Ellefu milljónum veitt úr Rannsóknasjóði Viðskiptaráðs

Í gær fór fram önnur úthlutun úr Rannsóknasjóði Viðskiptaráðs Íslands. Alls var ellefu milljónum króna úthlutað til fjögurra verkefna. Styrkjunum er ætlað að auka samkeppnishæfni Íslands með því að efla rannsóknir og nýsköpun sem nýtast íslensku menntakerfi og atvinnulífi. Að mati valnefndar falla þau verkefni sem urðu fyrir valinu vel að markmiðum sjóðsins auk þess sem gæði umsókna þóttu framúrskarandi.

Eftirtaldir aðilar hlutu styrk úr sjóðnum:

Háskólinn í Reykjavík - 5.000.000 kr.
Háskólinn í Reykjavík hlýtur styrk vegna samstarfsverkefnis við Massachusets Institute of Technology (MIT) og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem felst í greiningu á umhverfi nýsköpunar á Íslandi og gerð tillagna um hvernig best sé að efla það þannig að landið verði samkeppnisfært í heimi mikilla og hraðra breytinga. Kjarnateymi, skipað fulltrúum atvinnulífs, háskóla, fjárfesta, frumkvöðla og stjórvalda, mun vinna með sérfræðingum MIT og mun skila af sér skýrum og framkvæmanlegum tillögum til úrbóta, byggðum á víðtækri þekkingu erlendra sérfræðinga og nákvæmri greiningu á þeim séraðstæðum sem eru á Íslandi.

Ólafur Þór Ævarsson og Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir - 3.000.000 kr.
Ólafur og Ragnheiður hljóta styrk til að framkvæma rannsókn á algengi streitu og streitutengdra vandamála á íslenskum vinnumarkaði. Þróa á aðferð til að mæla algengi sjúklegra einkenna streitu í fyrirtækjum á ónafngreindan hátt og leggja mat á afleiðingar streitu á heilsu og rekstur fyrirtækja. Rannsóknin mun auka þekkingu á streitu og hugsanlegum afleiðingum hennar og getur þar með stuðlað að því að auka skilvirkni og verðmætasköpun í íslensku atvinnulífi.

Lagadeild Háskóla Íslands og Hagfræðistofnun - 1.500.000 kr.
Lagadeild Háskóla Íslands og Hagfræðistofnun hljóta styrk vegna rannsóknarverkefnis í norðurslóðarétti. Þungamiðja verkefnisins hvílir á siglingum og skipaflutningum um norðurslóðir og áhrifum þeirrar starfsemi m.a. á íslensk fyrirtæki og efnahagslíf. Markmið verkefnisins er að veita heildstætt yfirlit yfir margvísleg lagaleg og efnahagsleg álitaefni sem fylgja vaxandi umsvifum á norðurslóðum.

Lára Jóhannsdóttir - 1.500.000 kr.
Lára hlýtur styrk til að vinna að rannsóknarverkefninu Ábyrgar fjárfestingar íslenskra fjármálafyrirtækja. Í verkefninu verður leitast við að skilgreina hvað ábyrgar fjárfestingar eru, hvernig þær tengjast góðum stjórnarháttum, hverjir séu hvatar sem liggja til grundvallar ábyrgum fjárfestingum, hverjar séu helstu hindranir fyrir því að fjárfesta á ábyrgan máta, hver sé helsti ávinningurinn af ábyrgum fjárfestingum og hver staða ábyrgra fjárfestinga sé hér á landi.

Rannsóknasjóður Viðskiptaráðs Íslands veitir árlega styrki til einstaklinga vegna rannsókna og nýsköpunar tengdum framþróun menntunar og eflingu íslensks atvinnulífs. Valnefnd sjóðsins skipa Eggert Benedikt Guðmundsson, Gísli Hjálmtýsson og Ragnhildur Geirsdóttir.

Myndir frá fundinum má sjá á Facebook-síðu Viðskiptaráðs

Tengt efni

Úthlutað úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs 

Sex verkefni fengu styrk úr Framtíðarsjóði Viðskiptaráðs Íslands
23. feb 2024

Fimm staðreyndir inn í kjaraviðræður

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, skrifar um fimm staðreyndir ...
24. jan 2024

Andri nýr formaður Viðskiptaráðs – Ný stjórn kjörin

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fór fram í dag. Þar var kunngerð niðurstaða úr ...
7. feb 2024