Málþing og nýútgefin skýrsla: Hugsum smátt - lítil og meðalstór fyrirtæki

Rúmlega 50 manns sóttu málþing Viðskiptaráðs um lítil og meðalstór fyrirtæki undir yfirskriftinni „Margt smátt gerir eitt stórt“ í Þjóðminjasafni Íslands á föstudaginn. Tilgangur þingsins var einkum að vekja athygli á mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í efnahagslífinu og fjalla um helstu ögranir og áskoranir á rekstrarumhverfi fyrirtækja af þessari stærðargráðu hér á landi. Framsögumenn voru Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Finnur Oddsson framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Christina Sommer forseti European Small Business Alliance, Bogi Örn Emilsson framkvæmdastjóri Skjals ehf. og Eiríkur Hilmarsson eigandi Kaffitárs. Hafdís Jónsdóttir formaður FKA og eigandi World Class heilsuræktarstöðva fór með fundarstjórn. Viðskiptaráð þakkar öllum þessum aðilum fyrir þátttöku þeirra á málþinginu.

Iðnaðarráðherra kom víða við í opnunarávarpi sínu og fagnaði því m.a. að athygli skyldi beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum enda sagði hún efnahagsvandann verða leystan með markvissum aðgerðum til að bæta rekstrarskilyrði þess fjölda fyrirtækja sem auka verðmætasköpun til lengri tíma. Þá gerði hún einnig mögulega aðild Íslands að ESB að umfjöllunarefni, sem hún kvað mikilvægt atriði í endurreisnarstarfinu. Með aðild væri komin skýr stefna í peningamálum og það væri atvinnulífinu til mikilla bóta. Erindi iðnaðarráðherra í heild má nálgast hér.

Finnur Oddsson fjallaði um efnahagslegt vægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í sínu erindi, sem bar heitið „Hugsum smátt!“, ásamt því að kynna helstu niðurstöður nýrrar skýrslu Viðskiptaráðs um lítil og meðalstór fyrirtæki. Benti hann m.a. á að nær öll fyrirtæki hér á landi teldust lítil og meðalstór og að samanlagt væru þau stærsti vinnuveitandi landsins. Íslensk heimili ættu því mikið undir þessum flokki fyrirtækja. Hann kallaði jafnframt eftir því að litlum og meðalstórum fyrirtækjum yrði gert hærra undir höfði í framtíðinni enda ljóst að þau mynu gegna lykilhlutverki í þeirri efnahagslegu endurreisn sem framundan er. Glærur með erindi Finns má nálgast hér.

Megininntakið í ræðu Christinu Sommer var að kynna starfsemi EBSA-samtakanna og fjalla um þá vitundarvakningu sem hefur átt sér stað innan Evrópu um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja undir áætluninni „Think small first“. Reifaði hún m.a. þá tíu liði sem áætlunin byggir á, en öll atriðin varða úrbætur á rekstrar- og starfskilyrðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Evrópu. Þá benti hún einnig á þá staðreynd að lítil og meðalstór fyrirtæki væru burðarásinn í öllum ríkjum Evrópu, rétt eins og á Íslandi. Ræðu Christinu í heild má nálgast hér.

Í erindum sínum fjölluðu þeir Bogi og Eiríkur, sem báðir eru í forsvari fyrir smærri fyrirtæki, um helstu ögranir og áskoranir í rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, ásamt því að kynna stuttlega sögu og starfsemi fyrirtækja sinna. Einnig fjölluðu þeir um hvaða áhrif núverandi efnahagshremmingar hefðu á rekstur fyrirtækja almennt og hvaða gildi þeir teldu æskilegt að atvinnurekendur hefðu að leiðarljósi í rekstri sínum, bæði í venjulegu árferði og á óvenjulegum tímum sem þessum.

Ný skýrsla Viðskiptaráðs um lítil og meðalstór fyrirtæki, „Hugsum smátt“ er aðgengileg hér.

Tengt efni

Já, það þarf að segja þetta. Oft.

Svanhildur Hólm skrifar um úttekt Viðskiptaráðs á umsvifum hins opinbera í ...
2. des 2021

Regluráð - sameiginlegur flötur?

Hægðarleikur ætti að vera fyrir ríkisstjórnarflokkana að bæta umhverfi ...
10. nóv 2021

Litið yfir sérkennilegt ár

„Enginn veit neitt, en allir eru að gera sitt besta,“ hefur ósjaldan flogið í ...
8. jan 2021