Umhverfishópur Viðskiptaráðs tekur til starfa

Umhverfishópur Viðskiptaráðs Íslands. Á myndina vantar Helgu Jóhönnu Bjarnadóttur

Vinna umhverfishóps Viðskiptaráðs Íslands hófst með formlegum hætti í gær. Hópurinn er fjölmennasti málefnahópur Viðskiptaráðs en í honum sitja fulltrúar þrettán aðildarfélaga.Aðrir málefnahópar Viðskiptaráðs eru efnahagshópur, fjölbreytnihópur og nýsköpunarhópur, sem nýlega sendi frá sér 10 aðgerðartillögur til að efla nýsköpun í íslensku samfélagi.

Fulltrúarnir í umhverfishópi Viðskiptaráðs koma vítt og breitt úr viðskiptalífinu en í honum eru:

  • Anna Björk Bjarnadóttir, Advania
  • Birna Ósk Einarsdóttir, Icelandair
  • Erna Gísladóttir, BL
  • Gréta María Grétarsdóttir, Festi
  • Torfi Þ. Þorsteinsson, HB Grandi
  • Guðmundur Þór Gunnarsson, Samskip
  • Helga Jóhanna Bjarnadóttir, EFLA
  • Magnús Þór Ásmundsson, Alcoa
  • Már Erlingsson, Skeljungur
  • Ragna Árnadóttir, Landsvirkjun
  • Þorsteinn Kári Jónsson, Marel
  • Þorsteinn Svanur Jónsson, Klappir Grænar Lausnir
  • Þórarinn Ævarsson, IKEA

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, sagði í tilefni af stofnun hópsins:Loftslagsmál eru ein stærsta áskorun sem við mannkyn stöndum frammi fyrir um þessar mundir.Viðskiptalífið, með umhverfishóp Viðskiptaráðs í fararbroddi, ætlar að leggja sitt af mörkum við að finna leiðir til að mæta þessari áskorun.

Fyrsta verkefni hópsins verður að rýna aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem kynnt var á síðasta ári með það að markmiði að móta tillögur um hvað viðskiptalífið geti gert svo markmið áætlunarinnar náist, en markmið hennar er í samræmi við Parísarsáttmálann.

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, er formaður umhverfishópsins. „Það er ljóst af umræðunum sem sköpuðust á fundinum að það er mikill vilji til að taka þetta verkefni föstum tökum og móta markvissar tillögur til aðgerða, sagði Ragna eftir fyrsta fund hópsins. Við ætlum meðal annars leggja áherslu á nýsköpun á sviði loftslagsmála og jafnframt horfa á loftslagsmálmeð nokkuð víðari linsu en gert er í aðgerðaáætluninni.“

Viðskiptaráð skilaði umsögn um áætlunina, þar sem ráðið styður markmið hennar um þriðjungs samdrátt á útblæstri gróðurhúsalofttegunda á tilteknum sviðum fyrir árið 2030. Viðskiptaráð leggur áherslu á að þessum markmiðum verið náð í sem mestri sátt viðskiptalífsins, hins opinbera og landsmanna allra. Umsögn ráðsins má lesa hér.

Af þessum sökum leggur Viðskiptaráð áherslu á að skattar sem hugsaðir eru sem loftslagsaðgerðir, svo sem kolefnisgjald, verði tekjuhlutlausir en feli ekki í sér aukna skattheimtu hins opinbera.Álagning kolefnisgjald ein og sér er sterk aðgerð í þágu loftslagsmála því því rétt og eðlilegt að hún myndi ekki nýjan skattstofn fyrir ríkið. Tekjum af gjaldinu ber því að skila til landsmanna og fyrirtækja í formi lægri skatta, hærri persónuafsláttar og niðurfellingar skatta og gjalda á vel skilgreindar vörur sem styðja við markmið aðgerðaáætlunarinnar.

Þá leggur Viðskiptaráð áherslu á að ráðist verði fyrst í aðgerðir sem skila sem mestum árangri með sem minnstum kostnaði. Þannig skapast mest sátt um aðgerðirnar. Til að ná þessu markmiði kallar Viðskiptaráð eftir því að settir verði mælanlegir mælikvarðar fyrir aðgerðir í loftslagsmálum svo hægt sé að greina hvað skilar mestum árangri.

Umhverfishópur Viðskiptaráðs mun fylgja þessum áherslum eftir og kynna fleiri til sögunnar, meðal annars sem snúa að því hvað fyrirtæki geta gert til að draga úr útblæstri og til að auðvelda starfsfólki sínu að draga úr útblæstri í leik og starfi.

Umhverfishópurinn leggur auk þess áherslu á nýsköpun á sviði loftslagsmála, svo sem við að finna áður óþekktar leiðir til að draga úr útblæstri eða fanga koltvísýring úr andrúmslofinu. Hið opinbera getur þar lagt mikið af mörkun með því að skapa hagfellt umhverfi til nýsköpunar á þessu sviði sem öðrum en ljóst þykir að frumkvæðið þurfi að koma frá viðskiptalífinu.

Loks er ljóst að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar tekur aðeins til hluta útblásturs og undanskilur ákveðna geira í takt við Parísarsáttmálann. Til viðbótar við vinnu sína við skoðun aðgerðaáætlunarinnar mun umhverfishópurinn því einnig beina sjónum sínum að öðrum geirum en aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar horfir til.

Allar frekari upplýsingar veitir Gunnar Dofri Ólafsson, starfsmaður hópsins og lögfræðingur Viðskiptaráðs.

Tengt efni

Vel heppnað Viðskiptaþing 2023

Húsfyllir var á vel heppnuðu Viðskiptaþingi 2023 sem fór fram á Hilton Reykjavík ...
20. feb 2023

Skortur á samráði um losunarheimildir

Viðskiptaráð skilaði inn umsögn með Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar ...
12. okt 2023