Skýrsla til Viðskiptaþings: Endurreisn hagkerfisins – Horft til framtíðar

Viðskiptaráð Íslands hefur gefið út nýja skýrslu í tengslum við Viðskiptaþing 2009, sem haldið var á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Skýrslan tengist umfjöllunarefni þingsins, en hún ber heitið „Endurreisn hagkerfisins – Horft til framtíðar“. Í skýrslunni er einkum fjallað um mikilvægi þess að líta til framtíðar og fjallað um þær áherslur sem heppilegast er að hafa að leiðarljósi í því endurreisnarstafi sem framundan er.

Í skýrslunni er drepið á mörgum málum sem snerta framtíð íslensku þjóðarinnar til skemmri og lengri tíma . Þar ber einna helst að nefna aðkomu hins opinbera að atvinnurekstri og atvinnulífinu almennt, mikilvægi athafnafrelsis, menntamál og Evrópusamabandið, svo fátt eitt sé nefnt. Þá er fjallað um aðdraganda og orsakir kreppunnar og varað við þeim hættum sem geta skapast ef ekki er brugðist rétt við.

Skýrsluna má nálgast rafrænt hér
Einnig er hægt að nálgast skýrsluna á prenti á skrifstofu Viðskiptaráðs Íslands gegn vægu gjaldi.


Nánar um skýrsluna:

Efni skýrslunnar er í þremur hlutum, þar sem mestur þungi er lagður á fyrstu tvo. Í fyrsta hlutanum er leitast við að draga fram úrlausnarefni sem gjarnan eru fylgifiskar hastarlegrar niðursveiflu efnahagslífs. Þar má nefna hættu á fólks- og fjármagnsflótta, stefnu í átt til hafta og einangrunar og skerðingu athafnafrelsis. Í öðrum hluta skýrslunnar er litið til framtíðar og reifaðar hugmyndir um hvernig farsælast er að taka á vandamálum kreppunnar. Við blasir að byggja þarf upp traust í samfélaginu, á milli stjórnvalda, atvinnulífs og almennings. Skilgreina þarf hlutverk og umsvif hins opinbera í atvinnurekstri, koma á jafnvægi í opinberum fjármálum og móta stefnu í utanríkis- og peningamálum sem getur leitt til varanlegs efnahagslegs stöðugleika. Einnig er nauðsynlegt að viðskiptalíf endurskoði áherslur í rekstri og stjórnarháttum.

Í þriðja hluta skýrslunnar er leitast við að varpa ljósi á aðdraganda og orsakir efnahagskreppunnar. Þó svo æskilegt sé að við mörkun stefnu sé til staðar haldgóður skilningur á fortíð, þá eru engar einhlítar eða einfaldar skýringar á orsökum hruns íslenska fjármálakerfisins. Í aðdraganda hrunsins fóru saman margvíslegir áhrifaþættir, en þar má nefna hraða nútímavæðingu íslenska fjármálkerfisins, alþjóðlegt alsnægtatímabil, óheppilega tímasetningu og ferli einkavæðingar, bitlausa peningastefnu, slaka hagstjórn, reynslulítið eftirlitskerfi og óvarkárar áherslur og aðferðir í íslensku viðskiptalífi.

Samvirkni þessara þátta (og fleiri) olli hruni fjármálageirans og kreppu í íslensku efnahagslífi. Því má segja að orsaka og ábyrgðar sé víða að finna. Í ranni viðskiptalífs, stjórnmála, eftirlitsstofnana og víðar. Hver verður fyrir valinu ræðst gjarnan af hagsmunum þess er velur. En hvert svo sem athugun á orsökum kreppunnar leiðir breytir það því ekki að brýnasta verkefnið framundan eru aðgerðir til endurreisnar. Uppbygging skýrslunnar ber keim af þessu með áherslu á úttekt á afleiðingum kreppunnar og hvernig á þeim skuli tekið. Umfjöllun um aðdraganda og orsakir er hér hafðar með til frekari fróðleiks.

Í ljósi þess að undanfarnir mánuðir hafa einkennst um of af svartsýni og depurð er mikilvægt að árétta, án þess að lítið sé gert úr alvarleika núverandi efnahagsþrenginga, að framtíðarhorfur Íslands eru góðar. Lífsskilyrði á Íslandi munu áfram verða með því sem best þekkist á heimsvísu enda byggja þau á sterkum grunnstoðum, ríkulegum náttúruauðlindum og öflugu fólki. Allir gera sér grein fyrir því að verkefnið framundan er erfitt og flestir átta sig á því að það mun ekki leysast svo öllum hugnist. En ef gengið er í verkið af bjartsýni og áhuga, með markmið um árangur og uppbyggingu að leiðarljósi, þá mun það vinnast og hagur Íslands og Íslendinga vænka. Ekkert annað kemur til greina og er það von Viðskiptaráðs Íslands að sú umfjöllun sem hér fer á eftir verði til gagns í þessu mikilvæga verkefni.

Tengt efni

Virkjum fallega

Skiptar skoðanir eru um raforkuframleiðslu á Íslandi. Dæmin sanna að ...
24. ágú 2022

Uppvakningar viðskiptalífsins

Í mörgum hrollvekjum eru fyrirbæri sem nefnast uppvakningar í aðalhlutverki. ...
9. okt 2009

Látum ekki deigan síga

Það er óhætt að segja að síðustu tvö ár hafi verið ein þau viðburðaríkustu í ...
24. feb 2010