Létta þarf byrðar skattgreiðenda

Í nýrri skoðun Viðskiptaráðs Bætt framleiðni, meira samstarf og minni byrðar bestu kosningaloforðin er fjallað um þrjú helstu úrlausnarefni næsta kjörtímabils að mati ráðsins. Þar kemur m.a. fram að skilvirkasta leiðin til að ýta undir lífskjarabata sé að auka framleiðni, þ.e. að gera fyrirtækjum og starfsmönnum þeirra kleift að skapa sem mest verðmæti með sem minnstum tilkostnaði.

Samhliða bættri framleiðni þarf jafnframt að takast á við ákveðna hagvaxtarhamlandi þætti. Þar verður einna helst að líta til skuldastöðu ríkissjóðs, sem er bágborin um þessar mundir. Það er þekkt að há skuldsetning hamlar eða dregur jafnvel með beinum hætti úr hagvexti. Þá sýnir ríkisreikningurinn vel hvílík blóðtaka leiðir af mikilli skuldsetningu sem ella mætti beina í þann farveg að næra grunnstoðir framleiðniaukningar. Þrátt fyrir að greiðsluseðlar vegna skulda ríkisins berist ekki mánaðarlega inná íslensk heimili þá eru það skattgreiðendur sem bera á endanum afborganirnar.

Árlegur viðbótarvaxtakostnaður ríkisins árin 2009-2016 verður að jafnaði 50 mö. kr. meiri en milli áranna 1999-2008. Það jafnast á við fjárframlög ríkisins nú í ár til Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og til rekstrar Landspítalans. Heildarvaxtakostnaður ríkisins nú í ár verður um 88 ma. kr. en það jafngildir árstekjuskattsgreiðslum um 148 þús. Íslendinga með meðallaun. Það ætti því að vera forgangsatriði, samhliða bættri umgjörð til verðmætasköpunar, að létta á skuldum hins opinbera á næsta kjörtímabili.

Í skoðuninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Lækka má árlegan vaxtakostnað ríkisins úr 88 mö. kr. í 73 ma. kr. sé hugsanlegum ágóða ríkisins af samningum við kröfuhafa gömlu bankanna nýttir til niðurgreiðslu skulda.
  • Það jafngildir að tekjuskattsgreiðslum rúmlega 20 þús. færri Íslendinga (með meðallaun) yrði varið ár hvert til greiðslu vaxtakostnaðar, miðað við það sem nú er.
  • Sé ætlunin að ráðstafa ágóðanum í aðra þætti þarf að vega það og meta út frá væntum lengri tíma ábata samfélagsins í heild.
  • Samhliða greiðslu skulda þarf að örva hagvöxt og þar verður hvað best gert með aukinni framleiðni.
  • Aukin framleiðni og lægri skuldir myndu jafnframt gera ríkinu kleift að bæta þjónustu sína gagnvart almenningi.
  • Samhent átak stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila þarf til að leggja grunn að auknum efnahagslegum og pólitískum stöðugleika.
  • Tillögur og verklag Samráðsvettvangs um aukna hagsæld eru til eftirbreytni og takist að mynda þverpólitíska sátt um innleiðingu a.m.k. meginþátta tillagna vettvangsins yrði Grettistaki lyft fyrir hag íslensks samfélags um ókomin ár.

Skoðunina má í heild sinni nálgast hér

Tengt efni

Eignarhald íslenska ríkisins á skjön við önnur vestræn ríki 

„Að mati Viðskiptaráðs á hið opinbera ekki að stunda atvinnurekstur sem aðrir ...
12. mar 2024

Má aðstoða hið opinbera? 

„Á meðan einkageirinn leiðir framleiðniaukninguna bendir ýmislegt til þess að ...
4. mar 2024

Gera þarf breytingar á fjölda og fjármögnunarkerfi sveitarfélaga

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (mál nr. 72/2023).
19. apr 2023