Bætt framleiðni, meira samstarf og minni byrðar bestu kosningaloforðin

Nú á lokametrum kosningabaráttunnar eru línur teknar að skýrast í helstu stefnumálum stjórnmálaflokkanna. Af áherslum þeirra og almennri umræðu að líta bera afleiðingar fjármálahrunsins þar einna hæst. Er það að hluta til skiljanlegt en að sama skapi miður því það bendir sterklega til þess að lífskjarabati síðustu ára hafi ekki verið jafn hraður og vænst var í upphafi kjörtímabilsins.

Hagtölur síðustu tveggja ára renna stoðum þar undir, þó ákveðinn árangur hafi náðst s.s. í viðsnúningi á hallarekstri ríkissjóðs. Hagvöxtur er talsvert undir væntingum og upphaflegum spám, fjárfestingar eru af skornum skammti, skuldsetning er almennt of há, vaxtaumhverfið er ekki beysið og hægt þokast í afnámi gjaldeyrishafta.

Það er í þessu ljósi sem þarf að rýna kosningaloforð stjórnmálaflokkanna, þ.e. með hvaða hætti hyggjast þeir færa þessa þætti til betri vegar, hvaða leiðir eru skilvirkar og líklegar til að hámarka lífskjör til lengri tíma án þess að skapa byrðar fyrir komandi kynslóðir. Einfalda svarið við þessu er aukin framleiðni, þ.e. að gera fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra kleift að skapa sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði.

Samhliða bættri framleiðni þarf að takast á við ákveðna hagvaxtarhamlandi þætti. Þar verður einna helst að líta til skuldastöðu ríkissjóðs. Ríkisreikningurinn sýnir vel hvílík blóðtaka leiðir af mikilli skuldsetningu. Þrátt fyrir að greiðsluseðlar vegna skulda ríkisins berist ekki mánaðarlega inná íslensk heimili þá eru það skattgreiðendur sem bera afborganirnar. Það ætti því að vera forgangsatriði, samhliða bættri umgjörð til verðmætasköpunar, að létta á skuldum hins opinbera á næsta kjörtímabili.

Í skoðuninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Skuldsetning ríkissjóðs hefur rokið upp síðustu ár og nemur árlegur viðbótarvaxtakostnaður rúmum 50 mö. kr.
  • Of há skuldsetning sem hlutfall af VLF getur hamlað hagvexti og þar með dregið úr svigrúminu til að standa undir skuldabyrðinni.
  • Lækka má árlegan vaxtakostnað ríkisins úr 88 mö. kr. í 73 ma. kr. sé hugsanlegum ágóða ríkisins af samningum við kröfuhafa gömlu bankanna nýttir til niðurgreiðslu skulda.
  • Það jafngildir að tekjuskattsgreiðslum rúmlega 20 þús. færri Íslendinga (með meðallaun) yrði varið ár hvert til greiðslu vaxtakostnaðar, miðað við það sem nú er.
  • Sé ætlunin að ráðstafa ágóðanum í aðra þætti þarf að vega það og meta út frá væntum lengri tíma ábata samfélagsins í heild.
  • Samhliða greiðslu skulda þarf að örva hagvöxt og þar verður hvað best gert með aukinni framleiðni.
  • Aukin framleiðni og lægri skuldir myndu jafnframt gera ríkinu kleift að bæta þjónustu sína gagnvart almenningi.
  • Samhent átak stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila þarf til að leggja grunn að auknum efnahagslegum og pólitískum stöðugleika.
  • Tillögur og verklag Samráðsvettvangs um aukna hagsæld eru til eftirbreytni og takist að mynda þverpólitíska sátt um innleiðingu a.m.k. meginþátta tillagna vettvangsins yrði Grettistaki lyft fyrir hag íslensks samfélags um ókomin ár.

Skoðunina má nálgast hér

Tengt efni:

Tengt efni

Hver ber ábyrgð á verðbólgunni?

Ávarp formanns Viðskiptaráðs á Peningamálafundi sem fram fór í gær, 24. nóvember ...
25. nóv 2022

Sóknarfæri á tímum sjálfvirknivæðingar

Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja áskoranir en um leið ýmis tækifæri
6. apr 2022

Ríkið kyndir undir verðbólgu

Leiðrétt fyrir stöðu hagsveiflunnar eru ríkisfjármálin að styðja svipað mikið ...
13. des 2021