ICC

Landsnefnd Alþjóðaviðskiptaráðsins var stofnuð 7. apríl 1983 af 23 stofnmeðlimum. Hlutverk nefndarinnar er einkum að fylgjast með straumum og stefnum í alþjóðlegu viðskiptalífi sem varðað geta íslenskt atvinnulíf og um leið vekja athygli forsvarsmanna fyrirtækja og stjórnvalda á þeim.

Alþjóðaviðskiptaráðið

Landsnefndin starfar á grundvelli samstarfs við Alþjóðaviðskiptaráðið (International Chamber of Commerce - ICC). ICC hefur starfað síðan 1919 og eru höfuðstöðvar þess í París. Aðild að því eiga rúmlega 8000 fyrirtæki, samtök og stofnanir. Landsnefndir (National Comittees) eru starfandi í um 140 löndum. Þekkt hugtök og leiðbeiningar í viðskiptum má rekja til starfs ICC, svo sem flutningsskilmálana INCOTERMS (FOB/CIF) og samræmdar reglur um bankaábyrgðir (UCP500). Meginstarfsemi landsnefndanna felst í að nýta viðamikið starf ICC til hagsbóta fyrir aðildarfyrirtæki sín og atvinnulífið almennt.

Hlutverk ráðsins

Eitt meginhlutverk ICC er að koma fram fyrir hönd viðskiptalífsins á alþjóðlegum vettvangi gagnvart stofnunum eins og ESB, WTO, OECD o.fl. Einnig er ICC umsagnaraðili fyrir Sameinuðu þjóðirnar í málum sem varða alþjóðaviðskipti. Helsta baráttumál ICC eru hindrunalaus milliríkjaviðskipti á öllum sviðum.

Einnig er starfandi á vegum ICC alþjóðleg gerðardómsstofnun, en hún hefur frá árinu 1923 verið ein af meginstoðum í starfsemi ICC og nýtur virðingar sem úrlausnaraðili í álitamálum sem upp koma í alþjóðaviðskiptum. Þá gefur ráðið einnig út ATA Carnet skírteini og upprunavottorð (e. certificates of origin). Auk þess stendur ICC fyrir fjölmörgum viðburðum og námskeiðum á hverju ári til þess m.a. að fræða starfsmenn fyrirtækja um útgefnar leiðbeiningar s.s. í gerð milliríkjasamninga, útboðsmálum, samkeppnismálum og bankaábyrgðum.

Incoterms flutningsskilmálarnir

Landsnefnd Alþjóðaviðskiptaráðsins á Íslandi heldur reglulega námskeið um Incoterms flutningsskilmálana. Landsnefndin var með þeim fyrstu sem bjóða upp á námskeið í Incoterms 2010 eftir að ný útgáfa skilmálanna kom út í september sama ár. Á slíkum námskeiðum er m.a. fjallað um tegundir og notkun ábyrgða við inn- og útflutning ásamt annarri þjónustu sem ICC býður upp á. Námskeið síðustu ára:

2012: Incoterms 2010

2011: Umgjörð vöruviðskipta til og frá Íslandi

2010: Incoterms 2010

Bóksala ICC

ICC Publishing S.A. gefur út hagnýt uppflettirit um alþjóðleg viðskipti. Efnistök eru margvísleg; bankaviðskipti, málefni alþjóðlega gerðardómstólsins, alþjóðlegir viðskiptasamningar, flutningsskilmálar ofl.

Skoða má úrval bóka í ICC Business Bookstore en fyrirspurnir varðandi bækur má einnig senda á með tölvupósti á Viðskiptaráð Íslands.

Ráðgjafahópar ICC

Á vegum ICC eru starfandi ráðgjafahópar í tilteknum málaflokkum sem landsnefndir geta skipað fulltrúa í, en fyrirtæki viðkomandi einstaklinga standa straum af kostnaði þessu tengdu. Málaflokkarnir eru m.a. gerðardómsmál, bankamál, samkeppni, samfélagsábyrgð, tollamál, hugverkamál, alþjóðaviðskipti og skattamál. Hóparnir samanstanda af tugum sérfræðinga frá fjölmörgum löndum og hafa það hlutverk m.a. að undirbúa gerð alþjóðlegra leiðbeininga á viðkomandi sviði auk þess að veita umsagnir um væntanlega löggjöf frá Evrópusambandinu.