Samkeppnishæfni IMD

IMD viðskiptaháskólinn í Sviss (e. International Institute for Management Development) hefur starfrækt rannsóknarstofnun um samkeppnishæfni þjóða heims frá árinu 1989. Rannsóknarstofnunin á í samstarfi við um 60 aðila víða um heim með það að leiðarljósi að gefa stjórnvöldum, fyrirtækjum og stofnunum sem besta mynd af samkeppnishæfni þjóða.

Úttekt á samkeppnishæfni
Stærsti liður í starfi stofnunarinnar er árleg útgáfa samkeppnislistans „IMD World Competitiveness Yearbook.“ Samkeppnislistinn er einn sá virtasti í heiminum og byggir á rannsóknum um samkeppnishæfni ásamt ítarlegum og yfirgripsmiklum upplýsingum frá samstarfsaðilum stofnunarinnar. Samkeppnishæfni hvers ríkis er metin út frá samsettri einkunn sem skiptist í fjóra meginþætti: efnahagslega frammistöðu, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og samfélagslega innviði. Listinn hefur þá sérstöðu að byggja að 2/3 hluta á tölulegum upplýsingum til að tryggja eins hlutlægan mælikvarða og unnt er. Til að endurspegla einnig þróun samkeppnishæfni eins og þátttakendur upplifa hana styðst listinn að hluta til við stjórnendakönnun sem framkvæmd er í hverju og einu þátttökulandi. Samanlagt byggir listinn á yfir 300 mælikvörðum í dag og gefur greinargóða mynd af meginþáttum samkeppnishæfni þjóða.

Aðkoma Viðskiptaráðs
Viðskiptaráð Íslands annast samantekt á tölulegum upplýsingum og stjórnendakönnun atvinnulífsins á Íslandi í samstarfi við IMD. Tilgangur samstarfsins er að gefa innlendum og erlendum aðilum sem nákvæmastar upplýsingar um stöðu íslensks atvinnulífs og efnahags. Þessar upplýsingar geta stjórnvöld, stofnanir og fyrirtæki notað til að bæta samkeppnishæfni landsins gagnvart öðrum löndum heims.

Samstarf við VÍB
Á vordögum 2014 fóru Viðskiptaráð og VÍB í samstarf um kynningu á niðurstöðum úttektar IMD. Samstarfið felst í árlegum fundi þar sem fjallað er um samkeppnishæfni Íslands.

Niðurstöður 2015
Á fundi sem Viðskiptaráð hélt í samstarfi við VÍB þann 28. maí 2015 voru niðurstöður úttektar IMD á samkeppnishæfni Íslands kynntar. Ísland situr í 24. sæti listans, sem er hækkun um eitt sæti frá árinu 2014.

Bandaríkin tróna á toppi listans og á eftir koma Hong Kong, Singapúr, Sviss, Kanada, Lúxemborg og Noregur. Þess má geta að Danmörk er í 8. sæti, Svíþjóð í 9. sæti og Finnland í 20. sæti og stendur Ísland því enn hinum Norðurlöndunum að baki, en þokast þó upp á við á listanum.

Kynningu á niðurstöðum úttektarinnar er að finna hér og upptöku af fundinum má sjá hér

Tengt efni: