Örerindi um samkeppnishæfni

Á fundi Viðskiptaráðs um samkeppnishæfni síðastliðinn miðvikudag var samkeppnishæfni Íslands og hinna Norðurlandanna borin saman út frá fjórum framtíðarlinsum Viðskiptaráðs sem eru leiðarvísir í starfi ráðsins. Í kjölfarið voru flutt fjögur örerindi þar sem horft var í gegnum linsurnar.

Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania, horfði í gegnum tæknilinsuna og Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka, tók mannauðslinsuna fyrir. Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, leit í gegnum umhverfislinsuna og Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri GRID beindi sjónum sínum að tengslalinsunni.

Í máli Ægis Más, forstjóra Advania, kom fram að Íslendingar líkt og aðrar þjóðir heims stæðu frammi fyrir mestu áskorun 21. aldarinnar þegar kemur að því að bregðast við örum tæknibreytingum. Áskorunin væri sérstaklega krefjandi í ljósi þess að tækninni fleytir fram í veldisvísi á meðan samfélög og einstaklingar breytast línulega eða lógaritmískt. Fyrir vikið skapist gjá sem veldur straumhvörfum. Hins vegar gætu hið opinbera, fyrirtæki og stofnanir tekið djarfar ákvarðanir um að aðlagast tækninni og þar með dregið úr truflandi áhrifum tæknibreytinga. Það kallaði hins vegar á skýra stefnumörkun og eftirfylgni.

Edda Hermannsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Íslandsbanka, gerði breytingar á vinnumarkaði að umfjöllunarefni sínu. Meðal annars greindi hún frá því að þjónustustörfum muni fækka á sama tíma og störf sem krefjast tækniþekkingar fjölgar. Fyrir vikið væri hætta á því að launabilið gæti breikkað og það væru áskoranir fyrirtækja að leiða fólk inn í breytta tíma. Aftur á móti væri erfiðast að sjálfvirknivæða þætti er krefðust tilfinningagreindar sem myndi því að líkindum verða mikilvægari eiginleiki eftir því sem tímanum yndi fram.

Þá beindi Edda sjónum sínum að mismiklum áhuga kynjanna á tölvum og tækni sem virðist lítið hafa breyst síðastliðin 10 ár. Vísaði Edda meðal annars til könnunar á vegum Gallup þar sem fram kom að 44% kvenna á aldrinum 18-34 ára hafa lítinn áhuga á tölvum og tækni en aðeins 12% karla.

Glærur frá erindi Eddu má finna hér.

Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, fjallaði um mikilvægi þess að takast á við loftslagsbreytingar. Í máli Hrundar kom meðal annars fram að um 10.000 tonn af ís bráðna á Norðurskautinu á hverri sekúndu. Og að á hverjum degi bráðni nægur ís á Norðurskautinu til að sjá New York borg fyrir vatnsforða í heilt ár. Hvatti hún fyrirtæki sem og aðra til þess að leggja sitt af mörkum í baráttunni og lagði áherslu á nauðsyn þess umbylta því hvernig við nálgumst náttúruna.

Glærur frá erindi Hrundar má finna hér.

Hjálmar Gíslason, framkvæmdastjóri GRID, fjallaði um mikilvægi alþjóðasamstarfs í erindi sínu. Hann lýsti því hvernig nýsköpunarfyrirtæki líkt og GRID hefði nánast allt frá stofnun verið sett í þá stöðu að þurfa að eiga í samtali við bankann sinn um afkomu flugfélaga og loðnubrest. Ástæðuna fyrir því sagði hann vera krónuna sem væri jafnframt óheppilegur gjaldmiðill. Þá nefndi Hjálmar einnig að einfalda þyrfti erlendum sérfræðingum, sem ekki eru frá EES löndum, til muna að koma hingað til lands til starfa.

Nánari umfjöllun um erindi Hjálmars má finna hér.

Tengt efni

Jón Júlíus nýr samskiptastjóri Viðskiptaráðs

Jón kemur frá Ungmennafélagi Grindavíkur og mun hefja störf í október
12. sep 2023

Fasteignaskattar og hnignun hornskrifstofunnar

Gæti verið að í framtíðinni verði stór hluti vinnu sumra unninn inni á heimilum? ...
10. mar 2022

Allt í botn og engar bremsur hjá sveitarfélögunum?

Um árabil hefur rekstur sveitarfélaga á Íslandi verið ósjálfbær og í aðdraganda ...
6. maí 2022