Viðskiptaþing 2014: Ísland er land tækifæranna

Sigmundur_vefurSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, fjallaði á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, hvers er að vænta á næstu misserum og hvernig atvinnulífið og stjórnvöld í sameiningu geta náð sem mestum árangri á komandi árum.

Samstarf mikilvægt
Ráðherra sagði vilja stjórnvalda vera þann að vinna með atvinnulífinu „...og við viljum að þið náið árangri vegna þess að samfélagið í heild nær ekki árangri nema atvinnulífið dafni. Staða ríkissjóðs, kjör launþega, heilbrigðisþjónusta eða önnur lífsins gæði batna ekki nema atvinnulífið fái tækifæri til að skapa aukin verðmæti og búi við aðstæður sem stuðla að slíkri verðmætasköpun. Við viljum greiða götu ykkar því að hagsmunir okkar fara saman. Öflugt atvinnulíf, framtakssemi, fjárfesting, nýsköpun og önnur verðmætasköpun eru forsenda velferðar á Íslandi eins og annars staðar.“

Ráðherra sagði góða vinnu samtaka atvinnurekenda nýtast stjórnvöldum ákaflega vel, en að það væri þó gagnlegt fyrir forsvarsmenn þeirra að nálgast stjórnvöld á uppbyggilegan hátt. „Forsvarsmenn í samtökum atvinnurekenda þurfa að varast að verða eins og ferðalangurinn í sögunni um tjakkinn. [...]það gagnar ekki að fá útrás fyrir það núna þegar losnar um og komin er ríkisstjórn sem skilur þarfir atvinnulífs og hefur sýnt að hún er tilbúin til að taka slagi og fá yfir sig nokkrar gusur til að rétta stöðu atvinnulífsins“ [...] „Þess vegna legg ég til að forsvarsmenn atvinnurekenda nýti það fjármagn og bolmagn sem þeir hafa til að leggja fram hugmyndir og uppbyggilegar ábendingar og vinna með stjórnvöldum.“ sagði ráðherra.

Ríkisstjórnin vinnur að eflingu alþjóðaviðskipta
Ráðherra sagði mikið vanta uppá að Ísland sé nægilega opið fyrir alþjóðlegum viðskiptum og hvernig megi efla alþjóðageirann. Nefndi ráðherra að m.a. ekki þarf „... að eyða löngum tíma í að fara yfir að ýmsar breytingar hafa orðið á undanförnum árum sem standa alþjóðlegum viðskiptum á Íslandi fyrir þrifum.“

„Það góða er þó að þessu má breyta til hins betra og sú vinna er í fullum gangi. Ríkisstjórnin vinnur að því að gera Ísland sem best í stakk búið til að vera öflugur þátttakandi í alþjóðaviðskiptum og búa fyrirtækjum sem besta starfsaðstöðu á Íslandi, en þau markmið fara augljóslega saman.“

Þá sagði ráðherra stjórnvöld vinna að því með öllum tiltækum ráðum að liðka fyrir fjárfestingu, bæði innlendri og erlendri, og skapa þær aðstæður til að stór og vænleg erlend fjárfestingaverkefni verði að veruleika.

Ekki fara fram með meira kappi en forsjá
Ráðherra minnti á að mikilvægt væri að fara ekki fram með meira kappi en forsjá og muna að reikna dæmið til enda, bæði fyrir fyrirtækin og samfélagið. „Fyrirtækin eru hluti af samfélaginu og njóta góðs af því þegar því vegnar vel, rétt eins og samfélagið nýtur góðs af því þegar fyrirtækjunum vegnar vel. Þess vegna verða forystumenn samtaka atvinnurekenda líka að huga að samfélagslegri ábyrgð sinni. Ekki bara vegna þess að það er rétt heldur líka vegna þess að það er efnahagslega mikilvægt, hagsmunirnir fara saman.“

Í þessu samhengi sagði ráðherra mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að gjaldeyrishöftin verða ekki afnumin nema skilyrði séu til þess. „Það kemur ekki til greina af hálfu stjórnvalda að íslenskur almenningur, og íslenskt atvinnulíf, taki á sig auknar byrðar til að leysa einn hóp úr höftum á meðan restin er skilin eftir með enn stærri vanda. Lausn þarf því að vera til þess fallin að leyfa almenna afléttingu fjármagnshaftanna.“

„Að undanförnu hefur orðið vart tilrauna til að setja af stað umræðu sem virðist til þess ætluð að þrýsta á að stjórnvöld veiti kröfuhöfum föllnu bankanna sérlausnir. Slíkar tilraunir munu ekki bera árangur. Og það er mikilvægt að íslenskir atvinnurekendur láti ekki þessa tilburði villa sér sýn.“ sagði ráðherra.

