Morgunverðarfundur um stöðu og horfur í ríkisfjármálum

Viðskiptaráð Íslands og Samtök atvinnulífsins efndu í dag til morgunverðarfundar um framvindu og horfur í rekstri hins opinbera. Fundurinn var vel sóttur og umræður líflegar. Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs stýrði fundi.

Ræðumenn voru Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, og Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður og formaður hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar.

Ríkið selji eignir til að grynnka á skuldum

Ásdís fjallaði um stöðu ríkisfjármálanna. Hún sagði ríkisútgjöld hafa verið of mikil og umframkeyrsla útgjalda miðað við áætlanir regla fremur en undantekning. Ásdís sagði ljóst að mikil skuldsetning íþyngi efnahagslífinu og vaxtakostnaður sé of hár. Hagkvæmustu leiðina til að tryggja sjálfbærni ríkisrekstrar taldi Ásdís vera niðurgreiðslu skulda í krónum talið, til dæmis með sölu eignahluta ríkisins í fjármálastofnunum og Landsvirkjun. Að öðrum kosti yrði vaxtakostnaður of hár og svigrúmið til að létta skattbyrði af atvinnulífinu takmarkað.

Kynningu Ásdísar má nálgast hér (vefur SA)

Kostnaðaraðhald í formi lægri fjárfestingar í stað hagræðingar

Í erindi Björns kom fram að við brúun fjárlagagatsins hafi ríkissjóður beitt tekjuaukningu í meiri mæli en samdrætti í rekstrarútgjöldum. Þá hafi kostnaðaraðhaldið fyrst og fremst verið í formi lægri fjárfestinga og viðhalds, sem sé frestun á vandanum þar sem slíkur niðurskurður valdi auknum útgjaldaþrýstingi síðar meir.

Björn sagði að skipun hagræðingarhópsins hefði verið framfaraskref. Þar hefðu stjórnvöld beitt nýrri nálgun og lagt áherslu á kerfisbreytingar sem stuðla að bættri nýtingu fjármuna í stað flats niðurskurðar og samdráttar í fjárfestingum. Þær tillögur sem hópurinn hefði skilað af sér gætu því skilað miklum ávinningi ef þær yrðu að veruleika. Því næst fór hann yfir þá aðferðafræði sem hann taldi nauðsynlega til að innleiðing tillagnanna yrði að veruleika.

Kynningu Björns má nálgast hér (pdf skjal)

Góð framvinda við innleiðingu hagræðingartillagna

Ásmundur Einar fór í erindi sínu yfir ferli þeirrar vinnu sem fram hefur farið innan hagræðingarhópsins. Hann greindi frá því að settur hafi verið á stofn samráðshópur allra ráðherra um innleiðingu tillagna hópsins. Ásmundur benti á að kerfisbreytingar af því tagi sem hagræðingarhópurinn hefur lagt til taki tíma og framkvæmd þeirra sé á ábyrgð fagráðherrana.

Ásmundur greindi frá því að framkvæmd 10 tillagna væri þegar lokið og nefndi sem dæmi fækkun og sameiningar lögreglu- og sýslumannsembætta. Hann sagði um 50 tillögur vera í vinnslu. Að lokum sagði Einar það vera mikilvægt umhugsunarefni að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og það kalli á aukin útgjöld til velferðarmála. Því þurfi íslenska ríkið að standa vel að málum.

Ríkisútgjöld og vaxtabyrði mikil áhyggjuefni

Að loknum erindum tóku við líflegar pallborðsumræður sem Hreggviður hafði umsjón með. Gestir í pallborði voru – auk Ásmundar Einars – Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður, Katrín Olga Jóhannesdóttir, stjórnarformaður Já, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Guðmundur Steingrímsson var fyrst spurður um hvort honum hugnaðist eignasala til að draga úr vaxtabyrði ríkisins. Guðmundur sagði að í stað eignasölu gæti verið skynsamlegt að nota arðinn sem kemur inn af eignum ríkisins til að greiða niður skuldir þess og í aðrar aðgerðir samanber fjárfestingu í nýsköpun, innviðum ferðamannastaða og í rannsóknir og þróun á græna hagkerfinu. Guðmundur nefndi tekjumöguleika sem forstjóri Landsvirkjunar hefur verið ötull að benda á, m.a. lagningu sæstrengs til Evrópu. Það væri slæmt ef ríkið myndi afsala sér slíkum tekjum án umhugsunar og Guðmundur sagðist því ekki hrifinn af hugmyndum að selja Landsvirkjun á þessum tímapunkti. Guðmundur setti að lokum stórt spurningamerki við það að vera með skuldsettan gjaldeyrisvarasjóð og taldi þörf á að skoða það að taka upp nýjan gjaldmiðil þar sem að skuldsetningin kæmi að hluta til út af krónunni.

Spurð um eignasölu ríkisins þá sagði Katrín Olga Jóhannesdóttir að hún teldi þörf á að skoða hana með opnum huga og benti hún á að það væri afar einfalt að setja sig upp á móti kerfisbreytingum. Katrín Olga lýsti yfir ánægju með þá leið sem farin var með stofnun hagræðingarhópsins og myndi vilja sjá hóp sem skoðar opið og faglega hvernig hægt væri að standa að sölu ríkiseigna.

