Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur

Í dag kom út skýrsla Viðskiptaráðs Útþenslan hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur þar sem fjallað er um fjármál hins opinbera og úrræði nú í lok langs hagvaxtarskeiðs í íslensku hagkerfi. 

Þrátt fyrir mikinn vöxt tekna síðustu árum hafa stjórnvöld ekki nýtt tækifærið til að draga hlutfallslega úr umsvifum hins opinbera og létta á framleiðsluspennu. Með því hefði verið létt verulega á viðvarandi framleiðsluspennu síðustu ára og svigrúm til útgjaldaaukningar samhliða efnhagssamdrætti væri mun meira.

Í ljósi þess að góð afkoma á síðustu árum hefur einkum byggst á mikilli aukningu tekna fremur en aðhaldi í útgjöldum má gera ráð fyrir að verulegasverfi að í fjármálum hins opinbera næstu ár.

Ástæður útþenslu hins opinbera má fyrst og fremst rekja til skorts á aga og skýrri stefnu hvað varðar þjónustuframboð hins opinbera. Á sama tíma hefur illa gengið að halda aftur af launaskriði og því hafa útgjöld til launagreiðslna vaxið mjög hratt. Hvort tveggja má rekja til þess að fjárlagaferlið og umgjörð fjármála hins opinbera býður upp á mikið valkvæði sem dregur verulega úr líkum þess að útgjöld séu hamin þegar tekjur eru nægar.

Til að stjórnvöld stuðli að samkeppnishæfni hagkerfisins í sem ríkustum mæli ber einkum að líta til þriggja þátta. Þessir þættir eru framlag til efnahagsstjórnar, hlutfallsleg umsvif hins opinbera í hagkerfinu og langtíma sjálfbærni ríkisfjármála.

Þar sem stjórnvöld stýra stórum hluta eftirspurnar í hagkerfinu geta þau með ákvörðunum sýnum og aðgerðum haft mikil áhrif á efnahagslegan stöðugleika. Til lengri tíma er því afar mikilvægt að framlag fjármálastjórnar stuðli að auknu jafnvægi. Þetta verður fyrst og fremst gert með því að styrkja fjárlagaferlið og draga verulega úr valkvæði stjórnvalda til umfangs útgjalda. Með því væri hægt að tryggja að langtímahagsmunir verði teknir fram fyrir skammtímahagsmuni í aðgerðum stjórnvalda og koma í veg fyrir að útgjöld hins opinbera vaxi umfram langtímavöxt hagkerfisins. Í ljósi þess að hagsveiflur hérlendis eru meiri en víðast annars staðar og áhrif hagsveiflna á ríkistekjur miklar er enn mikilvægara að styrkja fjármálastefnu hins opinbera en ella.

Verði þróun í útgjöldum hins opinbera ekki snúið við mun það vafalaust draga verulega úr samkeppnishæfni Íslands á komandi árum. Þróun hérlendis er á skjön við aðrar þjóðir innan OECD. Af þessum sökum hefur Ísland færst mun ofar á lista yfir þau OECD ríki þar sem hlutfallsleg útgjöld eru hæst og stefnir enn hærra að öðru óbreyttu. Því meiri sem opinber umsvif eru, þeim mun minna svigrúm er til staðar fyrir starfsemi einkaaðila.  Framleiðnivöxtur, sem er grundvöllur langtímahagvaxtar, er meiri innan einkageirans heldur en hjá hinu opinbera. Það er því grunnforsenda langtímahagsældar að kraftar einkaframtaksins séu nýttir til hins ítrasta. Með þetta í huga ættu stjórnvöld að stefna að því að draga hlutfallsleg útgjöld saman um fimmtung og skipa sér þannig í hóp samkeppnishæfustu þjóða heims, s.s. Ástralíu, Írlands, Sviss og Lúxemborgar.

