​Staðreyndir vegna rangfærslna um kjaramál

Þingflokkur Samfylkingarinnar sendi í gær frá sér ályktun í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður. Ályktunin inniheldur fjölmargar rangfærslur og er til þess fallin að afvegaleiða umræðu um kjaramál. Af því tilefni vill Viðskiptaráð benda á eftirfarandi staðreyndir:

  • Jöfnuður tekna hefur aukist en ekki minnkað líkt og haldið er fram. Gini-stuðullinn, sem mælir samþjöppun tekna, stóð í 30 stigum árið 2009 en hefur lækkað niður í 24 stig árið 2013.
  • Ísland er jafnframt meðal þeirra ríkja heims þar sem mestur tekjujöfnuður ríkir. Þannig er Gini-stuðullinn hérlendis (24 stig) undir meðaltali annarra Norðurlanda (25 stig) og töluvert lægri en innan Evrópusambandsins (31 stig).
  • Lægstu laun hafa hækkað umfram önnur laun jafnt og þétt undanfarin 25 ár – þvert á það sem fullyrt er. Kaupmáttur lágmarkslauna hefur aukist um 85% frá árinu 1990. Á sama tíma hefur kaupmáttur almennra launa aukist um 40%.
  • Hlutur þeirra eignamestu er lægri hérlendis en á öðrum Norðurlöndum. Þannig hefur hlutdeild eignamesta 1% í hreinum eignum lækkað um fjórðung frá falli fjármálakerfisins og var lægst af öllum Norðurlöndum árið 2013.
  • Hlutdeild launa í verðmætasköpun er há hérlendis. Svokallað launahlutfall hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin fimm ár og er nú með því hæsta innan OECD. Einungis tvö ríki hafa hærra hlutfall á meðan 24 ríki eru lægri. Það er því röng fullyrðing að skipting verðmæta sé óhagfelld fyrir íslenska launþega.
  • Miðað við fyrirliggjandi kröfugerðir stéttafélaga virðist sem hækkun lægstu launaþrepa eigi að færast upp launastigann og skila litlum innbyrðis breytingum. Verði það raunin má ætla að krafa um hækkun lágmarkaslauna í 300.000 kr. muni skila umframverðbólgu upp á tugi prósenta næstu ár.
  • Barnafólk með lágar tekjur færi verst út úr hærri verðbólgu og hækkun verðtryggðra lána. Barnafólk er með mun hærri vaxtabyrði af lánum en aðrir, eða 16% af ráðstöfunartekjum miðað við 11% hjá barnlausum (30-60 ára). Þessi munur er enn meiri hjá þeim tekjulægstu.

Auk fjölmargra rangfærslna er orðalag ályktunarinnar á þann veg að alið er á óvild og þannig dregið úr líkum á lausn kjaradeilna. Það er von ráðsins að stjórnmálamenn haldi sig við staðreyndir á komandi vikum í stað þess að vinna gegn lausnamiðaðri nálgun með ályktunum sem þessum.

Heimildir: Hagstofa Íslands (Gini-stuðull og launaþróun); Fjármála- og efnahagsráðuneytið (skipting eigna); OECD (launahlutföll); Seðlabanki Íslands (vaxtabyrði af lánum)

Tengt efni

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023