Þá sagði ráðherra að þrátt fyrir höftin væru heilmikil sóknarfæri fyrir bæði innlenda og erlenda aðila. Nægt fjármagn væri í landinu en hins vegar væri skortur á aðgangi að lánsfé á eðlilegum kjörum. Minnti ráðherra þar á að vextir þyrftu að lækka, fjármálastofnanir að þora að lána fyrir nýsköpun og lífeyrissjóðirnir að láta verulega til sín taka.

Atvinnulífið háð velgengni heimila
Ráðherra minnti jafnframt á að þó stór fyrirtæki undir stjórn hámenntaðra einstaklinga væru nauðsynleg hverju nútíma þjóðfélagi þá megi ekki gleyma að „...flest voru þessi fyrirtæki stofnuð og byggð upp fyrir frumkvæði lítilla atvinnurekenda. Það vill því miður gleymast að undirstaða heilbrigðs atvinnulífs er að til sé fólk sem er tilbúið að leggja á sig óendanlega vinnu til að sjá drauminn um eigið fyrirtæki rætast.“

Þá fór ráðherra jafnframt yfir samspil atvinnulífs og heimila og sagði atvinnulífið háð velgengni heimila rétt eins og afkoma heimila væri háð velgengni atvinnulífsins. Sagði ráðherra jafnframt „Athygli þjóðmálaumræðunnar hefur að undanförnu beinst að höfuðstólslækkun húsnæðislána. Sú aðgerð er vissulega óhefðbundin þó ekki séum við ein um að grípa til aðgerða því stjórnvöld og seðlabankar fjölmargra ríkja beittu sér fyrir óhefðbundnum aðgerðum í kjölfar fjármálakreppunnar til að draga úr hættu á langvarandi stöðnun. Nýleg skýrsla ráðgjafafyrirtækisins McKinsey um tekjudreifingaráhrif aðgerða stærstu seðlabanka heimsins í kreppunni á helstu hópa samfélagsins setur þetta í áhugavert samhengi.“

Ráðherra sagði ennfremur „enn áhugaverðara er að sjá að einar helstu áhyggjur Seðlabankans snúa að því að leiðréttingin muni virkja peningamagn í umferð á næstu fjórum árum. Ekki er þó minnst á að afnámsferli Seðlabankans hefur virkjað meira en tvöfalda þá upphæð af nýju peningamagni með sama hætti án þess að Seðlabankinn hafi séð ástæðu til að fjalla um áhrif þeirra aðgerða á sama hátt.“

Mýmörg sóknarfæri
Undir lok erindis ráðherra kom hann inn á stöðu Íslands og sagði sóknarfærin mýmörg, s.s. bylting í virðisaukandi vinnslu sjávarafurða, tækifæri til aukinnar arðsemi í raforkuframleiðslu, uppbyggingu ferðaþjónustu og olíu- og gasleit. „Þá eru sóknarfæri fólgin í ónógri framleiðni fyrirtækja sem framleiða fyrir innlendan markað og skorti á hagræðingu hjá hinu opinbera. Tækifærin felast í að gera hlutina betur og bæta þannig lífskjör.“

Ísland ekki á leið í ESB
Hvað varðar ESB aðild sagði ráðherra Ísland ekki á leið í sambandið. „Í landinu er ríkisstjórn sem er einhuga um að hag landsins sé best borgið utan sambandsins, eins og fjölmörg dæmi undanfarinna ára sanna. [...]Varla dettur fólki það til hugar að það sé æskileg eða yfir höfuð framkvæmanleg utanríkisstefna fyrir Ísland að ríkisstjórn sem er alfarið andvíg aðild að ESB standi í viðræðum við sambandið með það að markmiði að koma landinu þar inn?“

„Við munum áfram eiga gott samstarf við nágranna okkar í Evrópu og efla það víðtæka samstarf sem við eigum við Evrópuþjóðir. Um leið verður haldið áfram að auka viðskipti við lönd um allan heim og hefja sókn á nýja markaði.“

Að lokum svaraði ráðherra spurningunni hvort Ísland væri opið fyrir alþjóðleg viðskipti og sagði „Svarið er: Yes, Iceland is open for business, but the store is not for sale.“

Drög að ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eru aðgengileg hér.

Upplýsingarit Viðskiptaráðs um alþjóðageirann má sækja hér.

Ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er aðgengileg á Youtube-síðu Viðskiptaráðs.

Tengdar fréttir:

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

At­vinnu­rekstur er allra hagur

„Það er mikið hagsmunamál fyrir launafólk að til séu þeir sem bæði geta stofnað ...
23. feb 2024

Jöfnunarsjóður atvinnulífsins?

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifar um ...
21. feb 2024