Að lokum þurfa stjórnvöld að huga verulega að áhrifum vaxandi útgjalda á sjálfbærni hins opinbera til lengri tíma. Haldi vöxtur umsvifa áfram með sama hætti og verið hefur kemur að þeim tímapunkti að skattgreiðslur standi ekki undir þjónustuframboði og rekstri hins opinbera. Í raun má gera ráð fyrir að þeim krossgötum sé nú þegar náð og því nauðsynlegt að endurskoða fjármál hins opinbera. Viðvarandi útþensla mun að öðrum kosti koma harðar niður á þjónustuhlutverki hins opinbera ef fram fer sem horfir. Þannig er viðbúið að samdráttur í skatttekjum með tilheyrandi fjárlagahalla muni kalla á afar afgerandi aðgerðir í rekstri hins opinbera – aðgerðir sem jafnvel hefði ekki þurft til ef haldið hefði verið þéttar um taumana.

Skattabreytingar síðustu ára hafa skilað ótvíræðum árangri og því væru breytingar í átt að aukinni skattheimtu eingöngu til þess fallnar að veikja samkeppnishæfni hagkerfisins og gætu jafnvel dregið úr skatttekjum. Lausnin er því án vafa fólgin í því að snúa við hlutfallslegum vexti hins opinbera og um leið endurmeta þjónustuframboð og starfsemi þess með það í huga.

Til að stuðla að þessu markmiði leggur Viðskiptaráð til að stjórnvöld ráðist í eftirfarandi úrbætur:

Mótun fjárlaga:

  • Meta þarf raunverulega fjárþörf frá grunni
  • Styðjast þarf við hagspár óháðra aðila
  • Efla og flýta þarf upplýsingagerð
  • Auka þarf trúverðugleika fjárlagagerðarinnar
  • Styrkja þarf fjárlagarammann með bindandi langtímaútgjaldaþaki

Þingleg afgreiðsla fjárlaga:

  • Takmarka þarf fjárstjórnarvald Alþingis
  • Draga þarf úr notkun fjáraukalaga.

Framkvæmd fjárlaga

  • Efla þarf agaviðurlög og beitingu þeirra.

Setja ætti útgjaldaramma sem miðast við fastan nafnvöxt. Þannig jafnast sveiflur því opinber útgjöld aukast í samdrætti og dragast saman í þenslu.

  • Útgjaldareglu ætti að setja til lengri tíma og miða við langtíma framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið.
  • Útgjaldarammi eykur gegnsæi fjármálastefnu og styður við peningastefnu Seðlabankans.
  • Útgjaldaramma má laga að pólitískum markmiðum.

Samhæfa á fjármálastjórn ríkis og sveitarfélaga og peningastjórn Seðlabankans með skipan efnahagsráðs fulltrúa þessara aðila:

  • Hlutverk efnahagsráðs yrði að gefa út opinber álit og ráðleggingar á sviði hagstjórnar í samstafi við hagsmunaaðila atvinnulífs.
  • Ríki og sveitarfélög ættu að koma sér afdráttarlaust saman um útgjaldamarkmið.
  • Bæta á við markmiðum um fjármál ríkissjóðs í stjórnarsáttmála hverju sinni.

Draga á útgjöld hins opinbera saman um fimmtung á næstu 10 árum.

  • Markmið næstu ára um langtímavöxt útgjalda hins opinbera ætti að vera 1% lægri en langtíma framleiðniaukning hagkerfisins.
  • Hið opinbera ætti ávallt að draga sig út úr starfsemi þar sem einkaaðilar hafa haslað sér völl því samkeppnishæfni Íslands byggir á framleiðiniaukningu, sem er meiri í einkageiranum heldur en hjá hinu opinbera.

Skoða skýrsluna

Tengt efni

Hæpnar forsendur og ósjálfbær útgjaldavöxtur

Umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023
12. okt 2022

Er bensín raunverulega dýrara en nokkru sinni fyrr?

Jafnvel þótt verð hafi ekki verið hærra í krónum talið hafa engin raunveruleg ...
22. feb 2022

Sóknarfæri á tímum sjálfvirknivæðingar

Aukinni sjálfvirknivæðingu fylgja áskoranir en um leið ýmis tækifæri
6. apr 2022