Formaður Viðskiptaráðs segir tíma orða liðinn og að tími aðgerða verði að taka við

Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista og formaður Viðskiptaráðs, sagði í setningarræðu Viðskiptaþings 2007 að nú væri tími orða af hálfu hins opinbera liðinn og tími aðgerða þyrfti að taka við. Var hann þar m.a. að visa til þess óróa sem hefur einkennt krónuna að undanförnu og skorts á stefnumótun stjórnvalda í gjaldeyris- og efnahagsmálum. Erlendur sagði einnig: “það er því skýlaus krafa bæði viðskiptalífs og almennings, að þessi mál séu rædd opinskátt og af krafti og ákvarðanir teknar af skilvirkni. Með öðrum hætti verður þeirri óvissu sem ríkir í rekstrarumhverfi fyrirtækja og efnahagslífi Íslendinga ekki eytt.” Erlendur sagði efnahagslegan stöðugleika vera grundvallarforsenda þess að íslenska krónan ætti sér von um framtíð og að krónan hafi verið gerð að blóraböggli hnökra í hagstjórn síðustu ára.

Þá sagði Erlendur: “nauðsynlegt er að almenn starfsemi hins opinbera styðji betur við peningastefnu Seðlabanka Íslands og að kerfisbundið sé unnið gegn sveiflum með fjármálastjórn hins opinbera.”  Þá sagði Erlendur að núverandi rekstrarfyrirkomulag Íbúðalánasjóðs væri mein í íslensku hagkerfi og að sjóðurinn hefði átt stóran þátt í að spilla fyrir virkni peningastefnunnar og leitt til óhóflegra hækkana stýrivaxta sem hefði skaðað þá sem síst skyldi. Erlendur sagði enn fremur: “Það þarf að breyta hlutverki Íbúðalánasjóðs strax og það er á ábyrgð stjórnvalda að upplýsa um neikvæðar afleiðingar af starfsemi hans. Í núverandi mynd er hann ógnun við jafnvægi í hagkerfinu og fjármálastöðugleika í landinu.”

Erlendur sagði einnig að frekari uppgjör og skráning hlutabréfa í erlenda mynt væri eðlilegur fylgifiskur aukinnar alþjóðavæðingar íslenskra fyrirtækja. Að mati Erlendar ætti regluverk á þessu sviði að vera opið, almennt og skilvirkt, en ekki einkennast af boðum og bönnum. Erlendur sagði enn fremur afstöðu Seðlabankans í nýlegri umsögn sinni byggja frekar á andstöðu gagnvart frekari alþjóðavæðingar og afnámi hafta heldur en neikvæðum áhrifum af uppgjöri fjármálafyrirtækja á peningastefnu bankans. Erlendur sagði enn fremur: “það eru miklir hagsmunir í húfi og því þarft að finna skjóta, ásættanlega og varanlega lausn.”

Ræðu Erlendar má nálgast hér.

Tengt efni

Ávarp Ara Fenger á Viðskiptaþingi

Ari Fenger flutti opnunarávarp á Viðskiptaþingi 2024. Þetta var hans síðasta ...
12. feb 2024

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022

Engar tekjur og endalaus útgjöld? Greining á loforðum flokkanna

SA og VÍ áætla að afkoma ríkissjóðs gæti versnað um allt að 250 milljarða. ...
22. sep 2021