Mjög góð þátttaka á Viðskiptaþingi 2008

Metþátttaka og uppselt var á árlegu Viðskiptaþingi Viðskiptaráðs Íslands. Hátt í 500 gestir mættu, en meðal gesta voru lykilmenn í íslensku viðskiptalífi, ráðherrar, þingmenn, fræðimenn, erlendir sendiherrar og embættismenn. Yfirskriftin var að þessu sinni: “Krónan: Byrði eða blóraböggull” og var tileinkuð skipan peningamála hérlendis.

Erindi fluttu Geir H. Haarde forsætisráðherra, Richard Portes prófessor við London Business School og sérfræðingur í alþjóðfjármálum, Jürgen Stark stjórnarmaður í bankastjórn evrópska seðlabankans og Erlendur Hjaltason forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs.

Þátttakendur í umræðum voru Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri Kaupþings, Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsis, Róbert Wessman forstjóri Actavis og Tryggvi Þór Herbertsson forstjóri Askar Capital. Fundarstjóri var Jón Karl Ólafsson, fyrrv. forstjóri Icelandair, en Þóra Arnórsdóttir, fréttakona, stjórnaði umræðum.

Erindi Erlends má nálgast hér
Erindi Geirs má nálgast hér
Glærur Richard Portes má nálgast hér
Ræðu Jürgen Stark má nálgast hér

Þá afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, fjóra námsstyrki Viðskiptaráðs, að upphæð 350.000 kr hver. Styrkþegarnir að þessu sinni voru Magnús Þór Torfason, Georg Lúðvíksson, Bjarney Sonja Ólafsdóttir og Guðmundur Árni Árnason.

Tvær skýrslur voru gefnar út í tilefni af þinginu. Önnur ber nafnið “Krónan: Byrði eða blóraböggull?”. Hana má nálgast á rafrænu formi hér. Einnig er hægt að kaupa prentaða útgáfa á skrifstofu Viðskiptaráðs. Seinni skýrslan ber nafnið „Íslenska krónan: Byrði eða blóraböggull? - Viðhorfskönnun meðal aðildarfélaga “ og eru þar birtar niðurstöður könnunar sem lögð var fyrir aðildarfélaga vikurnar fyrir þingið. Hana má nálgast á rafrænu formi hér.

Viðskiptaráð þakkar þeim fjölmörgu aðilum sem lögðu hönd á plóg við að gera þennan dag eins vel heppaðan og raun bar vitni. Það er von Viðskiptaráðs að þingið reynist lóð á vogarskálar skjótrar og upplýstrar ákvörðunartöku um eitt stærsta hagmunamál sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir um langa hríð.

Tengt efni

Gerðardómur Viðskiptaráðs innleiðir stafræna lausn Justikal

"Með tilkomu stafræna réttarkerfisins getum við veitt skjólstæðingum okkar ...
24. apr 2023

Velkomin til framtíðarinnar, árið 2003

Landvernd kynnti tillögur um orkuframleiðslu og -skipti til ársins 2040 án ...
27. jún 2022