Hvert fer peningurinn þegar þú verslar á Íslandi?

Jólin ganga senn í garð og óhætt að segja að jólaverslunin sé hafin af fullum krafti eftir „svartan föstudag“ og „net-mánudag“. Umfang jólaverslunar hleypur á milljörðum króna, en í hvað fara þessir milljarðar?

Glænýjar tölur Hagstofunnar um rekstur fyrirtækja varpa einhverju ljósi á svarið. Sundurliðuð velta, eða rekstrartekjur, í smásöluverslun í heild sinni sýnir að langstærsti kostnaðarliður smásölu er vöru- og hráefniskostnaður, sem kemur lítið á óvart. Næststærsti liðurinn er launakostnaður en þar á eftir annar rekstrarkostnaður.

Gögnin sýna þróunina allt aftur til 2002 en síðan þá, hafa orðið tiltölulega litlar breytingar á skiptingunni en veltan hefur aukist um 53% í samræmi við fólksfjölgun og aukinn kaupmátt. Á meðan rekstrarhagnaður hefur hlutfallslega staðið í stað hefur vægi launa- og rekstrarkostnaðar aukist á kostnað vöru- og hráefnisnotkunar. Ef við skoðum svo rekstrarhagnað nánar má sjá að 1 af hverjum 100 krónum sem heimilin vörðu í smásöluverslun árið 2018 var greidd út í arð.

Hægt er að beita sömu aðferð til sundurliðunar á veltu í atvinnulífinu almennt, eða viðskiptahagkerfinu í heild sinni án fjármálaþjónustu og lyfjaframleiðslu. Þar breytist myndin nokkuð mikið – vöxtur tekna hefur verið meiri, að miklu leyti vegna aukins vægi útflutningsgreina og er kostnaðarskiptingin talsvert frábrugðin. Vægi vöru- og hráefniskostnaðar er minna og var um 48% árið 2018 á meðan launakostnaður vegur þyngra eða 22%. Ástæðan er að einhverju leyti sú að í mörgum atvinnugreinum er veitt þjónusta þar sem vöru- og hráefniskostnaður er lítill eða enginn. Rekstrarhagnaður nam 12% af tekjum árið 2018, sem er nokkuð meira en í smásölu og virðist það skýrast af því aðrar atvinnugreinar en smásala krefjast að jafnaði meiri fjárfestingar, sem endurspeglast í hlutfallslega meiri eignum auk hærri afskrifta og fjármagnskostnaðar.

Staðreyndin byggist á „Ráðdeildinni“ sem birtist í Markaðnum 4. desember 2019.

Tengt efni

Ríkið herðir hnútinn á leigumarkaði

Frumvarp um breytingar á húsaleigulögum er enn einn rembihnúturinná leigumarkaðinn
31. ágú 2023

Hver er þín verðbólga?

Viðskiptaráð hefur sett upp reiknivél sem gerir öllum kleift að reikna sína ...
29. mar 2023