Lánshæfi batnar en herða þarf tökin í opinberum rekstri

Síðastliðinn föstudag hækkaði Fitch Ratings lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um einn flokk. Einkunnin hefur nú hækkað hjá öllum stóru lánshæfismatsfyrirtækjunum (Standard & Poor‘s, Moody‘s og Fitch) á undanförnum vikum. Er þetta í fyrsta sinn frá hruni sem lánshæfi ríkissjóðs batnar samkvæmt öllum fyrirtækjunum þremur.

Meginorsök þessara hækkana er ný áætlun stjórnvalda um afnám hafta. Samkvæmt matsfyrirtækjunum er áætlunin bæði ítarleg og trúverðug. Þá mun innleiðing hennar bæta skuldastöðu ríkissjóðs og styðja við efnahagslegar framfarir á næstu árum. Gangi afnámsáætlunin eftir ásamt áætlun stjórnvalda um niðurgreiðslu skulda telja fyrirtækin fyrirséð að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hækki enn frekar í náinni framtíð.

Herða þarf tökin í opinberum rekstri
Þrátt fyrir þessar jákvæðu fregnir eru hættumerki til staðar. Hækkunin byggir á þeirri lykilforsendu að þeir fjármunir sem falli til við afnám hafta verði nýttir til að bæta skuldastöðu ríkissjóðs en ekki til þensluaukandi útgjalda.1 Þá gætu áhrif kjarasamninga á verðbólgu grafið undan lánshæfismatinu á komandi árum.

Samkvæmt Seðlabanka Íslands gætir þegar þensluáhrifa í íslensku hagkerfi og mun svo áfram vera á næstu árum. Á slíkum tímum er lykilverkefni stjórnvalda að draga úr opinberum útgjöldum og greiða niður skuldir. Þannig skapar hið opinbera heilbrigt mótvægi gagnvart þeirri útgjaldaaukningu sem á sér stað hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Vísbendingar eru um að þessu verkefni hafi ekki verið sinnt undanfarið. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2014 jukust útgjöld ríkissjóðs um 13. ma. kr. á milli ára.2 Frekari vöxtur opinberra útgjalda á þessum tímapunkti mun leiða til aukinnar þenslu og verri skuldastöðu en ella sem er líklegt til að lækka lánshæfi ríkissjóðs á ný.3

Bætt lánshæfi dregur úr vaxtakostnaði allra
Lánshæfi ríkissjóðs hefur leiðandi áhrif á vaxtakjör innlendra aðila. Þannig hefur hærri einkunn ríkissjóðs þegar leitt til betra lánshæfis íslensku bankanna og Landsvirkjunar.4 Bætt lánshæfi bankanna skilar sér í lægri vaxtakostnaði fyrirtækja og heimila. Þá er bætt lánshæfi Landsvirkjunar til þess fallið að auka verðmæti félagsins sem skilar almenningi ávinningi sem eiganda fyrirtækisins í gegnum íslenska ríkið. Hærra lánshæfismat hefur því jákvæð áhrif á lífskjör hérlendis.

Með framlagningu trúverðugrar og vel ígrundaðrar afnámsáætlunar hafa stjórnvöld stigið veigamikið jákvætt skref í átt til bættra lífskjara hérlendis á komandi árum. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til þess að halda áfram á þessari braut og herða tökin í rekstri hins opinbera með því að draga úr útgjöldum og greiða niður skuldir á komandi misserum. 

-

1 Úr tilkynningu S&P: „Our upgrade is premised on the assumption that any such proceedings will be used to pay down government debt, and therefore not spent in a way that could contribute to economic overheating.“ Tilkynninguna má nálgast á vef Seðlabanka Íslands, slóð: http://www.sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-t...
2 Sjá nánari umfjöllun í annarri frétt á vef Viðskiptaráðs: http://vi.is/malefnastarf/frettir/skattar-haekkudu...
3 Úr tilkynningu Moody‘s: „the rating could be downgraded if the government‘s commitment to fiscal consolidation were to show signs of waning, thereby halting the declining trend in the public debt ratio.“ Tilkynninguna má nálgast á vef Seðlabanka Íslands, slóð: http://www.sedlabanki.is/utgefid-efni/frettir-og-t...
4 Lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar hækkaði þann 2. júlí hjá Moody‘s og þann 23. júlí hjá S&P. Lánshæfiseinkunn íslensku bankanna hækkaði þann 3. júlí hjá Moody‘s og þann 21. júlí hjá S&P.

Tengt efni

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023

Endurskoða þarf íþyngjandi ákvæði persónuverndarlaga

Umsögn Viðskiptaráðs, SA, SI, SFS, SVÞ, SAF, Samorku og SFF um frumvarp til laga ...
25. okt 2022