Þorsteinn Víglundsson talaði um hvernig fjárlagahallinn hafi verið brúaður með auknum sköttum og sagði hann niðurskurði hafa verið mætt með því að fresta fjárfestingu. Þorsteinn sagði Ísland vera með eina mestu aukningu í ríkisútgjöldum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) meðal nágrannalandanna og sagði okkur ekki takast að temja þessi útgjöld og að siglt sé fram úr fjárlögum síendurtekið. Í ljósi þess sé ekki ástæða til að ætla að fimm ára áætlun í ríkisfjármálunum gangi eftir. Mikilvægt sé að hætta að ýta skuldavandanum á undan sér og taka á vandamálinu.

Elín Björg Jónsdóttir var spurð um rekstur sveitarfélaga og hvaða leiðir hún sæi færar til að koma þeim á réttan kjöl. Elín sagði það hafa skapað vandamál að mörg og kostnaðarsöm verkefni hafa verið flutt frá ríki til sveitarfélaga og nauðsynlegt fjármagn hafi ekki fylgt með. Hún sagðist einnig sannfærð um að sveitarfélögin séu allt of smá og fá og að þau verði að sameinast og verða hagkvæmar einingar til að geta veitt þá nærþjónustu sem er fólki mikilvæg. Elín taldi tillögur hagræðingarhópsins og Samráðsvettvangs um aukna hagsæld eiga vel við málefni sveitarfélaganna, en þar sé mikið rætt um hvernig hægt sé að fara vel með fé. Hún taldi mikilvægt að farið sé yfir það hvernig ríki og sveitarfélög geta sameinast um innkaupaleiðir til hagræðingar fyrir báða aðila þar sem fólk eigi mikið undir því að breytingar séu hugsaðar til enda.

Ólíkar skoðanir á áhrifum fjárlagafrumvarps

Í umræðum um fjárlögin kom fram að verið sé að stíga skref í átt til kerfisbreytinga og eitt af því sem rætt hefur verið um í því samhengi er breyting á virðisaukaskattskerfinu. Viðskiptaráð hefur m.a. talað fyrir einu skattþrepi, en misjöfn álit voru á því hvort að sátt myndi nást um eitt þrep og þá hversu hátt eða lágt það yrði.

Ásmundur Einar taldi mikilvægast að vinna í því að lækka efra þrepið sem mest og hafði efasemdir um að hækka virðisaukaskatt jafn mikið og stendur til á meðan efra þrepið er ekki að lækka meira en raun ber vitni. Guðmundur tók undir og sagði efra þrepið okkar of hátt, en sagðist þó tilbúinn að skoða hugmyndir um eitt virðisaukaskattsþrep og benti á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi á einhverjum tímapunkti nefnt 21% sem ákjósanlega tölu. Helstu rökin með því að vera með eitt þrep sé að þrepakerfið virki illa til tekjujöfnunar. Guðmundur sagði að til væru skilvirkari leiðir til að koma fjármunum til þeirra sem þurfi á þeim að halda. Hvað varðar fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu þá vildi hann sjá niðurstöðu vinnu starfshópa til að skoða áhrif breytinganna áður en farið væri af stað með breytingarnar. Það sem Guðmundur sagði að væri brýnt að taka til einföldunar væri tryggingagjaldið. Þorsteinn tók undir með Guðmundi að mikilvægt væri að vinna að því að gera breytingar á tryggingagjaldinu þar sem að það væri versti skattur sem hægt væri að leggja á lítil og meðalstór fyrirtæki.

Að lokum var spurt um það hvers vegna þörf væri á mótvægisaðgerðum við fyrirhugaðar breytingar á neyslusköttum í ljósi þess að Hagstofan greini neyslumynstur mismunandi tekjuhópa og miðað við þau gögn muni breytingarnar auka kaupmátt þeirra tekjulægstu mest allra (sjá greiningu á vef Viðskiptaráðs). Ásmundur Einar sagði þingflokk Framsóknar í heild með fyrirvara á málinu og að í þeim hópi séu efasemdir um að nægilega vel sé komið til móts við þá tekjulægstu en þingflokkurinn sé vissulega tilbúinn til að málið fái þinglega meðferð. Hann sagði Ísland fara í hærri VSK prósentu á matvæli en í flestum nágrannaríkjum miðað við tillögurnar og að nauðsynlegt sé einnig að bera saman velferðarkerfi ríkjanna þegar aðgerðirnar séu skoðaðar. Guðmundur reifaði sjónarmið þess efnis að lækkun efra þrepsins myndi mögulega ekki skila sér að fullu út í verðlag en Þorsteinn var ósammála því og nefndi dæmi um að það hafi gerst við fyrri skattalækkanir, t.d. árið 2007 (nánari upplýsingar má nálgast í frétt á vef SA).

Hér má nálgast glærukynningar af fundinum:

Ásdís Kristjánsdóttir – Ófullnægjandi aðhald ríkisfjármála: Er breytinga að vænta?

Björn Brynjúlfur Björnsson – Frá orðum til athafna: Innleiðing hagræðingartillagna

Myndir frá fundinum má nálgast á Flickr-síðu Viðskiptaráðs

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing 2022

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2022 sem Viðskiptaráð stóð fyrir á ...
25. maí 2022

Hvert stefnir verðbólgan?

Huga ætti að vaxtahækkunarferlinu í litlum skrefum til að kæla frekar en að kæfa ...
31. mar 2022

Að kippa vísitölu úr (húsnæðis)lið

Þegar allt kemur til alls er varhugavert að breyta undirliggjandi þáttum ...
10. mar 2022