Viðskiptaráð birtir heilbrigðisvísitölu atvinnulífsins

2013.11.6 Heilbrigdisvisitala 1Meðal þess sem Viðskiptaráð hefur lagt áherslu á undanfarin ár er mikilvægi þess að skapaðar verði sterkari forsendur fyrir sjálfbærri verðmætasköpun innan einkageirans. Nú þegar eru birtir ýmsir hagvísar sem gefa vísbendingar um þróun mála hvað þetta markmið varðar, en þeir takmarkast við afmarkaða þætti efnahagslífsins og gefa því ekki nægjanlega skýra heildarmynd.

Einföld mynd af getu atvinnulífsins til verðmætasköpunar
Með þetta til hliðsjónar hefur Viðskiptaráð Íslands tekið saman heilbrigðisvísitölu atvinnulífsins, en henni er ætlað að skapa aðgengilegt og einfalt yfirlit um getu atvinnulífsins til aukinnar verðmætasköpunar. Samsetning vísitölunnar byggir á helstu drifkröftum verðmætasköpunar og þar með þeim þáttum sem skapa forsendur fyrir sjálfbærum hagvexti.

Vísitölunni er skipt í sex undirvísitölur; fjárfestingarumhverfi, framleiðnigetu, innra jafnvægi, ytra jafnvægi, áhrif opinberra umsvifa og gæði mannauðs. Þannig má sjá hvaða áhrif ólíkir drifkraftar hafa haft á heildargetu atvinnulífsins til verðmætasköpunar. Þróun undirvísitalnanna gefur sterkar vísbendingar til stjórnvalda um hvar helstu tækifæri til efnahagsumbóta liggja og hvort efnhagsaðgerðir séu að skila tilætluðum árangri.

Tekin var saman þróun vísitölunnar frá árinu 2003, en á því ári ríkti nokkuð gott jafnvægi innan hagkerfisins. Af þeim sex undirvísitölum sem heilbrigðisvísitalan tekur til standa einungis tvær þeirra sterkari en við upphafsár vísitölunnar; framleiðnigeta atvinnulífsins og gæði mannauðs. Aðrar undirvísitölur hafa þróast til verri vegar, einkum og sér í lagi fjárfestingarumhverfið.

Í meðfylgjandi glærukynningu er fjallað nánar um tilgang og samsetningu vísitölunnar, þróun hennar undanfarinn áratug og helstu ályktanir sem draga má af niðurstöðunum. Ennfremur er tekin saman spá um þróun vísitölunnar næsta árið og fjallað um samband vísitölunnar og hagvaxtar.

Framlag til stefnumótunar í efnahagsmálum
Þess ber að geta að vísitalan er ekki hönnuð sem spálíkan og því ekki hugsuð sem sérstakt framlag til spágerðar. Hún gefur engu að síður sterkar vísbendingar um getu atvinnulífs til sjálfbærrar verðmætasköpunar sem er grundvöllur hagvaxtar. Með það til hliðsjónar er það von Viðskiptaráðs að birting vísitölunnar muni gagnast sem framlag í mótun heildstæðrar og árangursríkrar langtímaefnahagsstefnu.

Samantekt um heilbrigðisvísitölu atvinnulífsins má nálgast hér.

Fjölmiðlahorn Viðskiptaráðs er hér.

2013.11.6 Heilbrigdisvisitala 2

Tengt efni

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023