Af hverju þarf hagvöxt?

Markmið allra þjóða er að stefna að sem bestum lífskjörum íbúanna. Þó stundum hafi reynst erfitt að ná fullkominni sátt um hver sé heppilegasti mælikvarðinn á lífskjör þjóða er engu að síður betra að reyna að nálgast skilgreiningu á lífskjaraviðmiðum en láta það ógert með öllu.

Ein leið til þess er mat á efnahagsumsvifum. Verg landsframleiðsla (VLF) er mæld sem markaðsvirði þess sem framleitt er í hagkerfinu og hagvöxtur skilgreindur sem árlegur vöxtur slíkra verðmæta. Það er ljóst að hagvöxtur tekur ekki tillit til allra þeirra þátta sem eru hluti af lífskjörum, líkt og vellíðan eða lífshamingju. Þó eru skýrar vísbendingar um að jákvætt samband sé á milli rauntekna og lífshamingju annars vegar og neikvætt samband á milli atvinnuleysis og lífshamingju hins vegar.

Á síðustu 20 árum hafa kaupmáttur launa á Íslandi og landsframleiðsla á mann fylgst nánast fullkomlega að (sjá mynd) og þó hagvaxtarmælingar séu ekki einar og sér fullkominn mælikvarði á lífsgæði þá verður ekki litið framhjá jákvæðum áhrifum á kaupmátt og atvinnu. Hvort tveggja stuðlar að bættum lífskjörum. Þess vegna eru hagvaxtartölur ágæt vísbending um þróun lífskjara.

Af þessum ástæðum eru flestar ríkisstjórnir sammála um kosti þess að efla og stuðla að sem mestum varanlegum hagvexti. Á Íslandi hefur þetta um margt gengið vel, hagvöxtur hefur að meðaltali verið um 3,7% á ári frá árinu 1945 og landsframleiðsla ríflega tífaldast á þeim tíma (sjá mynd að neðan). Þegar tillit er tekið til áhrifa fólksfjölgunar má segja að lífskjör hafi ríflega fjórfaldast á síðustu 65 árum.

Þá er nærtækt að spyrja á hvað grunni hagvöxtur byggir. Í stutt máli þá liggur svarið í framleiðniaukning, þ.e. vexti þess magns sem vinnuaflseining (einn maður á klukkustund) getur framleitt. Hefðbundnar ástæður framleiðniaukningar eru fjárfesting og efling mannauðs (fjölgun, menntun og þjálfun), en tækniframfarir, samþjöppun vinnuafls, sérhæfing, bætt nýting náttúruauðlinda og viðskipti leiða einnig til aukinnar framleiðni.

Samstaða um bætt lífskjör
Stefna og markmið um verðmætasköpun í íslensku hagkerfi hafa í besta falli verið óljós að undanförnu. Þó má greina ákveðna samstöðu um þá hugmynd að verðmætasköpun til framtíðar verði í meira mæli byggð á þekkingu og hugviti en minna á náttúruauðlindum. Þeir eru flestir sem geta sæst á þetta markmið, enda náttúrauðlindir af skornum skammti (þó endurnýjanlegar séu) auk þess sem nýting hugvits getur falið í sér meiri virðisauka án neikvæðra áhrifa á umhverfið.

Sé alvara á bak við fyrrgreint markmið um verðmætasköpun er nauðsynlegt að vinna markvisst og skipulega að því. Þar liggur beint við að leggja alúð við rækt mannauðs, með eflingu menntakerfis, sérstaklega á sviði raun-, verk- og tæknimenntunar og ekki síst á háskólastiginu. Þannig verði stuðlað að getu til að skapa verðmæti á grunni þekkingar, í formi nýsköpunar á grunni rannsókna og þróunar og vexti sprotafyrirtækja þegar þau skapa ný verðmæti og bæta við störfum. Forgangsröðun síðustu missera í niðurskurði til menntamála hefur því miður gengið þvert á þetta markmið og þarfnast róttækrar endurskoðunar.

Af sömu ástæðu hefur mönnum hefur verið tíðrætt um mikilvægi fjárfestinga í íslensku hagkerfi.  Fjármunir, vélar og tæki, sem nýtt eru til framleiðslu rýrna við notkun og með tíma og því er lágmarks fjárfesting nauðsynleg til að halda fjármunastofninum óbreyttum og búa í haginn til framtíðar. Fjárfesting í íslensku hagkerfi er nú í sögulegu lágmarki og verulega langt frá því að standa undir þessari endurnýjunarþörf.

Ekki er von til mikilla breytinga nema hér verði mótuð framsýn og aðlaðandi atvinnu- og efnahagsstefna sem glæðir trú fjárfesta, fyrirtækja og heimila á að þeim sé búin áhugaverð framtíð á Íslandi. Í því felst nauðsynleg endurskoðun á stefnu í ríkisfjármálum og skattlagningu, ákvörðun um framtíðarskipan peningamála og mótun stefnu um hvert lífsviðurværi Íslendinga getur verið til framtíðar. Einnig er nauðsynlegt að huga að tækifærum til framleiðniaukningar í íslensku atvinnulífi og nauðsynlegum aðgerðum til að þau verði nýtt. Þetta er markmið rannsóknarvinnu alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Mckinsey & Company, sem kynnt verður á haustmánuðum. Það er von okkar að sú vinna muni stuðla að uppbyggilegri umræðu um forsendur bættra lífskjara á Íslandi, sem er markmið sem allir ættu að geta sameinast um.

Hreggviður Jónsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir hverjum og einum kleift að ...
17. ágú 2022

Hver er þín verðbólga?

Reiknivél Viðskiptaráðs sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína ...
13. mar 2023

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir öllum kleift að reikna sína ...
29. mar 2023