18.09.2019 | Skoðanir

Á flæðiskeri: Staða samkeppnismála á Íslandi

Hér má lesa Skoðun Viðskiptaráðs í heild sinni

Virk samkeppni skiptir miklu máli í öllum hagkerfum. Hún eykur framleiðni og verðmætasköpun, sem um leið eykur velsæld. Eðlilegt er að um markaði gildi reglur sem stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Þó ber að gjalda varhug við að ganga of langt í slíkri reglusetningu, þar sem slíkt getur hækkað kostnað og rýrt samkeppnishæfni fyrirtækja, sem bitnar ekki aðeins á atvinnulífinu, heldur einnig á neytendum.

Þar sem íslenskur markaður er sérstaklega smár og háður ýmsum séreinkennum felst ein stærsta áskorun samkeppnisyfirvalda í því að tryggja rétt jafnvægi á milli stærðarhagkvæmni og virkrar samkeppni. Samkeppnislöggjöfin þarf þannig að lágmarka takmarkandi áhrif smæðar hagkerfisins á vöxt fyrirtækja, en að vissu leyti er samkeppnislöggjöfin hérlendis strangari en á Norðurlöndunum og í Evrópu. Íslensk fyrirtæki eiga því erfitt með að ná fram stærðarhagkvæmni í sama mæli og erlendir keppinautar sem getur rýrt samkeppnishæfni Íslands sem heild.

Viðskiptalífið hefur lengi kallað eftir úrbótum á samkeppnislögum og framkvæmd þeirra og að hún sé færð nær því sem gerist í öðrum löndum á Evrópska efnahagssvæðinu. Viðskiptaráð fagnar því að stjórnvöld hafi lýst því yfir í stuðningi sínum við lífskjarasamninga síðastliðið vor að samkeppnislög verði endurskoðuð með það að markmiði að einfalda framkvæmd þeirra og auka skilvirkni, enda er slíkt öllum til hagsbóta. Í því samhengi eru fimm atriði sem Viðskiptaráð hefur lagt áherslu á að brýnt sé að endurskoða, viðskiptalífinu og almenningi til hagsbóta:

  1. Veltuviðmið verði hækkuð fyrir tilkynningarskyldu samruna
  2. Réttaröryggi fyrirtækja sé tryggt með því að fella niður áfrýjunarheimild SKE til dómstóla
  3. Heimild Samkeppniseftirlitsins til inngrips í fyrirtæki, án þess að viðkomandi fyrirtæki hafi gerst brotlegt við samkeppnislög, sé felld brott
  4. Undanþágur vegna samstarfs fyrirtækja verði afnumdar til samræmis við framkvæmd í Evrópu, og fyrirtæki leggi sjálfsmat á hvort samstarf þeirra falli innan undanþáguskilyrða
  5. Réttarstaða fyrirtækja við rannsókn mála sé bætt

Hér má lesa Skoðun Viðskiptaráðs í heild sinni

Viðfangsefni: Regluverk og eftirlit, Samkeppnishæfni