Fjárlagafrumvarpið 2011 - Niðurskurður að nafninu til

Fjárlög næsta árs litu dagsins ljós við upphaf þings í byrjun október. Frumvarpið endurspeglaði erfiða stöðu ríkissjóðs og var það boðað af hálfu ríkisstjórnarinnar. Áherslu átti nú að leggja á niðurskurð opinberra útgjalda, enda enn umtalsverður halli á ríkisrekstrinum og það þrátt fyrir tilkomu nýrra skatta og verulegra skattahækkana. Miðað við lýsingar fjármálaráðherra á fjárlagafrumvarpinu virðist sem svo sé raunin, en frumvarpið gerir í það heila ráð fyrir beinum aðgerðum til að bæta afkomu ríkissjóðs frá því sem ella hefðu orðið um 43 milljarða króna.

Gengið langt í að þurrausa tekjumöguleika - Samdráttur í skattstofnum
Óþarft er að fjölyrða um mikilvægi þess að taka verulega til í ríkisbúskapnum eigi markmið um sjálfbæran ríkissjóð að nást í samræmi við áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Róa þarf öllum árum að því að þetta markmið náist enda meginforsenda þess að gjaldeyrishöftum verði aflétt og hagkerfinu aftur stýrt á rétta braut. Þessi vegferð verður nú að markast öðru fremur af niðurskurði opinberra útgjalda. Útgjöldum ríkissjóðs var leyft að vaxa nær hömlulaust undanfarin ár án þess að grundvöllur væri fyrir til lengri tíma. Þá hafa stjórnvöld með nýjum álögum gengið langt í að þurrausa tekjumöguleika. Þetta má sjá af samdrætti í nær öllum skattstofnum umfram áætlanir og þeim fjármagns- og fyrirtækjaflótta sem æ meira hefur orðið vart við undanfarið. Verði haldið áfram á sömu braut er hætt við vítahring skattahækkana til að bæta upp fyrir minnkandi skattstofna og samsvarandi dræmum vaxtarhorfum hagkerfisins.

Viðbrögðum við niðurskurði þarf að mæta málefnalega og af festu
Niðurskurður er hins vegar ekki auðveldur í framkvæmd, líkt og komið hefur á daginn. Þeir sem þurfa að þola samdrátt fjárheimilda eru skiljanlega ósáttir við sitt hlutskipti, enda sneitt að hagsmunum þeirra með einum eða öðrum hætti. Slíkum viðbrögðum verða stjórnvöld að mæta málefnalega og af festu án þess þó að missa sjónar á þeim heildarhagsmunum sem í húfi eru. Efnahagslegan stöðugleika verður að setja í forgrunn. Á það sérstaklega við nú þegar veigamiklar forsendur fjárlaga, á borð við hagvaxtarspár, eru að miklu leyti brostnar. Að óbreyttu þyrfti því frekar að ganga lengra í niðurskurði en upphaflega var áætlað. Auknar eða óbreyttar fjárheimildir á einum stað kalla því á mun takmarkaðri fjárheimildir annars staðar í ríkisrekstrinum.

Enn er svigrúm til niðurskurðar í mörgum útgjaldaflokkum ríkissjóðs
Þar hjálpar til að enn er svigrúm til niðurskurðar í mörgum útgjaldaflokkum ríkissjóðs. Furðu vekur að það svigrúm hafi ekki verið nýtt frekar í fjárlagafrumvarpinu. Í stað þess að laga útgjöld ríkissjóðs frekar að tekjum eru stórir útgjaldaliðir látnir nær óhreyfðir og ekki nægilega leitast við að endurskilgreina þjónustuframboð hins opinbera. Þó ákveðnir útgjaldaliðir lækki sannarlega þá má færa fyrir því góð rök, sé litið á útgjaldavöxt síðustu ára og heildarumfang rekstrarvanda ríkissjóðs, að niðurskurður næsta árs sé ekki eins verulegur og látið er í veðri vaka. Þá virðist sem að fram til þessa hafi aðlögun ríkisrekstrarins grundvallast að miklu leyti á þremur þáttum: aukinni tekjuöflun í gegnum skattkerfið, frestun útgjalda og nýtingu uppsafnaðra fjárheimilda. Horft fram á veginn þá er hins vegar óhjákvæmilegt, á meðan lítið er gert til að stuðla að vexti hagkerfisins með hagfelldu umhverfi til fjárfestinga og atvinnurekstrar, að beita verður niðurskurðarhnífnum frekar en nú er gert.

Skoðunina í heild sinni má nálgast hér


Nánari upplýsingar um tillögur VÍ í ríkisfjármálum má finna í skýrslum ráðsins:

Tengt efni

Eignarhald íslenska ríkisins á skjön við önnur vestræn ríki 

„Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir ...
12. mar 2024

Keppni án verðlauna

Við fáum engin verðlaun fyrir að vera kaþólskari en páfinn
12. júl 2023

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á ...
26. jún 2023