Viðskiptaþing 2013: Hugmyndahandbók Viðskiptaráðs aðgengileg

Ræðumenn(lítil)Hugmyndahandbók Viðskiptaráðs, sem gefin var út á Viðskiptaþingi rétt í þessu, hefur að geyma 13 tillögur að aukinni hagkvæmni.

Farið er ofan í þrjár megin greinar atvinnulífsins þ.e. auðlindatengda starfsemi, alþjóðlega starfsemi og innlenda þjónustu. Lagðar eru fram hugmyndir, sem m.a. byggja á nýlegri skýrslu McKinsey & Company, fyrir hverja grein um hvernig megi nýta framleiðsluþættina betur með aukinni hagkvæmni og ýta þannig undir aukna framleiðni sem aftur styður við hagvöxt.

Samantekt á tillögum hugmyndahandbókarinnar:

  1. Aukin fjárfesting í innviðum ferðaþjónustunnar: Til að auka megi fjárfestingu í greininni, dreifa aðsókn og jafna árstíðarsveiflur ætti að skoða markvissa gjaldtöku af ferðamönnum
  2. Hagkvæmni ráði för í sjárvarútvegi: Auka þarf svigrúm til framsals aflaheimilda, löng nýtingarleyfi þarf til að hámarka arðsemi og ýta undir fjárfestingu, gæta ætti byggðasjónarmiða með gagnsæum hætti en ekki óskilvirkum veiðum.
  3. Samkeppnishæft rekstrarumhverfi auðlindagreina. Auðlindahagfræði, alþjóðleg tilmæli og sanngirnisrök um að þjóðin njóti arðs af auðlindunum ganga í takt, sé útfærslan hagkvæm.
  4. Skilvirkara og fjölbreyttara landbúnaðarkerfi. Unnt er að afnema landbúnaðarstyrki með útgáfu ríkisskuldabréfs sem auðveldar hagræðingu í greininni og afnema ætti verndartolla.
  5. Allir kostir í orkunýtingu fullkannaðir. Hámarka þarf virði þeirra endurnýjanlegu orku sem Ísland býr yfir. Ráðast ætti í heildarúttekt á þjóðhagslegri hagkvæmni ólíkra kosta þar sem arðsemi ráði för, en virðiskeðja þeirra kortlögð samhliða.
  6. Samkeppnishæfari mannauður. Neðri stig menntakerfisins eru ekki að skila árangri í samræmi við fjárveitingar. Stytta ætti grunn- og framhaldsskóla um eitt ár hvorn og þannig stuðla að minna brottfalli og aukinni skilvirkni. Auka þarf fjárveitingar til háskóla og samræma námsframboð að þörfum atvinnulífsins.
  7. Sátt um langtímastefnumörkun. Auka þarf efnahagslegan stöðugleika og ein leið til þess er að stjórnmálaflokkar komi sér saman um langtímasáttmála í helstu málaflokkum.
  8. Bætt fjárfestingarumhverfi fyrirtækja. Endurskoða ætti fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða til að auka fjölbreytni fjárfestinga, afnema eignarhaldstakmarkanir erlendra aðila, leggja auðlegðarskatt niður og skoða hlutafjáröflun á internetinu.
  9. Áhersla á bættar tengingar. Endurskoða ætti lagaumhverfi til að bæta frekar möguleika atvinnustarfsemi á internetinu til aukinnar nýsköpunar og uppbyggingu verðmæta.
  10. Einfaldara umhverfi neysluskatta. Tollar verði lagðir niður og vörugjöld á vörur sem ekki valda samfélagslegum kostnaði og taka ætti upp flatan virðisaukaskatt á allar vörur og þjónustu.
  11. Úrbætur á samkeppnisumhverfi innlendrar þjónustu. Afnema þarf aðgangshindranir á mörkuðum og opna fyrir erlenda samkeppni, auka þarf svigrúm til að byggja um stærðarhagkvæmni og auka skilvirkni regluverks.
  12. Aukin skilvirkni opinberrar þjónustu. Aukin skilvirkni í opinberri þjónustu dregur úr valkvölinni milli hækkunar skatta og samdráttar í þjónustu. Móta þarf langtímaáætlun um framleiðniaukningu, hrinda af stað núllgrunnsfjárlagagerð og auka samkeppnislegt hlutleysi.
  13. Umfangsmeiri söfnun og birting hagtalna. Efla þarf Hagstofuna m.a. með aukinni gjaldtöku, frumkvæðisskylda ætti að vera á opinberum aðilum til að afhenda talnaefni og Hagstofan ætti að starfa eins og Kauphöll hvað varðar miðlun opinberra gagna.

Hugmyndahandbókin er aðgengileg hér.

Tengt efni

Lykillinn að bættum lífsgæðum og auknum tækifærum í atvinnulífi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi aðgerðir til ...
21. mar 2023

Dómskerfið: Annar möguleiki í stöðunni

Haraldur I. Birgisson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, ritaði eftirfarandi grein um ...
3. des 2009