Komandi lausnir munu ákvarða samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins

Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi kom Tómas Már Sigurðsson, formaður Viðskiptaráðs, m.a. inn á það að íslenskt atvinnulíf væri  í viðkvæmri stöðu um þessar mundir. Það hafi gengið illa að blása lífi í atvinnulífið að nýju eftir hrun bankakerfisins, en stöðugt fleiri fyrirtæki verða nú gjaldþrota og fjöldamörg störf hafa tapast. Slíkar aðstæður kalli á spurningar um hvert við stefnum og því er yfirskrift Viðskiptaþings í ár Er framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf?

Varðandi skattabreytingar ríkisstjórnarinnar segir hann m.a.: „Í stað þeirra gagngeru breytinga sem nýlega komu til framkvæmda hefðu stjórnvöld átt að setja sér einfalt markmið um að hér yrðu engir nýir skattar lagðir á. Með því væri hinsvegar ekki útilokað að stjórnvöld gætu aukið skatttekjur með skattahækkunum á fyrirliggjandi stofnum.“

Fjármál hins opinbera eru grundvöllur endurreisnar
Jafnframt nefndi hann að hér á Íslandi ríkti mikil tvísýna um framvindu í ríkisfjármálum og greiðslugetu ríkissjóðs í framtíðinni.  Afleiðingin væri algjör óvissa um þróun í skattamálum. Meðal vandamála væri staða peningamála, en hún er í uppnámi. Raunveruleg stefna um hvort taka eigi upp annan gjaldmiðil eða viðhalda krónunni sé ekki til staðar og málefnaleg umræða um framtíðarleiðir eigi sér ekki stað. Á meðan búa fyrirtæki við gjaldeyrishöft, háa vexti og ófyrirsjáanlega verðbólgu.

Einnig kom hann inn á skert aðgengi fyrirtækja að fjármagni, en Tómas sagði: „Alger óvissa ríkir um aðgang fyrirtækja að fjármagni, til skemmri og lengri tíma.“ Stjórnvöld geta haft afgerandi áhrif á hvata fólks, fjármagns og fyrirtækja til að velja Ísland fram yfir önnur lönd með því að bjóða upp á hagfellt skattaumhverfi, halda umsvifum hins opinbera innan skynsamlegra og sjálfbærra marka og efla innviði samfélagsins. Lausnir á skuldavanda og rekstrarhalla ríkissjóðs munu ákvarða samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins til framtíðar.

Ræðu Tómasar má nálgast hér.

Tengt efni

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Nauðsynlegt að líta heildstætt á vinnumarkaðinn á Íslandi

Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára ...
15. feb 2022