Háskólinn í Reykjavík

Menntasjóður Viðskiptaráðs Íslands (áður SVÍV) stóð að stofnun Háskólans í Reykjavík sem að grunni til var byggður á áratuga reynslu og frábærum árangri Verzlunarskóla Íslands. Skólinn hefur nú starfað í um 15 ár við góðan orðstír. Á þessum tíma hefur skólinn tekið miklum breytingum, en stærsta skrefið var vafalaust sameining hans við Tækniháskóla Íslands árið 2005. Háskólinn í Reykjavík býður nú upp á vandað og fjölbreytt nám á mörgum sviðum. Skólinn opnar ótal spennandi tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf til að mæta breyttum tímum og styrkir innviði og samkeppnishæfni íslensks hagkerfis.

Á árinu 2010 flutti Háskólinn í Reykjavík í nýtt 27.000 fermetra húsnæði við rætur Öskjuhlíðar upp af Nauthólsvík. Húsnæði skólans er hannað útfrá þeim máttarstólpum sem skólinn byggir á en þeir samanstanda af alþjóðlegum kröftum, þvegfaglegri tækni, framsækni, sköpunargleði og frelsi. Þannig endurspeglar húsnæðið hlutverk HR sem er miðlun og sköpun þekkingar. Með því er ætlunin að bæta hæfni og lífsgæði einstaklinga, samkeppnisstöðu íslensks atvinnulíf og hagsæld þjóðarinnar í heild.

Rektor Háskólans í Reykjavík er Ari Kristinn Jónsson, en áður hafði hann gegnt starfi forseta tölvunarfræðideildar skólans. Það er ljóst að framtíð skólans er björt og áframhaldandi uppbygging hans mun skila miklum verðmætum til íslensks atvinnulífs og samfélags.

„Íslenskt menntakerfi ber mikla ábyrgð gagnvart einstaklingum, atvinnulífi og samfélagi. Þau tækifæri sem mestu máli skipta í menntakerfinu eru þau sem snúa að menntun, þjálfun og þroska einstaklingsins, samhliða því að þörfum atvinnulífs og samfélags fyrir menntun og nýsköpun sé mætt.

Þar sem hagvöxtur Íslands mun í framtíðinni byggja mun meira á hugviti, þekkingu og þjónustu sem er alþjóðlega samkeppnisfær, þá er ljóst að tækifærin í menntakerfinu eru líka tækifæri þjóðarinnar.

HR útskrifar nú tvo af hverjum þremur sem útskrifast með tæknimenntun á háskólastigi, helming viðskiptamenntaðra og þriðjung þeirra sem ljúka prófi í lögum. Jafnframt þessu stendur Háskólinn í Reykjavík fremstur þegar kemur að ritrýndum birtingum rannsóknarniðurstaða á sínum kjarnasviðum.“

- Dr. Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík

Heimasíða HR

Skipulagsskrá HR