Viðskiptaþing 2012: Skýrsla Viðskiptaþings aðgengileg

Í skýrslu til Viðskiptaþings er fjallað nánar um efni þingsins, þ.e. Hvers virði er atvinnulíf?, þar sem m.a. er rýnt í tengsl atvinnulífs, hagvaxtar og lífskjara, uppruna hagvaxtar, hagstjórn síðustu áratuga, hagvaxtarþróun hérlendis í alþjóðlegu samhengi, samsetningu hagvaxtar og meginmarkmið hagstjórnar.

Þá er í skýrslunni rætt um þátt atvinnulífs í framleiðniaukningu og þess virðisauka sem skapast í hagkerfinu, viðhorf stjórnenda til rekstrarumhverfis fyrirtækja og mikilvægi úrbóta. Að auki er fjallað um mikilvægi samstarfs stjórnvalda og atvinnulífs sem og langtímastefnu um verðmætasköpun. Niðurstöðum viðhorfskönnunar sem Viðskiptaráð stóð fyrir í janúar eru jafnframt gerð nánari skil.

Opna í nýjum glugga á issuu.com

Samantekt skýrslunnar:

  • Hagvöxtur, kaupmáttur og lífskjör fara saman.
  • Hagvöxtur á mann hefur að jafnaði verið um 2,3% á ári síðustu 65 ár.
  • Lífskjör hafa ríflega fjórfaldast á þessum tíma sem er um 15 árum styttri en meðalævilengd Íslendings.
  • Hvert prósentustig sem munar á hagvexti milli landa hefur veruleg áhrif á þróun hlutfallslegra lífskjara til lengri tíma. Efnahagsaðgerðir sem auka hagvöxt eru mun áhrifaríkari en baráttan við hagsveifluna.
  • Á síðustu 50 árum hefur orðið mikil breyting á samsetningu atvinnulífsins.
  • Fjölbreytni hefur aukist og það er breytilegt hvaða geirar leiða vöxt hvers áratugar.
  • Töluverður munur er á hagþróun milli landsvæða, bæði á hagvexti og hagsveiflum.
  • Neysludrifinn hagvöxtur er ekki varanleg lausn á efnahagsvandanum.
  • Hagvöxtur verður alltaf á endanum drifinn áfram af aukinni framleiðni og verðmætasköpun.
  • Fjármunir og vinnuafl skýra um 60% hagvaxtar. Það sem eftir stendur, rúm 40%, skýrist t.a.m. af mannauði, auðlindanotkun, orkunotkun og tækniframförum.
  • Sagan sýnir að aðgerðir til að dempa áhrif efnahagsáfalla hafa ekki alltaf verið til bóta. Sterk rök hníga að því að hlutverk ríkisfjármálastefnunnar ætti að mestu að takmarkast við sjálfvirka sveiflujafnara í stað sértækra opinberra aðgerða.
  • Sjálfvirkum sveiflujöfnunaráhrifum skattkerfisins var eytt út, bæði fyrir og eftir hrun.
  • Ein skilvirkasta leiðin til að bæta árangur hagstjórnar er að leggja aukna áherslu á bætt rekstrar- og starfsumhverfi atvinnulífs.
  • Efnahagsleg velmegun byggist á því að skapa sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði. Aukin framleiðni er þannig forsenda aukins hagvaxtar og kaupmáttar.
  • Hvatinn til hagræðingar og skilvirkni, sem er fólginn í einkaeign í atvinnurekstri, er meginforsenda þess að hægt sé að hámarka framleiðni.
  • Verkefni hins opinbera er að skapa aðlaðandi framtíðarsýn, stefnu um verðmætasköpun og hagfellda umgjörð til atvinnurekstrar.
  • Það er á ábyrgð atvinnulífs að tryggja stöðugan langtíma rekstrargrundvöll innan ramma laga og reglna og á grunni góðra viðmiða. Hagkvæmni, framleiðnivöxtur, bætt lífskjör og aukin hagsæld fást ekki ef atvinnulífið byggir um of á umfangsmikilli áhættutöku og skuldsetningu.
  • Virði íslensks atvinnulífs er ávallt til jafns við þau lífskjör sem þjóðin býr við
    hverju sinni.

Skýrslan er aðgengileg hér

Tengt efni

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði ...
10. nóv 2023

Dauða­færi ríkis­stjórnarinnar til að lækka vaxta­stig

Viðureignin við verðbólguna er nú eitt brýnasta verkefnið á vettvangi ...
7. jún 2023