Útflutningur í lausamöl

Komdu í smá hugarleikfimi: Horfðu í kringum þig og veltu fyrir þér hvaða hlutir eru framleiddir á erlendri grundu. Síminn eða tölvan sem þú lest þessa grein í er væntanlega innflutt. Lesir þú blaðið á gamla og góða mátann er það væntanlega ekki innflutt, en pappírinn, blekið og tækin í prentsmiðjunni eru líklega innflutt. Lyfin sem þú tókst í morgun eru líklega innflutt, ef ekki þá eru tækin sem framleiddu þau innflutt. Er kannski erfitt að finna fyrirbæri sem eru ekki innflutt eða byggja ekki á innflutningi? Jafnvel ómögulegt?

Ekkert er ókeypis

Prentvélar, símar, tölvur, lyf og svo framvegis. Allt kostar þetta eitthvað. Ekkert er ókeypis og til þess að afla einhvers þarf að láta annað af hendi. Í þessu tilfelli gjaldeyri sem aflað er með öflugum útflutningi (eða erlendri lántöku, en við munum öll hvernig það fór þegar hún var of mikil). Útflutningur er að sjálfsögðu ekki eina forsenda þess að við getum stuðlað að góðum lífskjörum, en það er óhugsandi að ímynda sér Ísland með sínum tækifærum og samfélagslegu innviðum án viðskipta við útlönd.

Tansanía í dag er Ísland 1918

Tölurnar tala sýnu máli. Útflutningur er 47% af árlegri verðmætasköpun Íslands (eða vergri landsframleiðslu). Innflutningur er á hinn bóginn um 43%, eða tæplega 1.100 milljarðar króna – næstum 16 svokallaðar Borgarlínur í innflutning á einu ári. Við fullveldi Íslands árið 1918 var hlutfall útflutnings litlu lægra (38%) en aftur á móti hefur landsframleiðsla á mann nærri 18-faldast síðan þá, sem byggir á samsvarandi vexti útflutnings. Það þýðir að lífskjör í Tansaníu eða á Vanúatú eru í dag, á mælikvarða landsframleiðslu, áþekk því sem var á Íslandi fyrir 100 árum síðan.

„Hvers vegna segir hann frá einhverju svona augljósu?“ kunna sumir lesendur að spyrja sig. Tíðindi síðustu mánaða benda eindregið til þess að rekstrarumhverfi útflutnings og horfurnar í efnahagslífinu hafi versnað og því er sjaldan betri tími til að minna á þessi augljósu sannindi. Í síðustu viku birtust fréttir um að afkoma tveggja af stærstu útflutningsfyrirtækjum landsins fari versnandi. Þetta eru fyrirtæki í stærstu atvinnugrein landsins, ferðaþjónustu, sem hefur staðið undir allt að helmingi efnahagsuppgangs síðustu ára – atvinnugrein sem allir sjá að horfir fram á hægari vöxt.

Hækkun launakostnaðar umfram framleiðni, ríflega 50% hækkun olíuverðs á einu ári og vaxandi erlend samkeppni er svo eitthvað sem fyrirtæki í öllum geirum finna fyrir. Ekki má heldur gleyma því að laun á Íslandi eru með því hæsta sem gerist og að Ísland er dýrasta OECD ríkið, sem getur reynst dýrkeypt fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni. Í hækkun launa og sterkri krónu getur auðvitað falist jákvæð þróun en í heimi harðnandi samkeppni getur sú þróun engu að síður leikið landsmenn grátt ef hún er ósjálfbær til lengri tíma.

Varlega en örugglega inn á meðalveginn

Fyrirtæki landsins vilja og geta sannarlega lagt sitt af mörkum til samfélagsins, en þau eru síður en svo botnlaus brunnur launahækkana og skatttekna. Feta þarf frekar hinn gullna meðalveg líkt og svo oft í lífinu. Varla finnast skýrari vísbendingar um að við séum komin út í lausamöl á þeim vegi heldur en þegar horfur fara versnandi í helstu útflutningsgreinum. Til að komast aftur inn á veginn gildir það sama og ef maður lendir í lausamöl úti í vegarkanti – varlega en örugglega þarf að stýra sér aftur inn á veginn. Í þessu samhengi þýðir það t.d. hófstillta kjarasamninga, að stjórnvöld stuðli að öflugu atvinnulífi með eins skilvirku skattkerfi og regluverki og unnt er og að peningastefna Seðlabankans styðji við nauðsynlegar fjárfestingar. Þannig geta útflutningsfyrirtæki, önnur fyrirtæki og efnahagslífið allt vaxið og dafnað – öllum til velsældar.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, þann 18. júlí 2018.

Tengt efni

Er bensín raunverulega dýrara en nokkru sinni fyrr?

Jafnvel þótt verð hafi ekki verið hærra í krónum talið hafa engin raunveruleg ...
22. feb 2022

Ekki skjóta sendiboðann

Efling segir framlag hins opinbera til nokkurra málaflokka benda til þess að ...
16. ágú 2022

Er Ísland ekki norrænt velferðarríki?

Efling heldur því fram að Ísland geti ekki talist vera norrænt velferðarríki. ...
6. júl 2022