Náttúrupassi

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um náttúrupassa. Ráðið fagnar því að stjórnvöld láti þetta mál sig varða og leggur til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til athugasemda þess.

Umsögnina í heild sinni má nálgast hér (PDF).

Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Viðskiptaráð styður hugmyndir um gjaldtöku á ferðamannastöðum. Gjaldtaka er besta leiðin til tekjuöflunar vegna uppbyggingar ferðamannastaða, en veigamiklir gallar eru við aðra valkosti sem nefndir hafa verið, þ.e. framlög úr ríkissjóði, komugjald á flugferðir og gistináttagjald.
  • Þeir staðir sem henta vel til sértækrar gjaldtöku ættu að hafa lagaheimild til að innheimta gjald af ferðamönnum. Aðrir staðir ættu að falla undir náttúrupassa. Slík útfærsla dregur úr átroðningi á vinsælustu ferðamannastöðunum ólíkt einum náttúrupassa fyrir alla áfangastaði. Þá skapar hún sterkari forsendur til nýsköpunar og uppbyggingar nýrra áfangastaða.
  • Æskilegra er að gjaldtaka fari í gegnum sjálfseignarstofnun fremur en í gegnum ríkissjóð. Slíkt kemur í veg fyrir að gjaldið verði að skattstofni þegar krafan um innviðauppbyggingu dvínar. Þá ber að afnema gistináttaskatt samhliða upptöku náttúrupassa.
  • Stærsta áskorun ferðaþjónustunnar er að auka verðmætasköpun á hvern ferðamann. Gjaldtaka á ferðamannastöðum er lykilskref í átt að því markmiði. Auk þess þarf að endurskoða umgjörð auðlindastjórnunar og bæta rekstrarumhverfi greinarinnar.
  • Fyrirliggjandi frumvarp er betra en óbreytt ástand. Brýnt er að gera breytingar á núverandi fyrirkomulagi sem fyrst til að náttúruperlur landsins liggi ekki áfram undir skemmdum. Viðskiptaráð leggur því til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til athugasemda ráðsins.

Umsögnina í heild sinni má nálgast hér (PDF).

Tengt efni

Hvað þarf hið opinbera marga tekjustofna?

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi eru tekjustofnar ríkisins eftirfarandi: ...
15. nóv 2019

Óskynsamlegar aðgerðir ríkisstjórnar í skattamálum

Samkvæmt nýsamþykktu frumvarpi fjármálaráðherra mun skattheimta af sölu áfengis ...
29. maí 2009