Kapp án forsjár - Rýnt í störf Alþingis

Alþingi Íslands er ein af grunnstoðum íslensks samfélags og störf þess hafa haft og munu áfram hafa afgerandi áhrif á hraða endurreisnar hagkerfisins; hagvöxt, kaupmátt og bætt lífskjör. Ábyrgð þingsins er því mikil og ríður á að skipulega sé gengið til verka, málflutningur og ákvarðanir faglegar og með hagsmuni heildar að leiðarljósi. Aðeins þannig heldur þingið þeim virðingarsessi sem því er ætlað.

Þar sem verkefni Alþingis eru mikilvæg er ástæða til að huga að því hvernig til hefur tekist við úrlausn þeirra á síðustu þingum. Þegar efnislegt mat er lagt á störf þingheims síðustu misseri má með réttu lýsa þeim með skrumskælingu á góðu íslensku máltæki, að of oft einkenni kapp án forsjár vinnubrögð og efnistök. Þrátt fyrir góðan ásetning eiga alvarleg mistök sér ítrekað stað í störfum löggjafans og valda atvinnulífi og heimilum óþarfa búsifjum.

Stundum er skýringin sú að hugsjónir stjórnmálamanna hafa ráðið á kostnað hagsýni en of oft virðist vandinn helgast af því að löggjafann skortir yfirsýn á heildaráhrif einstakra ákvarðana. Hér má nefna sem dæmi hinar ýmsu breytingar á skattkerfinu sem ráðist hefur verið í undanfarið, nýja afdráttarskatta, lækkuð viðmið vegna yfirtökuskyldu og breytingar á fiskveiðistjórn. Markmiðin með fyrrgreindum lögum eru hugsanlega góðra gjalda verð en þegar mat á heildaráhrifum misferst verður afleiðingin frekar á skjön við almenna hagsmuni en til bóta.

Vankantar á störfum Alþingis eru merki um galla á því kerfi sem þar er starfað eftir. Það hlýtur að vera samstarfsverkefni stjórnvalda og allra þeirra sem hag hafa af vönduðum vinnubrögðum á Alþingi að breyta því kerfi. Með agaðri vinnubrögðum, nýtingu sérfræðiráðgjafar, betra samráði við hagsmunaaðila atvinnulífs og heimila og breyttri forgangsröðun mætti koma í veg fyrir skaða sem hlýst af þröngri sýn á lausnir á brýnum viðfangsefnum og óhyggilegri löggjöf. Það fæli um leið í sér aukna virðingu fyrir Alþingi, hraðari endurreisn hagkerfisins með hagvexti og bættum lífskjörum. Á því er nú þörf.

Í skoðuninni er m.a. farið yfir eftirfarandi:

  • Skattkerfisbreytingar letja til fjárfestinga, framtaks og umsvifa
  • Afdráttarskattar auka fjármagnskostnað og þrengja lánamöguleika
  • Frjálsar handfæraveiðar draga úr arðsemi og rýra gæði
  • Lækkuð viðmið um yfirtökuskyldu hvetja til afskráningar
  • Víðtæk kyrrsetningarheimild dregur úr áhuga á stjórnarsetu
  • Stuðningur við nýsköpun næst aðeins fram að hluta
  • Handbók fjármálaráðuneytisins um undirbúning og frágang lagafrumvarpa
  • Skortur á trausti milli stjórnkerfis og atvinnulífs dregur úr samráði
  • Bætt samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og heimila þarf við forgagnsröðun og útfærslu lausna 

Skoðunina má nálgast hér

Tengt efni

Lesskilningur Landverndar

Engin óvissa ríkir um efnahagslegar afleiðingar orkuskiptasviðsmyndar ...
2. mar 2023

Marel hlaut viðurkenningu fyrir sjálfbærniskýrslu ársins

Viðurkenning fyrir sjálfbærniskýrslu ársins var veitt í hádeginu við hátíðlega ...
8. jún 2023

Norðurlöndin með mikilvægari viðskiptalöndum Íslands

Danmörk, Noregur og Svíþjóð stóðu undir 13,9% af heildarutanríkisverslun Íslands ...
8. des 2022