Meirihluti aðildarfélaga vill kasta krónunni

Á Viðskiptaþingi í dag voru kynntar niðurstöður könnunar sem gerð var meðal hátt í 300 aðildarfélaga Viðskiptaráðs Íslands. Til marks um áhuga félagsmanna á málefninu var svarhlutfall ríflega 70%, sem er óvenju hátt fyrir þetta form könnunar. Það er afdráttarlaus skoðun aðildarfélaga að evran komi helst til greina ef íslensk stjórnvöld ákveða að taka upp annan opinberan gjaldmiðil. Þrátt fyrir það er ríflega helmingur félaga andvígur umsókn um aðild að Evrópusambandinu en einungis þriðjungur félaga er fylgjandi henni. Fleiri aðildarfélög eru andvíg en hlynnt núverandi fyrirkomulagi gjaldeyris- og peningamála og almennt líta þau svo á fjármálastjórn hins opinbera hafi verið óábyrg og að þar sé frekar að leita skýringa á núverandi stöðu en í hagstjórn Seðlabanka Íslands.

Athyglivert er að áherslur hins opinbera hvað varðar forgangsröðun verkefna eru töluvert á skjön við áherslur viðskiptalífsins. Að mati aðildarfélaga eru mikilvægustu verkefni stjórnvalda að halda verðbólgu í skefjum og hagvexti stöðugum, en hvort tveggja setja þeir framar í forgangsröðuninni en að tryggja lágt vaxtastig, draga úr gengissveiflum og lágmarka atvinnuleysi. Það er von Viðskiptaráðs Íslands að niðurstöður þessarar könnunar og efni skýrslu Viðskiptaþings 2008, „Íslenska krónan: Byrði eða blóraböggull?“ reynist lóð á vogarskálar skjótrar og upplýstrar ákvörðunartöku um eitt stærsta hagmunamál sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir um langa hríð.

Skoðanakönnunina má nálgast hér

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023