir Reykjanesbæ og tíu önnur sveitarfélög. Fasteignafélagið var að stórum hluta í eigu þeirra sveitarfélaga sem áttu aðild að því. Sveitarfélögin seldu því ekki fasteignir sínar til einkaaðila heldur lögðu þær inn sem hlutafé í Eignarhaldsfélagið Fasteign. Áhættan af eignunum var því áfram borin af skattgreiðendum. Eins og þekkt er fór félagið, og sveitarfélögin þar af leiðandi líka, illa í hruninu sökum erlendrar lántöku Fasteignar. Með þetta í huga er öfugsnúið að Steingrímur nefni Fasteign sem rök fyrir því að ekki eigi að selja opinbert húsnæði. Félagið er einmitt gott dæmi um áhættu sem skattgreiðendur eru látnir taka þegar opinber fasteignarekstur er annars vegar.

Borgir á Akureyri er dæmi um sérhæft húsnæði – en ekki almennt húsnæði með fjölbreytta notkunarmöguleika. Í Borgum eru þannig, í bland við hefðbundið skrifstofurými, mjög sérhæfð rými undir rannsóknarstofur og tengdan búnað. Eins og kemur fram í úttekt Viðskiptaráðs hentar slíkt húsnæði misvel til sölu. Við tökum því undir með Steingrími um að ríkið ætti að stíga varlega til jarðar þegar kemur að sölu og leigutöku á slíku húsnæði.

Það má vafalítið finna dæmi um illa ígrundaða leigusamninga hins opinbera við einkaaðila. Að sama skapi þarf ekki að hugsa sig lengi um til að finna mislukkaðar opinberar framkvæmdir tengdar skrifstofuhúsnæði. Tímasetning, aðhald og verklag geta vegið þyngra en rekstrarformið. Umfjöllun Viðskiptaráðs snýr fyrst og fremst að því að mörkuð verði samræmd stefna í þessum efnum sem miðar að því að lágmarka sóun á almannafé. Að okkar mati væri sala á almennu skrifstofu- og íbúðahúsnæði hins opinbera skynsamlegasti valkosturinn.

Að lokum

Viðskiptaráð hefur lítinn áhuga á því að stefna Steingrími fyrir meiðyrði eins og hann nefnir að ráðinu sé guðvelkomið. Rökræða er hluti af heilbrigðri þjóðfélagsumræðu og leiðir til upplýstari ákvarðana. Við söknum þess hinsvegar að gagnrýnin sé málefnanlegri en raun ber vitni. Það er gömul rökvilla og ný að gera mótaðila sínum upp annarlegar hvatir. Staðreyndin er hins vegar sú, þótt Steingrímur vilji vafalaust telja sér trú um annað, að í þessum efnum deilum við sama markmiði. Góð meðferð opinberra fjármuna er allra hagur.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum þriðjudaginn 7. febrúar 2017

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Vel sóttur Peningamálafundur Viðskiptaráðs

Peningamálafundur Viðskiptaráðs fór fram í morgun, 23. nóvember. Yfirskrift ...
23. nóv 2023