Staðreyndir um skattkerfið

Þann 15. janúar var birt viðtal við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í nýjum þætti í Ríkisútvarpinu sem ber heitið Ferð til fjár. Í viðtalinu kom fram að Kári telji skattkerfið hérlendis ekki nógu réttlátt. Hann greiði 20% fjármagnsskatt af arði eigna sinna á sama tíma og einstaklingur með 375 þúsund kr. í mánaðarlaun greiði 40% tekjuskatt af launum sínum. Viðtalið má sjá hér.

Í ljósi þeirrar umræðu sem sprottið hefur upp í kjölfar viðtalsins telur Viðskiptaráð rétt að koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

  • Einstaklingurinn í dæmi Kára greiðir 25% tekjuskatt en ekki 40% tekjuskatt. Það orsakast af því að persónuafsláttur dregst frá skattgreiðslum. Hægt er að skoða eiginleg skatthlutföll einstaklinga á vefsíðu Datamarket.
  • Skattbyrði einstaklinga eykst eftir því sem laun þeirra hækka. Þar gætir áhrifa persónuafsláttar og þriggja þrepa tekjuskatts. Þannig greiðir einstaklingur með 375.000 kr. í mánaðarlaun 25% tekjuskatt, einstaklingur með 750.000 kr. í mánaðarlaun greiðir 32% tekjuskatt og einstaklingur með 1,5 milljónir í mánaðarlaun greiðir 38% tekjuskatt.
  • Séu greiðslur úr bótakerfinu meðtaldar er munurinn enn meiri. Þannig fær einstaklingur með 375 þúsund kr. í mánaðarlaun um 50.000 kr. á mánuði í vaxta- og barnabætur ef viðkomandi er í sambúð með tvö börn.1 Hrein skattbyrði viðkomandi er því 13% af heildarlaunum. Einstaklingur í sömu aðstæðum með 600.000 kr. eða meira í mánaðarlaun fær hins vegar engar slíkar bætur.
  • Skattlagning á arðgreiðslur er 36% en ekki 20%. Áður en arðgreiðslur eru greiddar út til einstaklinga þarf félag að greiða 20% skatt af þeim hagnaði sem greiða á út. Í kjölfarið greiðir einstaklingurinn aftur 20% skatt af arðgreiðslunum sjálfum. Einstaklingar sem hafa tekjur sínar af arðgreiðslum greiða því um 36% tekjuskatt,2 sem er sambærilegt við greiðslur þeirra sem hafa 1 milljón kr. í mánaðarlaun.
  • Einu skattar á Íslandi sem leggjast með hlutfallslega þyngri hætti á tekjulægri einstaklinga eru nefskattar. Þannig koma útvarpsgjald og gjald í framkvæmdasjóð aldraðra ríflega tvöfalt verr niður á einstaklingi með 375.000 kr. á mánuði en einstaklingi með 1 milljón kr. á mánuði þegar horft er til hlutfallslegra áhrifa á kaupmátt.

Það er grundvallarmarkmið að Íslendingar búi við skattkerfi sem hefur sem minnst neikvæð áhrif á lífskjör einstaklinga og sem breiðust sátt ríkir um. Til að svo megi verða þarf umræða um stefnu í skattamálum hins vegar að byggja á staðreyndum. Þegar litið er til þeirra má sjá að skattbyrði einstaklinga er þyngri eftir því sem tekjur þeirra eru hærri. Fullyrðingar um annað standast ekki nánari skoðun.

1 Gert er ráð fyrir að báðir einstaklingar í sambúð séu á vinnumarkaði, með sömu laun og í eigin húsnæði.
2 Gert er ráð fyrir 1 milljón kr. á mánuði í fjármagnstekjur. Að teknu tilliti til frítekjumarks fjármagnstekna, sem er 100.000 kr. á ári, er skattbyrðin 35,7%

Tengt efni

Viðskiptaráð leitar að framkvæmdastjóra

Viðskiptaráð Íslands er heildarsamtök fyrirtækja, félaga og einstaklinga í ...
22. jan 2024

Óorð í ýmsum stærðum 

„Þegar íslensk stjórnvöld ákveða að innleiða EES-reglugerðir með íþyngjandi ...
4. okt 2023

Höfum við efni á þessu?

Í því efnahagsástandi sem nú ríkir er tímabært að ræða sívaxandi umsvif hins ...
23. jún 2023