Námsstyrkir

Opið er fyrir styrkumsóknir til námsstyrkja úr Menntasjóði Viðskiptaráðs fyrir fullt framhaldsnám erlendis. Umsóknarfrestur er til og með 11. janúar 2019. Tilkynnt er um styrkþega á Viðskiptaþingi þann 14. febrúar 2019.

Viðskiptaráð hefur um árabil veitt styrki úr Menntasjóði Viðskiptaráðs Íslands (MVÍ) til einstaklinga í framhaldsnámi við erlenda háskóla í greinum sem tengjast atvinnulífinu og stuðla að framþróun þess. Venju samkvæmt er a.m.k. einn styrkur veittur nemanda í námsgrein tengdri upplýsingatækni.

Árið 2018 voru fjórir styrkir veittir að upphæð 1.000.000 kr. hver.

Styrkþegar árið 2018 voru:

  • Ólafur Bjarki Bogason - Meistaranemi í tónlistarverkfræði við McGill háskóla í Montreal
  • Ingibjörg Sigvaldadóttir - Framhaldsnemi í líf- og læknavísindum hjá Karolinska Instituet í Stokkhólmi
  • Halla Björg Sigurþórsdóttir - Meistaranemi í taugaverkfræði í École Polytechnique Fédérale de Lausanne
  • Úndína Ósk Gísladóttir - meistaranemi í „Biomedical Informatics“ við Harvard háskóla

Valnefnd sjóðsins tekur ákvörðun um hverjir hljóta styrk. Nefndina skipa Ari Kristinn Jónsson, Daði Már Kristófersson og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir.


Algengar spurningar

Hverjir geta sótt um?
Nemendur í framhaldsnámi við erlenda háskóla

Er skiptinám við erlenda háskóla styrkhæft?
Gerð er krafa um fullt framhaldsnám við erlendan háskóla og því er skiptinám ekki styrkhæft.

Er fjarnám styrkhæft?
Styrkirnir eru eingöngu veittir vegna náms sem fram fer á staðnum og því er fjarnám ekki styrkhæft.

Er hægt að sækja um ef skólavist er ekki hafin?
Gerð er krafa um að umsækjendur hafi þegar hafið nám og styrkjum er því ekki úthlutað til einstaklinga sem ekki hafa hafið skólavist.

Hver er fjöldi og upphæð styrkja?
Valnefnd tekur ákvörðun um fjölda og upphæð styrkja. Árið 2018 voru fjórir styrkir veittir að upphæð 1.000.000 kr. hver. Fjöldi og upphæðir styrkja geta verið breytilegar milli ára.

Hvað þarf að fylla út?
Í umsóknarforminu er óskað eftir upplýsingum um umsækjanda og eftirfarandi skjölum:

  • Afrit af prófskírteini
  • Einkunnir úr núverandi námi (ef þær liggja fyrir nú þegar)
  • Ferilskrá
  • Kynningarbréf

Til hvers eru styrkirnir ætlaðir?
Styrkjunum er ætlað að mæta útgjöldum sem tengjast skólavistinni, s.s. skólagjöldum, bókakaupum og öðrum útgjöldum sem hljótast af því að stunda nám erlendis.

Hvernig fer ákvörðun fram?
Eftir að umsóknarfrestur rennur út fer valnefnd sjóðsins yfir allar umsóknir og velur fjóra styrkþega úr hópi umsækjenda.

Hverjir skipa valnefnd sjóðsins?
Valnefnd Rannsóknasjóðs skipa Ari Kristinn Jónsson, Daði Már Kristófersson og Guðbjörg Edda Eggertsdóttir.

Fylgja einhverjar skyldur styrkjunum?
Styrkþegar eru beðnir um aðstoð í tengslum við gerð kynningarefnis sem sýnt er á Viðskiptaþingi í tengslum við styrkveitinguna. Sjá dæmi um kynningarefni hér

Hvað tekur ferlið langan tíma?
Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 11. janúar 2019. Tilkynnt verður um styrkþega á Viðskiptaþingi þann 14. febrúar 2019. Nánari upplýsingar um styrkþega ársins 2018 má nálgast hér.

Hvar fæ ég nánari upplýsingar?
Allar nánari upplýsingar um námsstyrki og styrkveitingar eru veittar hjá Védísi Hervöru, vedis@vi.is.